— Morgunblaðið/Rax
TILKYNNT var í gær um tvær nýjar útgáfur svonefndra jöklabréfa, en svo nefnast þau skuldabréf sem erlendir aðilar gefa út í íslenskum krónum. Samtals var um að ræða 10 milljarða króna.
TILKYNNT var í gær um tvær nýjar útgáfur svonefndra jöklabréfa, en svo nefnast þau skuldabréf sem erlendir aðilar gefa út í íslenskum krónum. Samtals var um að ræða 10 milljarða króna.

Annars vegar gaf hollenski bankinn Rabobank út skuldabréf fyrir fimm milljarða króna og hins vegar gaf Export Development Canada (EDC) út skuldabréf fyrir jafn háa fjárhæð. Frá þessu er greint í Vegvísi greiningardeildar Landsbanka Íslands.

Segir í Vegvísinum að báðar útgáfurnar séu til eins árs og að ávöxtunarkrafa bréfanna sé annars vegar 13% og hins vegar 13,25%.

"Það sem af er þessari viku hefur því verið tilkynnt um jöklabréfaútgáfur fyrir 18 milljarða króna," segir greinigardeildin. "Þetta er fyrsta jöklabréfaútgáfa EDC, sem starfar á vegum kanadíska ríkisins við fjármögnun og áhættustýringu fyrir þarlend útrásarfyrirtæki. Rabobank hefur hins vegar verið nokkuð fyrirferðarmikill á þessu sviði, en bréf bankans fyrir sömu upphæð og útgáfan nú falla á gjalddaga í ágúst. Útgáfurnar nú ýta undir frekari væntingar um að stærstur hluti þeirra 100 milljarða sem falla á gjalddaga á seinni hluta ársins verði framlengdur."