ÞAR kom að því. Það er hægt að blása lífi í allt ef viljinn er fyrir hendi. Í Mekka efnishyggjunnar er nú búið að vinna vörumerkjatryggðina í hæstu hæðir. Eða kannski er betur við að hæfi að segja norður og niður.
ÞAR kom að því. Það er hægt að blása lífi í allt ef viljinn er fyrir hendi. Í Mekka efnishyggjunnar er nú búið að vinna vörumerkjatryggðina í hæstu hæðir. Eða kannski er betur við að hæfi að segja norður og niður. Það fer líklegast eftir innihaldinu, því í henni Ameríku er nú farið að selja líkkistur og krukkur undir ösku með uppáhaldsvörumerki þess látna. Íþróttafélög, hjálparsamtök, já eða bara gamla góða kók eru nú komin með enn eina tekjulindina, þó markhópurinn sé kannski ekkert sérlega líflegur.

Eternal Image, sem staðsett er í Bandaríkjunum og á hugmyndina að því að merkja kistur og krukkur með þekktum vörumerkjum, segist á vefsíðu sinni hafa samið við 30 hafnaboltalið um afnot af merkjum þeirra. Gæludýr eru ekki undanskilin, því hægt er að fá krukkur undir öskuna, merktar hunda- og kattavinafélögum.

Eternal Image, sem hefur nú fundið leið til að sýna vörumerkjatryggð út yfir gröf og dauða, stílar sérstaklega inn á hina margumtöluðu "babyboomers"-kynslóð sem þekkir sig vel í vörumerkjafrumskóginum. Hér heima væri það líklega spurning hvort kistan eigi að vera merkt Val eða KR?