Húsnæðislán Fasteignaverð vestanhafs lækkar enn, enda nægt framboð. Aukin vanskil hrella markaðina.
Húsnæðislán Fasteignaverð vestanhafs lækkar enn, enda nægt framboð. Aukin vanskil hrella markaðina. — Reuters
VANDRÆÐI húsnæðislánamarkaðsins í Bandaríkjunum eru orðin eitt helsta áhyggjuefni á hlutabréfamörkuðum vestra. Er þetta fullyrt í frétt New York Times .
VANDRÆÐI húsnæðislánamarkaðsins í Bandaríkjunum eru orðin eitt helsta áhyggjuefni á hlutabréfamörkuðum vestra. Er þetta fullyrt í frétt New York Times . Ótti fjárfesta fer vaxandi enda berast æ fleiri tilkynningar um áhættulán í vanskilum sem koma illa við lánadrottna. Slík bakslög geta haft mun víðtækari áhrif og snert fjármálakerfið og hagkerfið í heild sinni.

Countrywide Financial, stærsta húsnæðislánafyrirtækið á Bandaríkjamarkaði, lýsti því yfir á þriðjudaginn að vanskil lánþega með góða viðskiptasögu hefðu aukist. Þá spáðu þeir að fasteignamarkaðurinn myndi jafnvel ekki rata á beinu brautina fyrr en árið 2009. Fasteignaverð hefur tekið miklar dýfur undanfarið og hafa sambærilegar verðlækkanir ekki sést áratugum saman. Er með þessu komið annað hljóð í strokkinn, en hingað til hafa sambærilegir aðilar spáð tiltölulega fljótum bata.

Slæmt ársfjórðungsuppgjör, 33% tekjulækkun milli ára og bölsýnisspár Countrywide Financial leiddu til 10% verðlækkunar á bréfum fyrirtækisins. Countrywide hefur áður sagst eiga í vandræðum með svokölluð áhættuhúsnæðislán (e. sub-prime ) á sínum vegum. Er þar átt við lán til aðila með vafasama viðskiptasögu. Nú hefur vanskilaveikin hins vegar breiðst út til "betri kúnnanna" og því telur viðmælandi BBC hjá Morgan Stanley að óróinn sé orðinn meiri. Jafnvel sterk fyrirtæki á borð við Countrywide gætu tapað miklu.

Verðlækkun bandarískra fasteigna kemur á endanum fram í vísitölunum

Í kjölfar vátíðindanna frá Countrywide hefur upphafist sölubylgja á mörkuðum. Aðeins nokkrum dögum eftir að ný met voru sett hefur Dow Jones fallið um 1,6% og Standard & Poor's um 2%. Tæknivísitalan Nasdaq féll um 1,9%, sem er mesta lækkun í rúma þrjá mánuði. Apple féll til dæmis um 6%, enda hefur sala á hinum nýja iPhone ekki staðið undir væntingum. Markaðsfræðingar segja lækkanirnar þó eðlilegan fylgifisk nýju metanna, fjárfestar vilji auðvitað ná sér í hagnað áður en niðursveiflan brestur á.

Gott er að gera sér grein fyrir vandanum en lausn virðist þó ekki vera í sjónmáli. Talsvert framboð er af fasteignum á markaði, sem var einmitt forsenda hrakspár Countrywide Financial. Í lok aprílmánaðar hafði fasteignaverð lækkað um 2,1% frá því fyrir ári. Þetta kemur sér vitanlega illa fyrir einstaklinga sem þurfa að endurfjármagna húsnæðislán sín að einhverju leyti. Talsvert af útistandandi lánum Countrywide Financial eru viðbótarlán sem tekin eru til að fjármagna húsnæðiskaup að fullu.

Matsfyrirtæki hafa nú lækkað einkunnir húsnæðisbréfa sem hindrar fjármögnun húsnæðiskaupa. Verðbréfasjóðir sem byggja að hluta til á slíkri lánastarfsemi eiga nú í erfiðleikum með fjárfesta sína sem eru ósáttir við slæmt gengi. Eitt skýrasta dæmið um þetta er fjárfestingarbankinn Bear Stearns sem Morgunblaðið hefur fjallað um. Víst er að enginn vill vera í þeirra sporum.