Þorbergur Gíslason fæddist 3. september 1985. Hann fórst í bílslysi í Norðurárdal aðfaranótt 8. júlí síðastliðins og var útför hans gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík 17. júlí.

Ég mun alltaf minnast þín brosandi út að eyrum, tilbúinn að hughreysta náungann. Alltaf með góð ráð á reiðum höndum. Ég vildi bara óska þess í dag að við hefðum átt fleiri góðar stundir saman. Eins og um síðustu jól þegar við strákarnir hittumst og spiluðum eins og vanalega. Við hlógum samfleytt í sex tíma. Þannig mun ég muna eftir þér, elsku karlinn minn.

Ég mun líka alltaf passa upp á Þránd og Þórunni og ég veit að þú treystir mér til þess. Ég man það eins og gerst hafi í gær þegar þú sagðir mér frá innri hring trausts og að þar væru fáir en góðir vinir og vinkonur. Ég lofaði þér það kvöld að ég myndi passa upp á Þránd og það mun ég alla tíð gera.

Alveg frá því að við vorum litlir pössuðum ég og Oddur upp á ykkur strákana. Að engir töffarar væru með stæla og skæting. Þótt það sé ekkert réttlæti í því þá er komið að þér að vaka yfir okkur núna.

Hvíldu í friði, elsku karlinn minn.

Ásgeir Jónsson.

Elsku Bergur, ég sit hérna og reyni að koma hugsunum mínum og tilfinningum í orð. Það gengur frekar erfiðlega en það fyrsta sem kemur upp í huga mér er að þegar ég fer í vinnuna á eftir þá tekur þú ekki á móti mér, þú þessi fallegi og skemmtilegi drengur með stríðnissvipinn sem virtist alltaf vera fastur á andlitinu á þér. Við stelpurnar á hótelinu vorum oft búnar að spyrja þig af hverju þú værir alltaf með þennan stríðnissvip á þér, því að okkur fannst alltaf eins og þú vissir eitthvað um okkur sem vinir þínir, Albert og Óðinn hefðu sagt þér vegna þess að þeir voru að vinna með okkur sumarið áður. Alltaf svaraðir þú í einlægni og hálfhlæjandi að svona værir þú bara. Þetta svar nægði okkur alveg því að það var ekki hægt að ná stríðnissvipnum af þér, sama hvað við reyndum.

Ég var ekki búin að vinna með þér lengi en samt finnst mér ég hafa þekkt þig orðið býsna vel og á fullt af minningum um þig sem ég ætla að varðveita vel. Ein af minningunum sem er svo sterk var hversu mikið þú reyndir og varst duglegur að tala svona hart eins og við, tala alvöru norðlensku. Þú lagðir þig allan fram við það en gerðir að sjálfsögðu líka grín að okkur í leiðinni. Mér er einnig mjög minniststætt þegar þú heyrðir fólk á hótelinu segja að það væri púnterað á bílnum og þú spurðir okkur hvort við myndum virkilega segja púnterað og fórst svo að hlæja.

Við spjölluðum oft saman um allt milli himins og jarðar og þar voru enginn takmörk. Þú varst alltaf hress og kátur og það var aldrei langt í brosið.

Elsku Bergur, þessi örlagaríka nótt verður okkur öllum mjög minnisstæð. Ég naga mig enn í handarbökin fyrir að hafa ekki fylgt þér heim því að þá hefðirðu kannski ekki farið af stað en það er erfitt að hugsa svona og ég veit að ég á ekki að gera það.

Ég vona að þú sért kominn á betri stað núna og ég veit að þú gegnir mikilvægu hlutverki á nýja staðnum. Lífið er ekki alltaf dans á rósum og það getur tekið ranga stefnu á einu augnabliki. Ég vil þakka þér fyrir frábær kynni og mun ég geyma allar þær minningar sem ég á um þig í hjarta mínu.

Ég votta fjölskyldu þinni og vinum mína dýpstu samúð.

Eftir dimma nótt kemur bjartur dagur.

Þín vinkona og vinnufélagi á Hótel Eddu, Stórutjörnum

Berglind Ýr Gunnarsdóttir.

Þorbergur var drengur góður. Fallegur maður að utan sem innan. Það var gaman hjá okkur síðasta sumar þegar þeir feðgar sóttu okkur heim á Jótlandi í "Björns sommerhus – store værelser, små priser". Bergur tók þegar til við eldamennskuna – og sá kunni að elda. Allt lék í höndunum á honum svo það kokkerí er enn í minnum haft í okkar fjölskyldu. Ekki var hann síður liðtækur til leikja með unga fólkinu langar sumarnætur.

Það er mikill skaði að missa svo góðan dreng. En Þorbergur er ekki gleymdur og mun lifa áfram hjá öllum þeim sem þekktu hann. Innilegar samúðarkveðjur til ættingja og aðstandenda sem svo mikið hafa misst.

Björn og Hrefna.

Elsku Bergur minn.

Ekki er til orð yfir þessa tilfinningu sem ég hef í bland við þann söknuð sem ég finn strax fyrir þó svo að ég sé ekki búin að gera mér fulla grein fyrir hvað hefur gerst, ég bíð eftir að vakna eftir martröð. En það sem hjálpar mér í gegnum þetta eru orð pabba þíns um að vinir standi saman og að þessa sorg geti enginn borið einn, og sér maður nú hvað við náum að standa vel saman þegar svona kemur fyrir, þannig berum við minningu þína í hjarta okkar og finn ég að þú ert með okkur.

Ég hugsa einnig mikið um allar skemmtilegu stundirnar okkar saman sem einkenndust af miklum hlátri, því fáir eru jafn brosmildir og þú, alltaf á léttu nótunum og svo hreinskilinn. Ég fékk að vita það ef ég leit illa út og einnig þegar ég leit vel út og fylgdi því alltaf stórt knús, þetta varð til þess að alltaf tók maður mark á athugasemdum þínum.

Mér datt alltaf ein setning í hug þegar ég hugsaði til þín sem var: "Þú getur þetta Sunna, þetta er bara spurning um að drekka vatn og borða morgunmat." Vá, ég gat ekki annað en hlegið þegar ég hugsaði um þetta því að þetta sýnir líka hvernig þú stóðst við bakið á manni og varst alltaf tilbúinn að hjálpa manni í einu og öllu.

Ég væri tilbúin að gefa margt fyrir að hitta þig aftur því það er svo erfitt að þurfa að kveðja og ekki datt mér í hug að ég þyrfti að kveðja svona náinn vin svona fljótt. Það er ótrúlegt hvað maður sér lífið í öðru ljósi eftir þetta en það ætti ekkert svona að þurfa að gerast til þess að maður geri það.

Ég er svo þakklát fyrir að hafa kynnst þér, hlýjar og jákvæðar minningar eiga eftir að hjálpa mér í gegnum þetta því þín verður sárt saknað, elsku Bergur minn.

Ég vil votta fjölskyldu Bergs, Þrándi, Þórunni, ættingjum, vinum og öðrum aðstandendum alla mína dýpstu samúð og megi Guð vera með ykkur og styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum.

Hvíl í friður kæri vinur.

Þín vinkona,

Sunna Dögg.

Elsku Bergur.

Þegar við heyrðum fréttirnar sunnudaginn 8. júlí ætlaði engin okkar að trúa þessu, Bergur, brosmildi yndislegi strákurinn farinn frá okkur. Síðustu daga höfum við verið að rifja upp ljúfar minningar um þig og margar skemmtilegar koma upp í hugann. Þegar mætt var á vakt og Bergur var að vinna vissum við að von væri á skemmtilegri kvöldstund, því alltaf var Bergur með bros á vör og hress.

Þegar Bergur hóf störf á Grand Hótel má segja að við höfum öll orðið ríkari fyrir vikið, við urðum þess heiðurs aðnjótandi að fá að kynnast þér og þínum frábæru eiginleikum sem við munum taka okkur til fyrirmyndar á lífsleiðinni. Þú bjóst yfir þessari yndislegu nærveru sem lét manni líða vel, varst alltaf tilbúinn að hjálpa öðrum.

Það var alltaf svo gaman að fylgjast með þér þegar þú varst að matreiða, strákarnir töluðu alltaf um hvað þú yrðir góður kokkur því þú varst svo mikill listamaður í þér. Alltaf skilaðir þú af þér fallegum diskum og gekkst aldrei frá hálfkláruðu verki, þú unnir því sem þú varst að gera og hafðir gaman af því starfi. Einnig varstu mikill listamaður utan vinnu, má þar meðal annars nefna þegar þú eyddir heilu og hálfu matar- og kaffihléunum í að búa til alls konar skúlptúra.

Alltaf var mikið sprell í eldhúsinu en einu stundirnar sem við sáum Berg hrista hausinn var þegar umræðan fór að snúast um fótbolta, það þótti honum ekki skemmtilegt umræðuefni og var fljótur að beina umræðunni annað.

Elsku Bergur, það er sagt að þeir deyi ungir sem guðirnir elska, hann hefur ákveðið að þú hafir æðri tilgang annars staðar. Við kveðjum þig með tár í auga og söknuð í hjarta, við hittumst svo með bros á vör þegar okkar tími kemur.

Okkar innilegustu samúðarkveðjur til fjölskyldu og vina.

Þínir vinir og samstarfsmenn á Grand Hótel.

Elsku Beggi.

Nú kveðjum við þig félagi.

Það var sorgardagur þann 8. júlí þegar við fréttum að þú hefðir yfirgefið okkur.

Lífið er svo skrýtið og ósanngjarnt stundum, ég var nýbúinn að tala við þig og allt var svo létt og jákvætt og það styttist í að þú kæmir til baka á Grand Hótel að vinna með okkur eftir sumarfríið, ef sumarfrí má kalla, þar sem þú varst í vinnu á sumarhóteli í fríinu.

Að hafa fengið að kynnast þér og vera samferðamaður í lífi þínu, í vinnu og fyrir utan vinnu, var bara gaman. Það var aldrei leiðinlegt í kringum þig, þú varst alltaf kátur í vinnu og smitaðir út frá þér gleðinni. Nýútskrifaður úr skólanum með sóma og sveinsstykkið þitt var glæsilegt.

Þú skilaðir öllum verkefnum sem þú fékkst í vinnunni vel frá þér, meira að segja þegar þú varst nýbyrjaður að læra matreiðslu hjá okkur. Þó þú værir kannski ekki alveg klár á því hvað átti að gera, þá bjargaðir þú þér alltaf. Þú varst duglegur, fljótur að læra, áhugasamur og vildir alltaf takast á við allt.

Það er mikill söknuður hjá okkur og minningin um þig mun ávallt vera til staðar.

Hvíldu í friði.

Við elskum þig Beggi.

Vignir Þ. Hlöðversson

og samstarfsfólk á Grand Hótel Reykjavík.

Við sitjum hér saman, samstarfsfólk Bergs á Hótel Eddu, Stórutjörnum, og hugsum til hans. Það er margt sem kemur upp í hugann. Þó að kynni okkar hafi ekki verið löng eigum við margar góðar minningar um hann sem okkur þykir vænt um.

Bergur kom til okkar í byrjun júní og starfaði sem kokkur. Hann létti okkur oft lundina, þegar mikið var að gera í eldhúsinu, með sínu heillandi brosi og skemmtilegheitum. Hann var góður vinur og samstarfsmaður. Það var sama á hverju gekk, aldrei var langt í grínið. Hann tók okkur eins og við erum og sá kosti hvers og eins. Hann átti framtíðina fyrir sér, ekki síst í eldamennskunni, og var einstaklega hæfileikaríkur á sínu sviði. Eins ósanngjarnt og lífið getur verið þá erum við þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast honum og hugsum til hans með söknuði.

Við vottum fjölskyldu Bergs og vinum okkar dýpstu samúð og vonum að allir aðstandendur finni styrk á þessum erfiðu tímum.

Samstarfsfólk Hótel-Eddu,

Stórutjörnum.

Þegar sorgin knýr dyra sækja minningarnar á hugann. Barnaskólaárin og unglingsárin með Veru, móður Þorbergs. Vera alltaf hæst í bekknum og naut virðingar bekkjarfélaganna. Vera sem hafði einstaka ástríðu fyrir öllu því sem hún tók sér fyrir hendur og átti afar auðvelt með að sannfæra aðra um ágæti þess sem hún trúði á og barðist fyrir. Vera sem kenndi mér að læra. Ekki eins og páfagaukur heldur að brjóta allt niður í smæstu einingar og skilja til hlítar. Þannig var líka mörg lífsgátan leyst og uppgjöf var ekki til í orðabókinni. Minningar frá myndarlegu æskuheimili Veru þar sem móðir hennar Sigríður Björnsdóttir listmeðferðarfræðingur réð ríkjum og alltaf stóð opið fyrir vinum Veru og systkinanna Öddu, Bjössa og Kalla. Þar var oft þröng á þingi og heimsóknir vinanna fremur taldar í dögum en klukkustundum í senn. Vera og Gísli að draga sig saman. Vinkona mín hafði fallið fyrir rauðhærða, myndarlega rósabóndanum sem reyndist gull af manni við nánari kynni. Mosfellsdalurinn var heimkynni Gísla og þangað flutti vinahópurinn sig um set og í Mosfellsdalnum bjuggu Vera og Gísli sér og börnum sínum þremur heimili. Vera í móðurhlutverkinu sem hún sinnti af ástríðu og átti hug hennar allan. Ekkert svo smátt að það krefðist ekki fyllstu athygli og íhugunar. Ómælt veitt af andlegu ríkidæmi og bar atgervi barnanna því vitni. Vera og Gísli sem nú horfa á eftir frumburði sínum, Þorbergi, yfir móðuna miklu.

Elsku Þorbergur sem var svo ótrúlega líkur móður sinni í útliti og að andlegu atgervi. Sannur og traustur vinur og félagi sem hefur kvatt þennan heim og haldið á ókunnar slóðir. Elsku Vera mín, Gísli og fjölskyldur. Minningin um yndislega drenginn ykkar mun lifa í hjarta okkar allra um ókomna tíð. Megið þið finna styrk í þessari óbærilegu sorg.

Ingibjörg Hrönn Ingimarsdóttir.

Mig langar að minnast félaga míns, einnar sterkustu persónu og besta manns sem ég hef kynnst, í örfáum orðum. Ég var svo heppinn að á mínu fyrsta heimili átti ég svo yndislega nágranna, Veru, Berg, Þránd og Þórunni. Þar kynntist ég slíkri manngæsku og almennilegheitum að mig setti hljóðan. Sama hvaða vesen ég og Gústi frændi minn lögðum á íbúa í þessu fjölbýli þá áttum við alltaf okkar bandamann í Veru sem studdi okkur hvað sem á gekk.

Þegar ég kynntist Bergi betur síðar sá ég strax hversu sterklega hann var mótaður af sömu einstöku góðmennskunni. Manni leið alltaf svo vel í návist hans, aldrei stælar eða yfirlæti fyrir að fara og svo einlægur og hjartahlýr. Handabandið og faðmlagið svo þétt. Mér leið alltaf svo miklu betur eftir að hafa hitt þig, kæri Bergur. Þú varst bráðsmitandi af bjartsýni, gleði og einlægni í bland. Við töluðum oft um að skella okkur vestur á stað sem var okkur báðum kær þar sem við vorum á sjó sem unglingar. Arnarstapi og Hellnar, orkan frá Jöklinum, manstu. Ég fer samt og tek þig með í huganum og hjartanu. Þótt þú sért farinn að sinna öðrum verkefnum á betri stað þar sem þín var greinilega þörf muntu aldrei gleymast þeim sem kynntust þér. Þú kenndir okkur svo margt gott. Ég mun minnast þín brosandi því þannig lifðir þú. Sjáumst hinum megin.

Ég votta fjölskyldu, vinum og þeim sem þekktu Berg mína dýpstu samúð og bið guð að styrkja ykkur öll.

Björn K.

Elsku vinur og skólabróðir.

Minningarnar streyma þegar við hugsum um þig, elsku Bergur.

Það er svo skrítið hvað lífið getur verið hverfult og oft á tíðum ósanngjarnt. Þú svona ungur, fallegur, elskaður og efnilegur drengur þurftir að fara alltof snemma.

Það var svo þægilegt að vera í kringum þig, alltaf jafn glettinn og stríðinn og brosið þitt smitaði alla í kringum þig.

Hreinskilni þín kom manni oft í opna skjöldu en maður kunni alltaf vel að meta þann mannkost sem leiddi til enn frekari virðingar og vináttu.

Eins jarðbundinn, einlægan og hreinskilinn mann er erfitt að finna.

Við erum þakklátar fyrir vináttu okkar og hverja mínútu sem við áttum með þér.

Við getum öll lært af þinni fallegu sál, kæri vinur.

Þín verður sárt saknað,

hvíldu í friði.

Brynja, Bylgja,

Sigurbjörg og Sunna.