— Reuters
Eftir Guðmund Sverri Þór sverrirth@mbl.
Eftir Guðmund Sverri Þór

sverrirth@mbl.is

ÞÓTT ekki séu Bandaríkjamenn lengur svo ginnkeyptir fyrir stórum amerískum bensínhákum, köggum eins og þeir voru stundum kallaðir í gamla daga, er ekki öll nótt úti enn fyrir fyrirtæki á borð við General Motors og Ford. Ljósið í myrkrinu kemur þó úr átt sem mörgum hefði þótt ólíkleg fyrir um áratug síðan.

Rússar hafa nefnilega öðlast mikinn áhuga á bandarískum bílum og hefur salan þar aukist töluvert á undanförnum misserum. Þannig jókst sala Ford þar í landi um 124% á fyrstu fimm mánuðum ársins en Ford er alls ekki eitt um hituna því alls er reiknað með því að söluaukning erlendra bílmerkja í Rússlandi á árinu verði um 40%. Í heild er reiknað með því að bílamarkaðurinn vaxi um 22%.

Á síðasta ári seldust í fyrsta skipti yfir milljón erlendir bílar í Rússlandi en heildarmarkaðurinn fyrir nýja bíla þar í landi er um 1,8 milljónir einingar. Þannig seldust í fyrsta skipti fleiri erlendir bílar en innlendir á síðasta ári sem hlýtur að teljast töluvert áfall fyrir leiðandi rússneska bílaframleiðendur á borð við Volga og Lada. Og miðað við framangreinda aukningu má ætla að á þessu ári seljist um 1,4 milljónir erlendra bíla í Rússlandi og að heildarmarkaðurinn vaxi upp í 2,2 milljónir bíla.

Detroit Evrópu

Ford mun hafa náð vissu forskoti á keppinauta sína þegar opnuð var bílaverksmiðja í borginni Vsevolozhsk í námunda við St. Pétursborg. Þar rúlluðu á síðasta ári af færibandinu 60 þúsund eintök af fjölskyldubílnum Ford Focus en alls seldust í Rússlandi 116 þúsund eintök af Focus. Markmið ársins var 150 þúsund eintök en Henrik Nenzén, forstjóri Ford í Rússlandi, segir allt stefna í að því markmiði verði náð mun fyrr en um áramótin.

Og nú hafa keppinautar Ford vaknað til vitundar og næststærsta borg Rússlands er smám saman að breytast í bílaframleiðslumiðstöð Evrópu, líkt og Detroit er í Bandaríkjunum. Suzuki, GM, Toyota, Nissan og PSA, sem framleiðir Citroën og Peugeot, hafa öll reist verksmiðjur í borginni - eða eru með slík verkefni í bígerð. Ennfremur hyggst Volkswagen vígja þar verksmiðju í haust. Verksmiðju sem er ætlað að framleiða 200 þúsund eintök af Skoda Octavia árlega.

Aukin sala austantjalds

Það skal reyndar engan undra að fyrirtækin leggi svo mikla áherslu á að framleiða bíla þarna því eins og Jonathan Browning, sölustjóri GM, sagði nýlega á ráðstefnu í Prag að mesti vöxturinn í bílasölu framtíðarinnar verði í Rússlandi og A-Evrópu.

Máli sínu til stuðnings benti hann á að árið 2001 stóð svæðið fyrir 6% af bílasölu GM, á þessu ári er ætlað að 25% af sölu fyrirtækisins verði þar og árið 2010 33%.

Ekki er ósennilegt að hjá Ford séu spárnar svipaðar, sérstaklega í ljósi þess að stærsta söluaðila Ford-bifreiða er að finna í nágrenni Moskvuborgar. Þar seljast um eitt þúsund Ford-bílar í hverjum mánuði. Og nafnið á versluninni er lýsandi fyrir áhuga Rússa á öllu sem amerískt er. New York Motors.