VODAFONE bendir fólki á að tölvupóstur sem mörgum hefur borist síðustu daga þar sem tilkynnt er að móttakendur hafi unnið stórfé í meintu nethappdrætti Vodafone í Hollandi er gabb.
VODAFONE bendir fólki á að tölvupóstur sem mörgum hefur borist síðustu daga þar sem tilkynnt er að móttakendur hafi unnið stórfé í meintu nethappdrætti Vodafone í Hollandi er gabb. Segir í tilkynningu frá fyrirtækinu að fjöldi fyrirspurna hafi borist vegna málsins. Menn séu hins vegar hvattir til að svara ekki umræddum tölvupósti.

"Tilraunir til að nota nöfn vinsælla og virtra alþjóðlegra fyrirtækja eins og Vodafone til að ljá netsvikum aukinn trúverðugleika virðast vera að aukast. Vodafone hvetur fólk til að vera á verði og veita ekki upplýsingar af nokkru tagi til þeirra sem stunda þessa iðju," segir í tilkynningu frá Vodafone á Íslandi.

Fyrirtækið hefur tilkynnt athæfið til lögreglu, sem hvetur þá sem fá tölvupóst af þessu tagi til að tilkynna það á netfangið he@rls.is.