Arnar Grétarsson
Arnar Grétarsson
"MARKIÐ sem við fengum á okkur var hrikalega ódýrt og það voru stærstu mistökin sem við gerðum í þessum leik.
"MARKIÐ sem við fengum á okkur var hrikalega ódýrt og það voru stærstu mistökin sem við gerðum í þessum leik. Vissulega fengu þeir tvö góð tækifæri í fyrri hálfleik en í fyrra skiptið var brotið á Guðmanni Þórissyni varnarmanni okkar og dómarinn átti aldrei að láta leikinn halda áfram. Það var hrikalega blóðugt að fá þetta mark á okkur úr föstu leikatriði eftir að hafa nánast verið með boltann allan fyrri hálfleik," sagði Arnar Grétarsson, fyrirliði Breiðabliks. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Blikar fá eitt stig út úr leikjum sumarsins en þetta var fimmta jafntefli liðsins. Arnar hrósaði markverði KR, Stefáni Loga Magnússyni. "Hann varði oft ótrúlega í leiknum og sá til þess að við næðum ekki að taka öll þrjú stigin. Sem betur fer náðum við að skora og ná í eitt stig en þetta er ekki í fyrsta sinn sem þetta gerist hjá okkur. Liðið sem við erum með í dag er flott. Fótboltinn sem við leikum er skemmtilegur og það er ekkert létt að leika gegn liði sem berst eins vel og KR. Þeir voru nánast með allt liðið á sínum vallarhelmingi og svæðið sem við vorum að reyna að koma boltanum í var ekki mikið."

Breiðablik hefur aldrei náð að landa titli í mfl. karla og segir Arnar að sú staðreynd trufli leikmenn liðsins ekki mikið. "Mér finnst allir hjá félaginu vera að vinna markvisst að því að koma liðinu í fremstu röð og vinna titla. Það er ekkert leyndarmál og mér finnst liðið vera í mikilli sókn – á vellinum og einnig utan vallar. Liðið hefur batnað mikið frá því í fyrra og menn hafa trú á því sem lagt er upp með. Fyrir hvern einasta leik setjum við markið á að ná í þrjú stig og það kemur upp sú staða að við leggjumst í stífan varnarleik. Hvort sem það er gegn Íslandsmeistaraliði FH á útivelli eða hvaða liði sem er," sagði Arnar Grétarsson. Fyrirliðinn átti fínan leik á miðjunni og stuðningsmenn Blika fögnuðu ákaft í fyrri hálfleik þegar hann plataði fyrrum liðsfélaga sinn úr Lokeren, Rúnar Kristinsson, upp úr skónum.