Aðalstræti 2 Duusverslun skreytt í tilefni konungskomunar 1907.
Aðalstræti 2 Duusverslun skreytt í tilefni konungskomunar 1907.
SUNNUDAGINN 29. júlí færist safnhús Árbæjarsafns í hátíðarskrúða í tilefni af 100 ára afmæli konungskomunnar. Þann 30. júlí 1907 steig Friðrik 8. konungur á land í Reykjavík og hófst þar með Íslandsheimsókn hans.
SUNNUDAGINN 29. júlí færist safnhús Árbæjarsafns í hátíðarskrúða í tilefni af 100 ára afmæli konungskomunnar. Þann 30. júlí 1907 steig Friðrik 8. konungur á land í Reykjavík og hófst þar með Íslandsheimsókn hans. Hannes Hafstein ráðherra tók á móti konungi og mælti: "Velkominn til þessa hluta ríkis yðar, herra konungur." Dagana fyrir konungskomuna kepptust Reykvíkingar við að leggja lokahönd á undirbúning vegna hátíðahaldanna. Í löngum röðum blakti danski fáninn við hún. Blómfestar, keyptar dýru verði í Danmörku, höfðu verið hengdar til skreytingar á ýmsum stöðum á þau hús sem vitað var að konungur og fylgdarlið hans myndu ganga framhjá.

Safnhúsin við torgið á Árbæjarsafni verða nú skreytt á svipaðan hátt. Ljósmyndir frá Konungskomunni eru til sýnis í safnhúsinu Lækjargötu 4 en þar verða einnig haldnir tónleikar kl. 14. Þá munu stíga á stokk þau Greta Salóme Stefánsdóttir fiðluleikari, Hákon Bjarnason píanóleikari og Grímur Helgason klarinettuleikari, en öll eru þau nemendur í Listaháskóla Íslands á B.mus.-braut. Þau léku fyrst saman sem tríó haustið 2006, en þá léku þau Svítu úr sögu dátans, eftir Igor Stravinsky. Síðan þá hafa tríó eftir Béla Bartók, Galinu Ustvolskaju og Aram Katsaturjan bæst á efnisskrána, auk þess sem þau spila þjóðlög frá Austur-Evrópu og Mið-Austurlöndum.