Eftir Unu Sighvatsdóttur unas@mbl.is GULLNI hringurinn svokallaði, sem liggur um Þingvelli, Gullfoss og Geysi, er án vafa vinsælasta dagleið sem boðið er upp á á Íslandi. Áætlað er að fólksfjöldinn sem fer um svæðið sé um og yfir 400 þúsund á ári.
Eftir Unu Sighvatsdóttur

unas@mbl.is

GULLNI hringurinn svokallaði, sem liggur um Þingvelli, Gullfoss og Geysi, er án vafa vinsælasta dagleið sem boðið er upp á á Íslandi. Áætlað er að fólksfjöldinn sem fer um svæðið sé um og yfir 400 þúsund á ári. Morgunblaðið greindi í gær frá hugmyndum Kjartans Péturs Sigurðssonar fararstjóra um nýja útfærslu Gullna hringsins, með það í huga að dreifa álaginu og bjóða ferðamönnum meiri fjölbreytni. Þau fyrirtæki sem fara flestar ferðirnar um Gullna hringinn eru Iceland Excursions og Kynnisferðir, Reykjavík Excursions, en talsmenn þeirra hafa mismunandi skoðanir á hugmyndum Kjartans.

"Það er alltaf eitthvað að breytast í ferðabransanum og nýjar hugmyndir að koma fram sem maður vill gjarnan hafa með, en af hverju að breyta mest seldu ferðinni?" segir Birna Lind Björnsdóttir, sölu- og markaðsstjóri Kynnisferða. Hún segir að vissulega vilji margir ferðamenn komast í nánd við jökul, hingað til hafi Kynnisferðir beint þeim sem þess óska á suðurströndina, á Sólheima- eða Mýrdalsjökul. Það kosti mikla fyrirhöfn og peninga að fara í kynningarátak fyrir nýjar ferðir en Gullni hringurinn sé þegar orðin sígildur og þekktur um allan heim og því erfitt að breyta honum, jafnvel þótt hugmyndin sé ekki slæm.

Þórir Garðarsson, sölu- og markaðsstjóri Iceland Excursions tekur undir það sjónarmið Kjartans Péturs að auðvelda þurfi aðgengi að Þórisjökli. "Ég er fyllilega sammála því að það er bráðnauðsynlegt að leggja veg upp að jökli," segir Þórir. "Það er mikil eftirspurn eftir ferðum þangað, ekki síst meðal ráðstefnu- og hvataferðahópa sem eru hér oft á jaðartímum, t.d. á vorin. Þá er hins vegar mjög erfitt að komast að jöklinum vegna aurbleytu, sem er mikið vandamál."

Sterk hefð fyrir Gullna hringnum

Þrátt fyrir það er Þórir óviss um þær hugmyndir að tengja Þórisjökul Gullna hringnum. "Það er komin svo sterk hefð á þennan hring að hann þarfnast nánast ekki auglýsingar," segir Þórir. "Svo ég held að þótt vegur upp að jökli eigi fullan rétt á sér þá muni hann ekki breyta Gullna hringnum sem slíkum."

Hvað varðar fólksfjöldann á Gullfoss- og Geysissvæðið eru Birna og Þórir sammála því að hann geti valdið miklu álagi. "Við bjóðum hraðferð eftir hádegi og kvöldferðir, til þess að reyna að dreifa álaginu svo ekki komi allir á sama tíma," segir Þórir og telur að verði því haldið áfram ætti fólksfjöldinn ekki að verða vandamál á næstu árum.

"Ferðamenn hafa aldrei kvartað við okkur yfir að fá ekki góða og hraða þjónustu við Geysi," segir Birna. "Þrátt fyrir að það komi ótrúlegur fjöldi þarna, allt að tvö þúsund manns í mat á tveimur klukkutímum, þá hefur það gengið vel hingað til. Starfsfólkið er algjörar hetjur."

Leiðrétting 31. júlí - Leiðsögumaður, ekki fararstjóri

Þau mistök urðu í grein í Morgunblaðinu 26. júlí að Kjartan Pétur Sigurðsson var titlaður fararstjóri. Hið rétta er að Kjartan hefur lokið viðurkenndu námi frá Leiðsöguskóla Íslands og er því fagmenntaður leiðsögumaður. Beðist er velvirðingar á mistökunum.