Sögumaður Kristín í hlutverki sínu í Light Nights en hún leiðir sýninguna áfram. Þetta er í 37 árið sem hún setur sýningu upp fyrir ferðamenn.
Sögumaður Kristín í hlutverki sínu í Light Nights en hún leiðir sýninguna áfram. Þetta er í 37 árið sem hún setur sýningu upp fyrir ferðamenn.
Eftir Ingveldi Geirsdóttur ingveldur@mbl.is FERÐAMENN geta upplifað sögu Íslands og þjóðsagnaarfinn á einum og hálfum tíma nú í sumar í Iðnó. Það er Ferðaleikhúsið undir stjórn Kristínar G.
Eftir Ingveldi Geirsdóttur

ingveldur@mbl.is

FERÐAMENN geta upplifað sögu Íslands og þjóðsagnaarfinn á einum og hálfum tíma nú í sumar í Iðnó. Það er Ferðaleikhúsið undir stjórn Kristínar G. Magnús leikara og leikstjóra sem setur upp sýninguna Light Nights í 37. skipti.

"Það eru 42 ár síðan ég stofnaði Ferðaleikhúsið," segir Kristín. "Eitt árið kom til mín kona, Molly Kennedy, og spurði mig af hverju ég gerði ekki eitthvað fyrir erlenda ferðamenn á Íslandi þar sem ég hafði lært leiklist í London og talaði því jafnt ensku og íslensku. Ég ákvað þá að prófa svona sýningu eitt sumar en nú eru árin orðin 37 talsins."

Light Night er aldrei tvisvar með nákvæmlega sömu sýninguna á milli ára. "Sýningin hefur þróast í gegnum árin og í dag eru hún samsett af sautján atriðum, m.a. þjóðdönsum, íslenskri glímu, leiknum þjóðsögum og fróðleik um víkinga. Það er aðeins eitt atriði sem ég hef verið með frá upphafi og það er sagan um Djáknann á Myrká og það hafa nú orðið til margar útfærslur á þeirri sögu," segir Kristín sem komst að því að sitt lítið af hverju og fróðleikur um land og þjóð gengur best í ferðamennina. "Í hittiðfyrra setti ég upp leikritið Sálin hans Jóns míns, hafði eitt leikrit í staðinn fyrir svona samsetta sýningu. Það gekk ekki eins vel, fólk vill bæði skemmtun og fróðleik."

Ásamt Kristínu koma fram í sýningunni fimm aðrir leikarar, söngvarar og dansarar. "Ég fer með hlutverk sögumannsins og leiði sýninguna áfram. Ég hef svolítið gaman af því að bjóða ungu og efnilegu fólki, ekki atvinnufólki, að vera með og læra af okkur atvinnumönnunum. Og það hefur haft þann árangur að það er fjöldinn allur af fólki í atvinnuleikhúsunum í dag sem hefur stigið sín fyrstu spor hjá mér.

Light Nights-sýningarnar hófu göngu sína í Glaumbæ í Reykjavík, fóru þaðan á Fríkirkjuveg 11 og síðan í ráðstefnusal Hótel Loftleiða, þaðan fórum við í Tjarnarbíó og vorum þar í 9 ár en sl. 7 ár höfum við verið í Iðnó."

Góð aðsókn

Nokkuð hefur verið um að leikhópurinn ferðist með sýningarnar erlendis og hafa þau m.a. oft sýnt í Bandaríkjunum, tvisvar á Edinborgarhátíðinni og tvisvar í London.

"Við gætum ferðast meira ef við hefðum fjármagn til þess. Ferðaleikhúsinu hefur verið veittur styrkur frá menntamálanefnd Alþingis sem gerir okkur kleift að hefja störf ár hvert en sá styrkur nægir ekki til reksturs leikhússins."

Spurð út í aðsóknina segir Kristín hana yfirleitt góða og það komi alltaf nokkuð af Íslendingum ásamt erlendu ferðmönnunum en 95% sýningarinnar fara fram á ensku.

"Við byrjuðum að sýna 18. júlí og munum sýna á hverjum mánudegi og þriðjudegi til 28. ágúst," segir Kristín sem getur ómögulega sagt til um það hvort hún verði á fjölum Iðnó að ári liðnu. "Það er ómögulegt að vita hvar ég verð á jarðkringlunni næsta sumar," segir hún sposk.