Haraldur Guðmundsson fæddist á Raufarhöfn 24. apríl 1930. Hann andaðist á sjúkrahúsinu á Húsavík að morgni fimmtudags 19. júlí síðastliðins. Foreldrar hans voru hjónin Guðmundur Jónasson, f. 5.7. 1886, d. 10.4. 1970, og Fanney Jóhannesdóttir, f. 28.9. 1895, d. 21.12. 1963. Systkini Haraldar eru Þorbjörg, f. 10.10. 1923, d. 24.4. 2004, Karl Hermann, f. 13.3. 1926, d. 16.12. 2006, Halldóra, f. 26.9. 1927, búsett á Akureyri, Maríus, f. 1.7. 1935, búsettur í Reykjavík, og Vilborg Andrea, f. 11.6. 1937, d. 26.4 1993.

Haraldur kvæntist Vigdísi Þórðardóttur, f. 16.10. 1946. Foreldrar hennar voru Þórður Friðbjarnarson og Dalrós Hulda Jónasdóttir sem bæði eru látin. Börn Haraldar og Vigdísar eru: 1) Helga, f. 16.12. 1968, gift Guðmundi Jónssyni. Börn þeirra eru Haraldur, Ásta, Rebekka Lind, Samúel og Guðmundur Björgvin, 2) stúlka andvana fædd, f. 1970, 3) drengur, f. 1970, lifði í einn sólarhring, 4) Fanney, f. 24.7. 1973 og 5) Sólveig, f. 9.5. 1979.

Haraldur ólst upp í föðurhúsum á Barði á Raufarhöfn. Hann stundaði lengst af vinnu við Síldarverksmiðjur ríkisins á Raufarhöfn en var auk þess í siglingum á vetrum.

Útför Haraldar verður gerð frá Húsavíkurkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku afi minn, nú er runninn upp sá dagur sem ég hef kviðið hvað mest alla mína ævi. Ég man eftir því þegar ég var á leikskólaaldri og var eitthvað ósáttur við foreldra mína og þurfti að kreista fram tár í skyndi, þá dugði að hugsa til þess að afi minn á Raufarhöfn hefði fengið svo lítið sem skrámu á hnéð og þá streymdu tárin niður. Síðan þá eru liðin mörg ár og vildi ég óska þess að um væri að ræða auma skrámu í þetta skiptið. Eftir að ég kom í heiminn var ég strax nefndur eftir þér og er ég foreldrum mínum þakklátur fyrir að hafa valið þetta nafn því ekkert annað kemur að mínu mati til greina. Mér fannst líka alltaf mjög gaman að því hversu stoltur þú virtist vera af þeirri staðreynd að ég bæri þetta nafn, og ég vona að þú vitir að það var gagnkvæmt. Heimsóknir mínar til þín og ömmu um jól og sumur eru eitt af því sem hvað minnisstæðast er úr æsku minni. Á meðan aðrir krakkar vildu komast í utanlandsferðir hvarflaði það ekki að mér, nei ég vildi aðeins komast norður til afa og ömmu í Nónásinn. Samband okkar var alveg frá upphafi mjög gott og sáu það allir sem í kringum okkur voru. Ég fann fyrir miklum kærleik og væntumþykju þegar ég var í návist þinni og aldrei komu upp ósættir eða neitt af þeim toga í okkar samskiptum. Þvert á móti sýndir þú öllu sem ég hafði fyrir stafni gríðarlegan áhuga og fylgdist náið með námsárangri og atvinnumálum mínum.

Ég er feginn því að þínir síðustu dagar komu eins og þeir gerðu og þú þurftir ekki að lifa lífi sjúklings í langan tíma því það hefði nú ekki hæft manni eins og þér. Manni sem var vanur vetrarhörkunni fyrir norðan og látunum sem fylgdu verksmiðjuvinnunni. Þú varst í mínum huga hluti af kynslóð sem því miður fer minnkandi í þessum heimi. Þú varst maður sem hafði litlar áhyggjur af þeim vandamálum sem fylgja þessari stafrænu öld sem nú umlykur allt, heldur hafðir meiri áhuga á veðri og því hvaða togara væri að finna niðri á bryggju. Aldrei heyrði ég þig tala illa til nokkurs manns og aldrei sá ég þig gera nokkurn skapaðan hlut sem hefði getað misboðið manni. Þegar ég var ekki eldri en sjö ára gafstu mér hníf sem hafði verið í eigu þinni í hartnær hálfa öld og sagðist ætla að geyma hann fyrir mig þangað til rétti tíminn væri kominn. Öll árin á eftir og heimsóknirnar sem þeim fylgdu einkenndust af gríðarlegri dýrkun minni á þessum grip og var hann ætíð dreginn upp og skoðaður. Það er því mjög erfitt fyrir mig að horfast í augu við það að þessi rétti tími sé nú kominn og enginn eftir til þess að sjá um að varðveita hann nema ég.

Ég mun geyma þig, elsku afi, í minningunum sem ég vona að aldrei eigi eftir að hverfa og einn daginn þegar ég á sjálfur eftir að eignast börn fá þau að heyra sögur af langafa sínum, einum merkasta og besta manni sem að ég hef kynnst. Mér finnst við hæfi að enda þetta á broti úr kvæði sem ég man eftir að hafa heyrt þig fara með fyrir mig.

Krummi krunkar úti, kallar á nafna sinn

Hlakka til að sjá þig seinna, þinn vinur

Haraldur.

Það varð skammt milli móðurbræðra minna, Karls og Haraldar. Karl andaðist í desember á síðasta ári og nú verður Haraldur til moldar borinn eftir erfið og langvarandi veikindi.

Haraldur ólst upp í húsi foreldra sinna, Barði, á Raufarhöfn. Þar átti hann heimili þar til hann kvæntist Vigdísi Þórðardóttur og þau hófu búskap á Raufarhöfn árið 1970. Þar var heimili þeirra þar til 1996 er þau fluttust búferlum til Húsavíkur.

Haraldur bjó við ástríki í foreldrahúsum og sem barn gekk hann í Raufarhafnarskóla og hlaut þar þá menntun sem í boði var á þeim tíma. Skóli lífsins kenndi honum þó ýmislegt og þar bar hæst þekkingu á vélum og vélstjórn. Hann var lengst af við vélstjórn í Síldarverksmiðju ríkisins á Raufarhöfn. Á vetrum fór hann í siglingar og vann í vél eins og það var kallað.

Ég var hjá afa mínum og ömmu á sumrin svo lengi sem ég man. Þar kynntist ég móðursystkinum mínum harla vel og naut talsverðrar athygli sem elsta barnabarn. Það var merkilegt hve þessir einstaklingar sköpuðu sterka og trausta heild eins ólíkir og þeir voru. Hver setti sitt mark á heimilið. Haraldur var tæknimaðurinn sem flest vissi um vélar. Mér fannst alltaf að í honum byggju tveir menn. Maðurinn í samfestingnum með tvistinn í rassvasanum annars vegar og hins vegar bílstjórinn og snyrtimennið á glæsibílnum. Hann átti alltaf bíl frá því að ég man eftir og alltaf litu þeir út eins og nýir og ónotaðir. Ekki vantaði þó ryk og holur á Melrakkasléttu á þeirri tíð. Ég fékk alloft að sitja í sem barn og stundum fórum við til vina hans á Sléttu. Það fannst mér mikið ferðalag. Þegar unglingsárin tóku við og ég tók bílpróf fékk ég stundum að aka bílnum hans. Það fengu ekki margir. Þar sýndi hann mér traust, væntumþykju og vinarþel sem ég met.

Vera mín á Barði varð gott veganesti. Heimilislífið einkenndist af rósemi og trausti. Ys og þys síldarævintýra fór fram utan húss en ekki innan, þó að flestir á heimilinu ynnu í síldinni. Allir heimilismenn skópu þetta andrúmsloft og ég er þakklátur Haraldi fyrir að eiga þátt í því.

Nú er lífsbók Haraldar frænda míns fullskrifuð. Hún lokast en geymir áfram ljúfar minningar. Ég þakka honum samfylgdina og við hjónin sendum Vigdísi, dætrunum og barnabörnunum samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hans

Guðmundur B. Kristmundsson.

Það var á sólbjörtum sumarmorgni að okkur fjölskyldu minni bárust þau tíðindi að Halli maðurinn hennar Dísu frænku væri dáinn og það var einmitt ylur sumarsins sem einkenndi allt hans fas. Haraldur var hljóðlátur og hlédrægur en gat átt til þægilegan húmor sem var þó ekki á kostnað annarra.

Ég man ekki hvenær hann kom fyrst inn á heimili foreldra minna, því ég var bara barn á Raufarhöfn. Halli var um hríð kostgangari hjá foreldrum mínum, okkur systkinunum til mikillar ánægju, því hann þreyttist aldrei á masinu í okkur, enda mjög barngóður. Þessi tími sem hann var í mat hjá mömmu áttu þó eftir að hafa meiri áhrif á líf hans, því hjá okkur kynntist hann systur mömmu, Vigdísi Guðrúnu, eða Dísu-Gunnu eins og við kölluðum hana, sem varð hans lífsförunautur. Þau giftu sig stuttu seinna og stofnuðu heimili og eignuðust þrjár dætur einn tengdason og fimm barnabörn sem voru hans sólargeislar. Hann var mikill fjölskyldumaður og voru þau hjónin mjög samhent í heimilishaldi. Faðir minn og Halli voru miklir vinir auk þess að vera vinnufélagar. Haraldur var duglegur og samviskusamur. Hann var greiðvikinn og góður vinur þeirra sem lögðu sig fram um að kynnast honum og ef þeir áttu hann að vini entist það til æviloka í gegnum súrt og sætt. Því fékk faðir minn að kynnast þegar hann misst heilsuna á besta aldri. Þrátt fyrir fá orð þeirra á milli vissu foreldrar mínir hvert þau gætu leitað ef þess þyrfti. Þannig var það milli fjölskyldna okkar er vanda bar að, þá stóðu allir saman. Ég minnist alltaf með gleði þess þegar við hittumst yfir jólin í jóla- og nýársboðum á veturna á Raufarhöfn. Oft þurfti að kafa snjóinn í mið læri vegna ófærðar. Boðin yljuðu hjarta okkar allra, vegna ljósanna, kertanna og flugeldanna í myrkvuðu skammdeginu. Á áttunda og níunda áratugnum fluttum við öll frá Raufarhöfn en sambandið rofnaði þó aldrei, þrátt fyrir hversdagsamstur og fjarlægðir. Minningarnar bundu okkur saman og gera ennþá. Megi Guð líkna Dísu og börnum við þennan missi þeirra.

Ó, blessuð stund, er burtu þokan líður,

sem blindar þessi dauðleg augu vor,

en æðri dagur, dýrðarskær og blíður,

með Drottins ljósi skín á öll vor spor.

Ó, blessuð stund, er sérhver rún er ráðin

og raunaspurning, sem mér duldist hér,

og ég sé vel, að viskan tóm og náðin

því veldur, að ei meira sagt oss er.

Ó, blessuð stund, er stillast skulu sárin

og stöðvast óp og kvein hins þjáða manns,

og loksins þverra þungu sorgartárin

og þorna fyrir geislum kærleikans.

Ó, blessuð stund, er sál mín fær að segja:

ég sé ei framar gegnum þokugler.

Ó, blessuð stund, er fæ ég hné að hneigja

og Herrann sjálfan loks mitt auga sér.

(Matthías Jochumsson)

María Friðrika Hermannsdóttir.

Haraldur Guðmundsson, móðurbróðir minn, var einstaklega stór hluti af bernsku minni og uppeldi. Hann, afi og Karl frændi minn sem lést fyrir jólin bjuggu í Barði á Raufarhöfn en þangað fór ég hvert sumar og naut frjálsræðis og gleði undir handleiðslu þeirra. Allir höfðu þeir einstakt lag á að kenna börnum ábyrgð og beita aga án þess að nokkru sinni sviði undan. Þetta voru stálheiðarlegir menn sem kunnu að tala við börn eins og jafningja.

Halli frændi fór ótal ferðir á vorin til að ná í bæði mig og önnur systkinabörn sín sem dvöldu á sumrin í Barði. Það var alltaf sjálfsagt og við hlökkuðum lengi til. Þegar Halli var kominn til að sækja mann var sumarið komið og fríið byrjað. Alltaf fannst mér sumrin vera of stutt en þetta litla hús Barð, var og er í minningunni svo stórt og mikið að alltaf kemur jafnmikið á óvart að koma þangað og átta sig á hversu fáir fermetrarnir eru.

Veröldin fyrir utan var svo stór og áhugaverð að hún leitaði inn og víkkaði veggina. Á haustin keyrði hann okkur aftur heim og þá var tilhlökkunin að koma heim beiskju blandin því sumarið var búið og heill vetur þar til Halli sækti mann að nýju. Þótt vegurinn yfir Sléttu þætti með þeim verstu á landinu var hann í minningunni aldrei eins holóttur á vorin og á haustin.

Alltaf var eitthvað um að vera í Barði og maður fékk að taka þátt í öllu. Ég minnist ótal sjóferða með honum og Kalla á trillunni við fisk- og svartfuglaveiðar. Mér fannst ég fullgildur þegar ég var með þeim þótt ég væri bara barn og gladdist yfir að geta verið til gagns.

Þegar ég lít til baka var hann einn af þeim sem hafði hvað mest mótandi áhrif á mig ungan og ég bý enn að því. Hann var glettinn og stríðinn en aldrei meinhæðinn. Til marks um það sagði hann að til að eiga möguleika á því að fá lúðu á færið yrði maður að kyssa stelpu áður en maður færi í róður. En það þótti ekki góður kostur á þeim aldri sem ég þá var á. Þolinmæði hans gagnvart börnum átti sér engin takmörk og ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast honum og njóta veraldarinnar á Raufarhöfn en mér hefur oft fundist að Stephan G. Stephanson hafi ort um Raufarhöfn æsku minnar þegar hann sagði: "Fjarst í eilífðar útsæ vakir eylendan þín: nóttlaus voraldarveröld þar sem víðsýnið skín." Nú er kominn tími til að kveðja og ég vil nota tækifærið til að þakka Halla frænda fyrir allt. Ég votta Dísu og dætrum þeirra mína dýpstu samúð.

Guðmundur Bárðarson.