Þórður Ásgeirsson
Þórður Ásgeirsson
Ósköp er Þórður Ásgeirsson fiskistofustjóri argur út í Morgunblaðið í athugasemd frá honum, sem birtist hér í blaðinu í gær vegna leiðara Morgunblaðsins í fyrradag.
Ósköp er Þórður Ásgeirsson fiskistofustjóri argur út í Morgunblaðið í athugasemd frá honum, sem birtist hér í blaðinu í gær vegna leiðara Morgunblaðsins í fyrradag.

Í þeim leiðara var leitað svara við spurningu, sem Þórhallur Ottesen, deildarstjóri landeftirlits Fiskistofu, varpaði fram í viðtali við Morgunblaðið sl. mánudag.

Fiskistofustjóri gengur svo langt að eigna Morgunblaðinu spurningu hans eigin starfsmanns!

Fiskistofustjóri dæmir öll skrif Morgunblaðsins um hugsanleg brot á lögum og reglum fiskveiðistjórnarkerfisins sem kjaftasögur.

Er það rétt afstaða hjá fiskistofustjóra?

Er ekki mikilvægt að maður í hans stöðu hafi opinn huga gagnvart ábendingum, sem fram koma um hugsanleg brot í kvótakerfinu?

Hvernig getur Þórður Ásgeirsson leyft sér að afgreiða allar slíkar ábendingar, sem sjómenn hafa sett fram í Morgunblaðinu undir nafnleynd, sem kjaftasögur?

Væntanlega er Fiskistofa ekki orðin hagsmunagæzluaðili fyrir atvinnurekendur í sjávarútvegi – eða hvað?

Þórður Ásgeirsson spyr hvað Morgunblaðið vilji gera í þessum málum. Svarið við þeirri spurningu birtist í Reykjavíkurbréfi fyrir skömmu. Þar var lagt til að þær ásakanir, sem fram hafa komið um brot, verði kannaðar með sama hætti og ásakanir um brottkast í byrjun aldarinnar.