Ilmur Stefánsdóttir fæddist í Reykjavík 1969. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1990, lauk myndlistarnámi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1995 og meistaranámi í sjónlistum frá Goldsmiths College í Lundúnum 2000.

Ilmur Stefánsdóttir fæddist í Reykjavík 1969. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1990, lauk myndlistarnámi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1995 og meistaranámi í sjónlistum frá Goldsmiths College í Lundúnum 2000. Ilmur hefur verið starfandi myndlistarkona frá árinu 1995 og haldið fjölda sýninga hérlendis og erlendis, og einnig fengist við leikmyndagerð. Þá hefur hún fengist við kennslu og fyrirlestra, og er leiðsögumaður hjá Listasafni Reykjavíkur. Ilmur er gift Vali Frey Einarssyni leikara og eiga þau fjögur börn.

Í sumar hafa söfn Reykjavíkurborgar staðið fyrir Kvöldgöngum úr Kvosinni á fimmtudagskvöldum. Í kvöld, fimmtudagskvöld, er kvöldgangan í boði Listasafns Reykjavíkur, og mun Ilmur Stefánsdóttir listamaður leiða gesti um miðborgina undir yfirskriftinni Reykjavík séð og skynjuð.

"Við löbbum um miðbæinn og leitum leiða til að horfa á borgina okkar með öðrum augum en venjulega," segir Ilmur, og imprar á því að með augum eigi hún í raun við öll skilningarvitin.

Hlusta, snerta og jafnvel þefa

Ilmur leiddi göngu af svipuðum toga fyrir tveimur árum: "Sagnfræðingur var meðal göngumanna og hafði á orði hvað það væri óvenjuleg upplifun að labba um Reykjavíkurborg og þefa af henni, í staðinn fyrir að hlýða á sögulegar staðreyndir um hvernig borgin varð að því sem hún er í dag," segir Ilmur, en vill þó ekki ljóstra of miklu upp fyrirfram um hvernig göngunni verður háttað nú, svo upplifunin komi á óvart: "Ég nota nokkur hjálpartæki, lítil og létt. Gangan hefst hjá Listasafninu, milli safnsins og Borgarbókasafnsins, og liggur leiðin síðan út að sjó og aftur út að Reykjavíkurtjörn, svolítið sikk-sakk fram og til baka. Kannski við stöldrum við á miðju Lækjartorgi, og reynum að spóla 100 ár til baka og ímynda okkur þá upplifun að vera á sama stað á öðrum tíma, eða hvernig borgin myndi koma okkur fyrir sjónir ef við værum að sjá hana í fyrsta skipti eftir að hafa alla okkar tíð alið manninn í Afríku."

Spennandi göngur framundan

Kvöldganga hefst kl. 20. Aðgangur er öllum heimill og ókeypis. Nánari upplýsingar um kvöldgöngudagskrá sumarsins má finna á heimasíðu Borgarbókasafnsins, á slóðinni www.borgarbokasafn.is.

Næsta kvöldganga verður fimmtudaginn 2. ágúst og verður þá boðið upp á drauga- og hamfarasiglingu í samvinnu við Draugagönguna í Reykjavík.