Eftir Arndísi Þórarinsdóttur arndis@mbl.
Eftir Arndísi Þórarinsdóttur

arndis@mbl.is

EINS og fram kom í frétt Morgunblaðsins í gær bíður hin umdeilda Múlavirkjun á Snæfellsnesi þess að verða úthlutað nýju virkjunarleyfi eftir að í ljós kom að virkjunin var ekki reist í fullu samræmi við þau gögn sem lögð voru fyrir þegar upphaflega leyfið var gefið út.

Guðjón Axel Guðjónsson, skrifstofustjóri skrifstofu orkumála hjá iðnaðarráðuneytinu, segist ekki kannast við að áður hafi komið upp sambærileg mál.

"Í upphafi er tilkynnt um ákveðna framkvæmd og óskað eftir leyfi fyrir henni. Síðan verða ákveðnar breytingar á lokastigum hönnunar og maður hefði talið það eðlilegast að áður en menn legðu í framkvæmdir yrði þeim stofnunum sem samþykktu framkvæmdina tilkynnt sérstaklega um breytingarnar og þær svo samþykktar. Það hefði maður talið að væri hin eðlilega leið. En framkvæmdin er orðin að raunveruleika svo það þarf að reyna að fara yfir málið og sjá hvort að þurfi að setja einhver skilyrði og bregðast við þessum breyttu aðstæðum," sagði Guðjón.

Guðjón segist vera búinn að fá frá Múlavirkjun ýmis gögn sem hafi verið send til umsagnar til Orkustofnunar, Skipulagsstofnunar og Umhverfisstofnunar og verið sé að ganga frá leyfinu. "Virkjunaraðilinn er þarna með ákveðnar tillögur um rannsóknir og mótvægisaðgerðir sem þeir leggja til að verði farið í á næstu árum svo að hægt sé átta sig á áhrifum af virkjuninni og bregðast við þeim. Við erum að útfæra það í leyfinu og skoða hvort þurfi að setja einhver frekari skilyrði."

Ósamræmi milli stofnana?

Umræða um hæð vatnsborðs Baulárvallavatns hefur verið í fjölmiðlum, en mikilvægt þótti að það hækkaði ekki. Heimildum Morgunblaðsins ber ekki saman um það hvort vatnsborðið hafi hækkað, en Landvernd fullyrðir það hafa gert það, í bréfi sem sent var Eyja- og Miklaholtshreppi í síðustu viku. Eggert Kjartansson, framkvæmdastjóri virkjunarinnar, segir mælingar sýna annað.

Athygli vekur að þegar upphaflega virkjunarleyfið annars vegar er skoðað og úrskurður Skipulagsstofnunar hins vegar, virðist virkjunarleyfið veita rýmri heimildir hvað varðar vatnshæðina. Þar stendur: "Yfirfallshæð í lóni er við það miðuð að vatnsborð hækki ekki umfram það sem gerist í flóðum" en Skipulagsstofnun segir: "Ekki er gert ráð fyrir því að vatnsborð Baulárvallavatns breytist í kjölfar framkvæmdanna."

Guðjón Axel sagði í gær að hann kannaðist ekki við þetta ósamræmi og að endurskoðun leyfisins færi ekki fram á þeim forsendum.