Eftir Skúla Unnar Sveinsson skuli@mbl.is ÍSLANDSMEISTARAR FH tryggðu sér í gærkvöldi sæti í annarri umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu þegar liðið gerði markalaust jafntefli við HB í Færeyjum.
Eftir Skúla Unnar Sveinsson

skuli@mbl.is

ÍSLANDSMEISTARAR FH tryggðu sér í gærkvöldi sæti í annarri umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu þegar liðið gerði markalaust jafntefli við HB í Færeyjum. FH vann fyrri leikinn 4:1 og kemst því áfram og mætir Bate frá Hvíta-Rússlandi í annarri umferð og nái Hafnfirðingar að leggja það lið að velli komast þeir í þriðju umferð þar sem stóru liðin í Evrópu verða með í hattinum þegar dregið verður.

"Það eina sem var jákvætt við þennan leik var að það meiddi sig enginn og við erum komnir áfram," sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari FH-inga, eftir leikinn í Þórshöfn í gærkvöldi.

"Við vorum ekki mjög líklegir til að skora, lágum fullmikið til baka. En við höfðum fulla stjórn á leiknum allan tímann, fengum nokkur úrvalsfæri en við vorum greinilega værukærir og kannski dálítið vanmat hjá okkur. Færeyingarnir fengu eitt fínt færi í lok leiksins, en Daði varði mjög vel. Annars fengu þeir engin færi og þeir voru ekkert að pressa of mikið á okkur, lágu frekar aftarlega," sagði Ólafur.

FH-ingar stilltu upp sama liði og í fyrri leiknum, Daði Lárusson var í markinu og í vörninni voru þeir Guðmundur Sævarsson, Sverrir Garðarsson, Tommy Nielsen og Freyr Bjarnason. Á miðjunni voru Dennis Siim, Davíð Þór Viðarsson og Sigurvin Ólafsson en frammi þeir Matthías Guðmundsson, Matthías Vilhjálmsson og Tryggvi Guðmundsson.

Ólafur sagði að ágæt stemning hefði verið á leiknum. "Það er fínt að vera hérna í Færeyjum, en það voru nú ekki nema um 600 manns á leiknum en stemningin var ágæt. En hins vegar verður að segja það eins og er að þetta var voðalega eitthvað rólegt og þægilegt og kannski ekki mikil vinna sem menn lögðu í þennan leik, en við erum komnir áfram og það er það sem skiptir máli," sagði Ólafur.

Heimir Guðjónsson, aðstoðarþjálfari FH, fór til Hvíta-Rússlands til að sjá næstu mótherja FH, sem verður Bate. "Ég er ekkert búinn að heyra í Heimi, en þeir sem hafa heyrt í honum segja að Bate hefði verið sterkara liðið. Það kom í ljós í síðari leiknum að þeir eru á miðju tímabili en liðið frá Kýpur ekki byrjað í deildinni. Það verður leiðinlegt að fara í útileikinn, sem verður síðari leikurinn, því mér er sagt að við þyrftum að fara í þrjár flugvélar til að komast þangað og það sé um 18 tíma ferðalag," sagði Ólafur.