Jónas Bjarnason
Jónas Bjarnason
Jónas Bjarnason skrifar um þorskstofninn, æti fisksins og veiðitólin sem notuð eru: "Ástand þorsks er alvarlegt. Engin þverstæða við rallið felst í góðum afla víða. Skýringar á þrefaldri minnkun á lífmassa í sjó eru mjög alvarlegar."
EKKI þarf að tíunda ástand þorsksins skv. niðurstöðum Hafró. Margir sjómenn segjast ekki trúa þeim en þær byggjast aðallega á rallinu og tengingu vísitalna við afla í liðinni tíð. En hvers vegna rýnir enginn sérstaklega í lífmassa fiska í sjó? Hann er nú kominn niður í u.þ.b. þriðjung af því sem var fyrir fáeinum áratugum. Það þýðir, að mjög mikið er að, miklu meira en bara skortur á þorski. Og menn þurfa ekkert að vera hissa á lélegu ástandi sandsílis, kríunnar og sjófugla og jafnvel loðnunnar. – Í Bandaríkjunum hafa menn komist að þeirri niðurstöðu, að helstu veiðislóðir úti fyrir Nýja Englandi hafi verið yfirdregnar, hver blettur fyrir sig, með þungum botnvörpum einu sinni til þrisvar sinnum á hverju ári. Nú velkjast menn ekkert í vafa um það, að dregin veiðarfæri hafi skemmt botnlíf alveg stórkostlega og að forsendur fyrir vexti helstu veiðifiska hafi rýrnað svo mjög, að lífmassi hefur nánast alls staðar liðið mikið fyrir. Ekki er nóg með að botnvarpan valdi úrkynjun með viðvarandi stærðarvali fiska heldur hafa menn skemmt alvarlega forsendur fyrir tilurð og vexti helstu fisktegunda þótt ekki sé vitað út í hörgul hvernig það gerist. Eiginlega allar helstu veiðislóðir þar í landi, vestan megin og austan, eru mjög skemmdar. Jafnvel botn á 200 til 400 metra dýpi á landgrunnsbotni úti fyrir Oregon-fylki, leir eða sandur, er hreint ekkert dauður eins og margir hafa sagt og botnvarpan hefur valdið mælanlegu tjóni þar á fiskgengd. Ef spurt er um dæmi um fiskveiðar, sem eru í lagi, þá finnast þær bara í Alaska og í laxveiðum.

Eðli skortsins

Það vantar meira af veiðanlegum þorski. Eru þorskar á veiðialdri of fáir? Svo fáir, að þeir geti ekki skilað nema 130 þúsund tonnum á ári í vexti umfram náttúrulegan dauða? – Þetta er bara hluti af skýringunni. Þorskarnir, sem Hafró og Ragnar Árnason hafa verið að reikna vöxt í, eru lélegri en áður. Þeir eru að hluta erfðabreyttir og vöxtur þeirra er minni en áður; botnvarpan er hér ekkert öðru vísi en í Bandaríkjunum. Toguðu veiðarfærin eru búin að skerða botnlíf og vistforsendur þorsksins þannig, að vöxtur veiðistofns er bara þriðjungur af því sem var fyrir 30-40 árum. Með netsigtun í áratugi er nú svo komið, að þorskur sem er 8-9 ára virðist vera hættur að vaxa og þetta má lesa í ástandsskýrslu Hafró. Fiskurinn virðist soltinn víða, þ.e. einstakir undirstofnar væntanlega. – Eðli skortsins er allt annað en það, sem þeir í Hafró mata Ragnar Árnason með. – Erfðatjón, botnskemmdir og ætisskortur eru forsendur, sem erfitt er að framreikna og eru þær tæpast á valdi Hagfræðistofnunar HÍ til útreikninga. Tap þjóðfélagsins vegna þekkingarskorts og steigurlætis telst væntanlega í milljónum tonna af þorski.

Þverstæður?

Margir sjómenn ræða um mikinn afla af þorski á einstökum svæðum. Það felst engin þverstæða í þeim sögum og niðurstöðum Hafró. Einstakir undirstofnar þorsks geta verið í góðu ástandi þótt meðaltalsreikningar rallsins í stofnmælingu sýni annað. Þannig var það í Kanada einnig, alveg fram á síðasta dag veiða; "fisktorfum" hafði þá fækkað tífalt en sjómenn fundu þær samt vegna aukinnar tækni. –Ef undirstofnar eru margir; af hverju er þá veiðum stjórnað eins og stofninn væri einn? En ekki hverjum sérstaklega eins og gert er með veiðum á ýsu eða ufsa? – Ef Hafró fellst á erfðabreytingar og tjón af þeim sökum; þá koma margar spurningar. Af hverju leggja menn veiðarfæri að jöfnu? Til hvers eru hundruð skyndilokana á línuveiðar þorsks vegna undirmáls þegar undirmálið er kynþroska fiskur?

Jón Kristjánsson ræðir mikið um skort á æti eins og þar sé ástæðu vandamálanna að finna. Auðvitað verður enginn fiskur til nema sem nemur ætinu. En ætisskortur getur verið af mörgum ástæðum og ekki bara vegna þess að of margir þorskar séu um hituna. Ef menn eltast við allan ætislítinn þorsk og veiða hann grimmt, þá stefnir maður enn hraðar til glötunar nema greinarmunur verði gerður á veiðarfærum og þannig fiskur veiddur á króka eingöngu. Þetta er ábyrgðarlaus afstaða. Þreföld minnkun lífmassa fiska í sjó er mjög alvarleg viðvörun en benda má á að slíkt ástand myndaðist alls staðar annars staðar í Norður-Atlantshafi við sambærilegar aðstæður, við Kanada, Bandaríkin og í Norðursjó. Það sem er að gerast hér í sjó er ekkert nýstárlegt og það eru steigurlæti að viðurkenna það ekki.

Það verður fróðlegt að vita hvaða vaxtarforsendur fyrir þorskinn Hafró hefur gefið Ragnari Árnasyni í Hagfræðistofnun. Jón Bjarnason þingmaður VG sagði, að engin ný sannindi fælust í niðurstöðum þeirrar stofnunar. Þetta séu allt saman tölur frá Hafró. Ætli það sé ekki lóðið! Miklu nær væri að láta Ragnar reikna út allt tapið fyrir þjóðina af þorskminnkun í 20 ár. Þótt veitt hafi verið 5-10% umfram ráðgjöf hverju sinni þá eru það smámunir í þessu dæmi. Stofnmæling hvers árs ætti að sýna oftöku ársins á undan og leiða til leiðréttingar árið eftir.

Höfundur er efnaverkfræðingur.