Góð "Sýningin er falleg stúdía."
Góð "Sýningin er falleg stúdía."
Sýningin stendur til 5. ágúst. Opið kl. 14-18 alla daga nema mánudaga og fimmtudaga.
SVALA Ólafsdóttir heldur í Auga fyrir auga fyrstu ljósmyndasýningu sína hérlendis frá 1987 en hún hefur sýnt víða í Bandaríkjunum þar sem hún er stundar nám og kennslu við New Mexico State University. Á sýningunni Með könguló í vasanum bregður Svala á leik með minningar og sögubrot úr lífinu sem hún raðar saman í seríur.

Hver sería hefur titil sem er lína úr ljóði sem samanlagt mynda eina heild. Gamlar brúður og brúðuhús og leikföng eru áberandi stef í myndunum. Konur sem eru málaðar eins og brúður í yfirgefnu eyðibýli eru stundum í hlutverki brúðunnar ásamt uppstillingum af húsbúnaði. Þetta hljómar eins og kafli úr Brúðuheimili Ibsens og ljóst er að í myndunum gætir einnig áhrifa frá femínískri myndlist sjöunda og áttunda áratugarins.

Þrátt fyrir að óhugnað sé að finna í sumum myndanna, sem minnir á fjölmargar hryllingsmyndir þar sem brúður lifna við, þá lýsa myndir Svölu svo miklu frekar lágstemmdum stefjum úr tilfinningalífi stúlkubarns þar sem hamingjustundir, draumar og eftirsjá eru áberandi.

Í stað þess að brúðan sé lífguð við þá verður hún að ákveðinni og eftirsóttri fyrirmynd sem hér virðist ekki eins óhugnanlegt og það hljómar. Barnið stjórnar brúðunni í ímyndarleik sínum og varpar á hana draumum sínum og væntingum. Hver vill ekki hafa slíkt vald í eigin lífi?

Í myndunum endurspeglast ákveðin blanda úr suðuramerísku töfraraunsæi og íslenskum ævintýraheimi. Ímyndun bernskunnar og þær tilfinningar sem henni fylgja valda fortíðarþrá og birtast í fagurfræði gamalla hluta.

Sýningin er falleg stúdía sem þrátt fyrir allt að því ofnotað myndmál nær að vera persónuleg og gefandi. Þrátt fyrir titil sýningarinnar er óhætt fyrir þá sem eru hræddir við köngulær að skoða sýninguna því þær eru ekki sýnilegar á myndunum, enda í vasanum eins og titillinn segir.

Þóra Þórisdóttir