Andlit á vegg Var Steinn Steinarr graffiti-ljóðskáld? Andlitið sem hann málaði hlaut að minnsta kosti sömu örlög og borgin skapar flestum veggjakrotum hvað sem listrænu gildi þeirra líður.
Andlit á vegg Var Steinn Steinarr graffiti-ljóðskáld? Andlitið sem hann málaði hlaut að minnsta kosti sömu örlög og borgin skapar flestum veggjakrotum hvað sem listrænu gildi þeirra líður.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ásgeir H Ingólfsson asgeirhi@hi.is Næsta laugardag blæs kaffihúsið Prikið til götulistakeppni. Keppt verður í graffiti og efnt verður til mikillar veislu af því tilefni. Boðið verður upp á grillmat og plötusnúðar munu þeyta skífur uppi á þaki.
Eftir Ásgeir H Ingólfsson

asgeirhi@hi.is

Næsta laugardag blæs kaffihúsið Prikið til götulistakeppni. Keppt verður í graffiti og efnt verður til mikillar veislu af því tilefni. Boðið verður upp á grillmat og plötusnúðar munu þeyta skífur uppi á þaki. Keppnin fer fram í portinu við hlið staðarins sem nýlega fékk nýtt hlutverk sem reykingaport.

"Aðstandendum Priksins fannst vanta einhverja skreytingu á húsgaflinn í reykportinu. Þeir höfðu hug á að skreyta hann og gera hann skemmtilegan með listaverkum sem fá að standa. Þá var ákveðið að gera eitthvað skemmtilegt og þeim fannst tilvalið að hafa keppni í graffiti," segir Þórdís Claessen, grafískur hönnuður og einn dómara keppninnar. Þórdís hefur lengi rannsakað veggjakrot og nýlega gaf hún út bókina Icepick um íslenska götulist.

Veggir og bolir í verðlaun

Verðlaunin fyrir þrjú efstu sætin eru fyrst og fremst þau að fá tækifæri til þess að vinna áfram að graffiti-listinni. Veggirnir á húsgaflinum eru þrír og verður skipt á milli verðlaunahafanna. Prikið borgar efniskostnað sem munar töluverðu enda er það "hellings peningur sem fer í úðakaup, málningu og fleira," að sögn Þórdísar. Auk þess fær sigurvegarinn að hanna eigin bol hjá Osama og 50 þúsund króna ferðaávísun.

Frestur til þess að skrá sig í keppnina rennur út í dag og öllum er frjálst að skrá sig enda keppnin bæði fyrir byrjendur sem og lengra komna krotara, enda getur góð hugmynd fleytt mönnum langt. Þórdís reiknar með að þeir sem valdir verða í lokaúrslitin verði úr ýmsum áttum og áhersla verði á að hafa þar fjölbreyttan hóp. Í dómnefndinni, sem Þórdís leggur áherslu á að sé óformleg, eru auk hennar rappararnir Dóri DNA og Erpur Eyvindsson, graffarinn Óli Nores og Helgi Már Kristinsson listmálari, sem Þórdís telur að geti komið með skemmtilega öðruvísi vinkil á veggjalistina.

Fljótlega eftir að úrslit eru ljós er ætlunin að vinningshafar byrji að spreyta sig á veggnum og nái að byrja á verkunum sem Þórdís reiknar þó með að verði einhverja daga í framkvæmd enda veggirnir stórir.

Skemmdarverk eða list?

En hvar birtist graffiti-listin í reykvísku landslagi? "Miðað við viðtökur bókarinnar Icepick kunna margir að meta skemmtilega og góða götulist. Erlendir aðilar sem vel eru að sér í götulistarheiminum höfðu orð á því hve frjó íslenska senan sé þegar þeir lásu bókina. Hér er mikið af hugmyndum sem ægir saman og það eru ekki bara unglingar og listhneigt fólk sem hefur fílað bókina, heldur fólk úr öllum áttum og á öllum aldri," segir Þórdís sem bætir við: "Fólk kann að meta íslenska götulist en það vantar samræðu við borgaryfirvöld til þess að búa til fjörlegt svæði. Ég býð mig fram í það hvenær sem er að finna lausn á því máli."

Götulist hefur oft verið tengd uppreisnargjörnum unglingum. Þórdís segir að skiljanlega sé ekkert uppreisnarlegt við keppnina sem slíka en graffitiið sé í eðli sínu mjög tvíbent sverð. "Götulist og graffiti getur verið skemmdarverk á sama tíma og það er líka list. Það fer bæði eftir forsendunum og hvaða merkimiða fólk gefur því hverju sinni. Ef það er gert með leyfi, til dæmis á menningarnótt eða álíka viðburðum, þá er það list og ef það er gert án leyfis daginn eftir er það kallað skemmdarverk."