Jónína S. Lárusdóttir
Jónína S. Lárusdóttir
"ÞETTA leggst gríðarlega vel í mig, enda eru afar spennandi tímar framundan í ráðuneytinu. Þannig að ég hlakka til að takast á við verkefnið," segir Jónína S. Lárusdóttir, en Björgvin G.
"ÞETTA leggst gríðarlega vel í mig, enda eru afar spennandi tímar framundan í ráðuneytinu. Þannig að ég hlakka til að takast á við verkefnið," segir Jónína S. Lárusdóttir, en Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra skipaði hana í gær ráðuneytisstjóra í viðskiptaráðuneytinu frá 1. ágúst nk.

Spurð um helstu verkefni framundan segir Jónína að huga þurfi að ýmsu er varðar form og rekstur ráðuneytisins, en eins og kunnugt er ákvað ný ríkisstjórn að skilja að iðnaðarráðuneyti og viðskiptaráðuneyti. Hvað áhersluatriðum viðskiptaráðuneytisins viðkemur segir Jónína neytendamál, samkeppnismál og fjármagnsmarkaðinn verða fyrirferðarmikil á næstunni í samræmi við áherslur nýs ráðherra.

Jónína útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1996 og lauk mastersgráðu frá London School of Economics and Political Science árið 2000. Hún hóf störf í viðskiptaráðuneytinu haustið 2000 og var skipuð skrifstofustjóri þar árið 2004.