Sælkerar Agnar Sverrisson og Xavier Rousset kunna að kitla bragðlaukana með ljúffengum mat og drykk.
Sælkerar Agnar Sverrisson og Xavier Rousset kunna að kitla bragðlaukana með ljúffengum mat og drykk.
MATREIÐSLUMEISTARINN Agnar Sverrisson undirbýr nú af kappi að opna fyrsta flokks veitingastað í miðborg London. Staðurinn á að heita Texture og er til húsa rétt við Portman Square, í um þriggja mínútna fjarlægð frá Oxford Street.
MATREIÐSLUMEISTARINN Agnar Sverrisson undirbýr nú af kappi að opna fyrsta flokks veitingastað í miðborg London. Staðurinn á að heita Texture og er til húsa rétt við Portman Square, í um þriggja mínútna fjarlægð frá Oxford Street. Og ekki vantar upp á metnaðinn hjá Agnari, sem fullyrðir að Texture verði í fremstu röð. "Við ætlum að verða bestir, það er ekkert öðruvísi. Bara eins og sannir Íslendingar."

Agnar og félagi hans Xavier Rousset eru stofnendur og tveir stærstu eigendur staðarins, en þeir kynntust við vinnu á hinum margverðlaunaða veitingastað Le Manoir aux Quat' Saisons í Oxford, þar sem Agnar var lengi yfirkokkur. "Við hættum ekki í okkar vinnu fyrr en fyrir þremur mánuðum, en við höfum verið að undirbúa þetta í öllum okkar frítíma undanfarna 20 mánuði," segir Agnar. Hann hefur búið í Englandi í um sex ár, en var áður yfirkokkur á Grillinu á Hótel Sögu. "Þeir sem ætla sér að ná langt í matreiðslu verða að búa ytra, því miður, því hér er meiri vinna í boði."

Léttur matur og afslappað andrúmsloft

Sjálfur verður Agnar yfirkokkur og er að þróa matseðilinn og smakka til rétti, en Xavier er menntaður vínþjónn og var m.a. kosinn besti vínþjónn Bretlands árið 2004. Í sameiningu ætla þeir sér að gera Texture að nýstárlegum veitingastað þar sem víni og mat verður gert jafnhátt undir höfði, og verður þar m.a. einn stærsti kampavínsbar í Bretlandi. Matseðillinn verður svo í léttari kantinum þrátt fyrir að matreiðslan sjálf verði fyrsta flokks, en mikið verður af salötum og fiski, sem Agnar fær sendan frá Íslandi þrisvar sinnum í viku. Fiskurinn verður ekki það eina íslenska, því staðurinn verður skreyttur verkum eftir Tolla, sem reglulega verður skipt um og bjóðast viðskiptavinum til sölu.

Agnar segir staðinn verða með ferskum blæ og örlítið öðruvísi sniði en aðrir fínir veitingastaðir í London. "Það eru mjög stífar hefðir í kringum svona "fine dining" í London og við viljum brjóta þær aðeins upp. Við viljum hafa léttara yfir þessu svo fólk sé afslappaðra og líði betur. Gestum á ekki að líða eins og þjónarnir séu að gera því greiða með því að sinna þeim." Markhópurinn er að sögn Agnars efnað fólk á aldrinum 25-55 ára sem finnst gott að gera vel við sig og fer reglulega út að borða. Áætlað er að Texture verði opnaður í lok ágústmánaðar.