Færðir burtu Mótmælendur í Straumsvík
Færðir burtu Mótmælendur í Straumsvík — Morgunblaðið/Júlíus
ALCAN á Íslandi hefur ákveðið að kæra mótmælendur samtakanna Saving Iceland sem brutust inn á vinnusvæði fyrirtækisins í Straumsvík á þriðjudag og hlekkjuðu sig við ýmis tæki og tól.
ALCAN á Íslandi hefur ákveðið að kæra mótmælendur samtakanna Saving Iceland sem brutust inn á vinnusvæði fyrirtækisins í Straumsvík á þriðjudag og hlekkjuðu sig við ýmis tæki og tól. Lögfræðingum fyrirtækisins var afhent málið til yfirferðar í gærmorgun og í framhaldinu verður skoðað hversu margir verða kærðir og fyrir hvaða sakir. Þrettán aðilar voru handteknir í aðgerðunum en alls voru um tuttugu mótmælendur á svæðinu.

"Til þess að ná krökkunum út þurfti að skemma búnað fyrirtækisins. Þau höfðu m.a. fest sig með keðjum við hlið, slár og vinnuvélar, en þar sem keðjurnar voru utan um háls þeirra var ekki þorandi að saga þær af. Því þurftum við að saga búnaðinn sundur," segir Sigurður Þór Ásgeirsson, fjármálastjóri Alcan, og bætir við að einnig hafi komið til einhverra tafa í framleiðslu þar sem mótmælendur hafi lokað aðalhliði að álverinu.

Mótmælendur lögðu sjálfa sig og lögregluþjóna í stórhættu með athæfi sínu en fyllstu varúðar verður að gæta á vinnusvæði líku og í Straumsvík. Í kjölfar handtöku voru teknar skýrslur af aðilunum þrettán og var öllum sleppt að þeim loknum. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefur ekki verið tekin ákvörðun um framhaldið og heldur rannsókn áfram.

Meðal þess sem komið hefur fram sem úrræði er að vísa mótmælendum úr landi en flestir þeirra handteknu eru með erlent ríkisfang. Meðal þess sem lögregla rannsakar er hvort þeir hafi hlotið dóma erlendis en vitað er að einhverjir mótmælenda voru dæmdir hér á landi, þ.e. vegna athæfa við mótmæli á Austurlandi í tengslum við Kárahnjúkastíflu og álver Fjarðaáls á Reyðarfirði.

Ragnheiður Böðvarsdóttir, staðgengill forstjóra Útlendingastofnunar, segir ekkert erindi hafa borist stofnuninni frá lögreglu vegna mótmælendanna. Hún segir ferlið þannig að ef hugsanleg ástæða þykir til brottvísunar fær viðkomandi senda tilkynningu og frest til að andmæla. Ákvörðun er síðan tekin eftir að málið er skoðað.

Í hnotskurn
» Samkvæmt útlendingalögum er heimilt að vísa útlendingi úr landi hafi hann á síðustu fimm árum afplánað refsingu erlendis eða verið dæmdur þar til refsingar sem að íslenskum lögum getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði.