Veislan á Grund "Þetta er svona þjóðlagapönk, - ja, eða bara pönkrokk kannski," segir Brynjólfur Brynjólfsson, eða Bobbi.
Veislan á Grund "Þetta er svona þjóðlagapönk, - ja, eða bara pönkrokk kannski," segir Brynjólfur Brynjólfsson, eða Bobbi.
Eftir Sverri Norland sverrirn@mbl.is AÐ BAKI hinna geðþekku spilafélaga í Helga og hljóðfæraleikurunum liggur svo sannarlega plötum drifin slóð; þeir eru fyrir nokkru skriðnir yfir fyrsta tuginn og virðast stefna hraðbyri í átt til hins næsta.
Eftir Sverri Norland

sverrirn@mbl.is

AÐ BAKI hinna geðþekku spilafélaga í Helga og hljóðfæraleikurunum liggur svo sannarlega plötum drifin slóð; þeir eru fyrir nokkru skriðnir yfir fyrsta tuginn og virðast stefna hraðbyri í átt til hins næsta. Á dögunum gáfu þeir út breiðskífuna Veislan á Grund og héldu jafnframt útgáfutónleika. Í kvöld leika þeir svo á Græna hattinum á Akureyri. "Við reiknum með feiknagóðu geimi," segir Brynjólfur Brynjólfsson, eða Bobbi, einn hljóðfæraleikaranna.

Texti titillagsins er eftir Helga Þórsson, en um það segir Bobbi: "Þetta lag fjallar um veisluna á Grund. Grundar-Helga hélt veislu fyrir Smið Andrésson, sem var skattheimtumaður, og fyllti hann og alla hans menn – en karlarnir á bænum voru allir í burtu – og hún fyllti já gestina, og drap þá síðan."

"Þetta lag var nú bara tekið upp heima í æfingahúsnæðinu okkar, svo fórum við í stúdíó hjá honum Þorkeli Símonarsyni í Hundslappadrífu á Görðum á Snæfellsnesi; við fórum þangað og tókum þetta upp, allan diskinn í einni skorpu."

Einhvers konar þjóðlagapönk

Bobbi kveður þá félaga halda sig á svipuðum slóðum og að undanförnu. "Þessi er sennilega svipuð og síðustu tvær plötur. Þetta er svona þjóðlagapönk, – ja, eða bara pönkrokk kannski. Í hið minnsta er þetta bara allt í bland, engin þemu; við leyfum þessu bara að koma eins og það kemur."

Ýmsir hljóðfæraleikarar eru viðriðnir nýju plötuna. Bobbi leikur sjálfur á rafgítar, Helgi syngur; annars annast Hjálmar Stefán Brynjólfsson bakraddir og grípur lítillega í bassa, en leikur þó mestmegnis á rafgítar. Þá spilar Bergsveinn Þórsson á bassa og Atli Már Rúnarsson á trommur. Blessunarlega koma einnig fulltrúar kvenkynsins við sögu: Gunnur Ýr Stefánsdóttir blæs í þverflautu og Rósa Björg Ásgeirsdóttir syngur bakraddir – hljómsveitin ætti því að gleðja bæði augu og eyru.

Í kvöld verða loks hljómleikar með Helga og hljóðfæraleikurunum á Græna hattinum á Akureyri. Þeir hefjast klukkan 21, miðaverð er 1.000 krónur og húsið verður opnað klukkan 20.