Reyðarfjörður | Um síðustu helgi var lokið uppsteypu á síðasta fjölbýlishúsinu af fjórum sem Fasteignafélag Austurlands ehf. er að byggja á Reyðarfirði. Þegar efnistöku var lokið í Oddnýjarheiði, en segja má að henni hafi allri verið ekið burtu, varð til gott byggingarsvæði.
Hafa nú risið fjögur fjölbýlishús við Melgerði 7–13 með um 100 íbúðum og er þegar flutt inn í þrjú húsanna og það fjórða verður tilbúið í desember næstkomandi. Í Melgerði 7–11 eru 2ja, 3ja og 4ja herbergja íbúðir til sölu/leigu á almennum markaði. Í fjölbýlishúsinu Melgerði 13, "eldrimannablokkinni" eru íbúðir fyrir 50 ára og eldri, þjónusturými og salur þar sem fram fer félagsstarf aldraðra á vegum Fjarðabyggðar og Félags eldri borgara á Reyðarfirði.
Fasteignafélag Austurlands ehf. er einnig að byggja þrjú fjölbýlishús við Kaupvang 41–45 á Egilsstöðum. Nú í september/október verður lokið við þriðja og síðasta húsið og hefur félagið þá byggt samtals 183 íbúðir í þessum tveimur sveitarfélögum. Félagið er stærsta leigufélag á Austurlandi og hefur starfsemin gengið vel.
Við uppbygginguna starfa 55–65 manns á vegum Byggingarverktaka Austurlands ehf. Starfsmenn eru frá Austurlandi, Reykjavík, Póllandi og Litháen.