Fjölmiðlafár Sú ákvörðun Boris Johnsons að gefa kost á sér sem borgarstjóraefni Íhaldsflokksins vakti mikla athygli. Fölmiðlafólk tók tíðindunum fagnandi enda er frambjóðandinn maður vinsæll og sérkennilegur.
Fjölmiðlafár Sú ákvörðun Boris Johnsons að gefa kost á sér sem borgarstjóraefni Íhaldsflokksins vakti mikla athygli. Fölmiðlafólk tók tíðindunum fagnandi enda er frambjóðandinn maður vinsæll og sérkennilegur. — ASSOCIATED PRESS
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ásgeir Sverrisson asv@mbl.is Getur annálaður og orðheppinn sérvitringur bundið enda á valdaskeið þekktasta "rauðliðans" í breskum stjórnmálum?

Eftir Ásgeir Sverrisson

asv@mbl.is

Getur annálaður og orðheppinn sérvitringur bundið enda á valdaskeið þekktasta "rauðliðans" í breskum stjórnmálum? Víst er að baráttan verður í senn hörð og áhugaverð, fari svo að Boris Johnson verði útnefndur frambjóðandi breska Íhaldsflokksins í borgarstjórakosningunum í London í maí á næsta ári. Johnson er í hópi þekktustu stjórnmálamanna Bretlands; hann er um flest réttnefndur "furðufugl" en nýtur vinsælda og virðingar fyrir óhefðbundna framkomu og skoðanir, sem hann hikar ekki við að opinbera. Ken Livingstone, "Rauði Ken", núverandi borgarstjóri London, mun þurfa á öllu sínu að halda fari Johnson fram gegn honum, sem telja verður næsta víst.

Johnson skýrði á dögunum frá því að hann hefði ákveðið að gefa kost á sér og batt þar með enda á fyrirferðarmiklar vangaveltur í fjölmiðlum um að ráðamenn innan Íhaldsflokksins hefðu komist að þeirri niðurstöðu að hann væri líklegastur til að ná að velta Livingstone úr sessi. Enn liggur útnefningin þó formlega ekki fyrir. Um 40 aðrir íhaldsmenn hafa lýst yfir áhuga á að takast á við "Rauða Ken". Sérstök nefnd mun nú fara yfir umsóknirnar og skila áliti sínu á þingi Íhaldsflokksins í septembermánuði. Í Bretlandi ganga menn að því sem gefnu að Boris Johnson verði fyrir valinu.

Johnson hefur nú þegar sagt af sér embætti talsmanns Íhaldsflokksins á sviði æðri menntunar en hyggst áfram sitja sem þingmaður fyrir Henley-on-Thames, nærri Oxford í Suður-Englandi.

Johnson, sem er 43 ára, er iðulega borinn saman við Bertie Wooster, sögupersónu P.G Wodehouse og einn litríkasta fulltrúa forréttindastéttarinnar í enskum bókmenntum. Johnson telst að sönnu til yfirstéttarinnar líkt og Bertie Wooster og sennilega má finna viss líkindi með þeim í tali og framgöngu. Boris Johnson er á hinn bóginn ekki bjálfi og þarf ekki á aðstoð sér hæfari manna að halda til að bjarga sér úr vandræðum.

"Rangeygur og málhaltur stríðsæsingamaður frá Texas"

Pólitísk rétthugsun hefur löngum verið honum framandi og af þeim sökum er hann í miklu uppáhaldi hjá ýmsum hópum, sem teljast til hægri á vettvangi stjórnmálanna. Sérviskuleg framganga hefur og orðið til að stækka aðdáendahópinn; Johnson fer yfirleitt ferða sinna á reiðhjóli og hárgreiðslan minnir óneitanlega á fuglahræðu. Hann virðist oftlega utan við sig, þykir prýðilega óskipulagður en sérviska hans sýnist laus við tilgerð. Maðurinn er með afbrigðum orðheppinn og hvatvís í tali og framgöngu. Um margt minnir hann á andstæðing sinn, "Rauða Ken", sem eitt sinn lýsti George W. Bush Bandaríkjaforseta á þann veg að þar færi "mesta ógnunin við lífið á þessari plánetu". Raunar hefur Johnson farið þeim orðum um forseta Bandaríkjanna að hann sé "rangeygur, umboðslaus, og málhaltur stríðsæsingamaður frá Texas og holdtekja hrokans í bandarískum utanríkismálum".

Johnson er án vafa í hópi þekktustu stjórnmálamanna Bretlands og á þá stöðu m.a. því að þakka að hann hefur verið fastur gestur í vinsælum sjónvarpsþáttum breskum á borð við "Have I Got News For You". Johnson hefur komið víða við á ferli sínum og m.a. gert sjónvarpsþætti um sagnfræðileg efni. Þáttaröð, sem hann vann í fyrra fyrir breska ríkisútvarpið BBC , þar sem hann bar Rómarveldi saman við Evrópusamband nútímans þótti sérlega vel heppnuð.

Blaðamaður og latínuhestur

Boris Johnson var kjörinn til setu á þingi árið 2001. Hann er þó einkum þekktur fyrir störf sín sem blaðamaður og hefur hann ritað nokkrar bækur er tengjast þeim vettvangi. Hann nam við Oxford-háskóla þar sem hann las einkum fagurfræði og fornaldarspeki. Johnson er annálaður fyrir tök sín á latínu; talar vísast það undursamlega mál "eins og innfæddur" líkt og ágætur frönskukennari við MR sagði eitt sinn um Charles de Gaulle.

Að námi loknu gerðist Johnson blaðamaður við The Tim es . Hann var rekinn úr starfi ári síðar. Þaðan lá leiðin til The Daily Telegraph og var hann m.a. Evrópu-fréttaritari blaðsins. Þar á bæ kunnu menn vel að meta stíl hans og óhefðbundnar skoðanir og var hann um skeið aðstoðarritstjóri blaðsins.

Árið 1999 var hann ráðinn ritstjóri vikuritsins Spectator , sem telja má eitt helsta málgagn breskra íhaldsmanna. Sérviska og óheft skoðanagleði hefur löngum einkennt tímarit þetta og reyndist Johnson verðugur þeirrar upphafningar, sem hann hafði hlotið.

"Ógeðfellt sálarupplag" íbúa Liverpool

Johnson hefur iðulega þótt ganga of langt í ummælum sínum um menn og málefni og komist í hann krappann af þeim sökum. Í októbermánuði árið 2004 birti Spectator ómerktan leiðara þar sem veist var harkalega að íbúum Liverpool-borgar. Var sérstaklega nefnt að íbúarnir "veltu sér upp úr" sorg sinni í kjölfar þess að Ken nokkur Bigley frá Liverpool hafði verið tekinn af lífi í Írak. Sagt var að margir íbúa Liverpool hefðu "sérlega ógeðfellt sálarupplag" og þannig mætti áfram telja. Skrifin vöktu að vonum gríðarlega hörð viðbrögð í borginni. Raunar kom síðar í ljós, að Johnson hafði ekki skrifað leiðarann en hann hafði "komið nærri verkinu". Hann tók hins vegar á sig ábyrgð sem ritstjóri og bað íbúa Liverpool opinberlega afsökunar

Í annarri grein vakti Johnson athygli á því ófremdarástandi sem hann kvað ríkja í Portsmouth. Þar væri of mikið um eiturlyf, feitt fólk og þingmenn Verkamannaflokksins.

Smáborgaraleg viðmið í heiðri höfð á Papúa Nýju-Gíneu

Í grein um leiðtogakreppu innan Verkamannaflokksins afrekaði Johnson að móðga íbúa Papúa Nýju-Gíneu: "Síðustu tíu árin höfum við í Íhaldsflokknum vanist mannætuveislum og höfðingjadrápi að hætti íbúa Papúa Nýju-Gíneu og þess vegna fylgjumst við undrandi og glöð með því er þessi brjálsemi steypist yfir Verkamannaflokkinn." Stjórnvöld þar mótmæltu ummælum Johnsons harðlega og baðst hann afsökunar með þeim orðum að vísast væri framganga íbúa Papúa Nýju-Gíneu líkt og annarra mótuð af "óflekkuðum, smáborgaralegum viðmiðum viðtekins fjölskyldulífs". Upplýsingar sínar kvaðst Johnson hafa úr stórmerkri bók sem Time Life hefði gefið út um Papúa Nýju-Gíneu og geymdi myndir frá sjötta eða sjöunda áratugnum af frumbyggjum, sem uppteknir væru við "frumstæðan hernað og manndráp". Kvaðst hann ekki fá betur séð en þessi líking ætti fyllilega við um leiðtogavanda Verkamannaflokksins.

Tölvuleikir og "heilarotnun"

Johnson hefur þungar áhyggjur af minnkandi lestri ungs fólks. Í magnaðri grein, sem hann reit í The Daily Telegraph í desember í fyrra, tengir hann þá þróun tölvuleikjum. Segir hann foreldra bera ábyrgð á þeirri "heilarotnun", sem börn þeirra sæti af völdum slíkra tóla. Foreldrar geri sífellt auknar kröfur til menntakerfsins en sinni síðan ekki börnunum, sem sitji svipbirgðalaus við tölvuna inni í næsta herbergi og meðtaki sprengingarnar, hryllinginn og viðbjóðinn, sem gjarnan fylgi þess háttar "skemmtun". Hvetur Johnson foreldra til að beita síðustu líkamskröftunum til að slökkva á Desperate Housewives, hefja sig upp úr stofusófanum, og rífa leikjatölvu barnanna úr sambandi. Takist ekki að stöðva öskrin í afkvæmunum beri foreldrum að taka fram hamarinn og mölva græjuna mélinu smærra.

Hörmungar og tækifæri

Einkalíf Johnsons hefur löngum þótt í skrautlegra lagi. Hann var árið 2004 settur af sem ráðherra lista í skuggaráðuneyti Íhaldsflokksins eftir að upplýst hafði verið um fjögurra ára ástarsamband hans og blaðakonu einnar, sem starfaði við Spectator . Þótti sýnt að Johnson hefði verið staðinn að lygum enda hafði hann sagt fregnir af sambandinu tilhæfulausar með öllu.

Johnson hefur nokkra reynslu af brottrekstrum enda var honum ungum sagt upp hjá The Times fyrir að hafa beislað skáldafákinn í frétt einni. Um brottvikninguna árið 2004 sagði Johnson í dálki sínum í The Daily Telegraph : "Kæru vinir, líkt og ég hefi reynt á sjálfum mér eru hörmungar ekki til, heldur aðeins ný tækifæri og þar ræðir raunar um tækifæri til að kalla yfir sig nýjar hörmungar."

Svitafýla og sósíalískar samgöngur

Johnson hefur boðað að hann muni leggja fram ítarlega stefnuskrá í næsta mánuði. Hann hefur þegar lýst yfir því að hann vilji bæta stöðu þeirra, sem kjósa að fara um London á hjólhesti og sagt að koma þurfi í veg fyrir að "strætisvagnar sósíalista" ógni lífi og limum hjólreiðamanna. Hann boðar einnig að jarðlestir verði gerðar þægilegri samgöngumáti enda sé ótækt að heilsu manna sé ógnað með því að gera þeim að anda að sér svitafýlu úr handarkrika þess sem næst þeim stendur. Þörf sé á nýjum hugmyndum við stjórn borgarinnar; Ken Livingstone hafi verið úr hófi fram afskiptasamur borgarstjóri og hann hafi einbeitt sér að því að koma hugðarefnum sínum í framkvæmd í stað þess að beina kröftum sínum að því að gera líf borgarbúa þægilegra. "Ég mun fá íbúa London til að brosa á ný," sagði Johnson er hann skýrði frá því að hann hefði ákveðið að gefa kost á sér.

Ken Livingstone, sem verið hefur borgarstjóri síðustu átta ár, brást við tíðindum þessum með því að lýsa yfir því, að íbúar London mundu hljóta mikinn og varanlegan skaða af því að kjósa Boris Johnson borgarstjóra.

Batnandi staða íhaldsmanna

Íhaldsmenn hafa verið í sókn í London á síðustu árum og innvígðir telja sigurlíkur flokksins í kosningunum á næsta ári nokkrar. Líklegt er að umdeildur skattur, sem Livingstone hefur lagt á alla þá sem um miðborgina aka, verði helsta kosningamálið. "Rauði Ken" er líkt og Boris Johnson í miklu uppáhaldi meðal fjölmiðlafólks enda litríkur og með afbrigðum málglaður eins og keppinauturinn. Má því gera ráð fyrir harðri baráttu og hugvitsamlegum uppákomum þegar þessir óhefðbundnu stjórnmálamenn taka að slást um athyglina.
Í hnotskurn
» Alexander Boris de Pfeffel Johnson fæddist 19. júní 1964 í New York í Bandaríkjunum.
» Faðir hans, Stanley Johnson, var um skeið þingmaður breska Íhaldsflokksins á Evrópuþinginu og er afkastamikill rithöfundur. Móðir hans er listmálarinn Charlotte Wahl. Langafi Johnsons var Ali Kemal, síðasti innanríkisráðherra Ottomanaríkisins.
» Boris Johnson nam við Eton og Oxford og sérhæfði sig í klassískum fræðum. Hann gerðist blaðamaður árið 1987.
» Árið 2001 var hann kjörinn til setu á þingi fyrir Henley-on-Thames þar sem hann leysti Michael Heseltine, einn öflugasta forustumann Íhaldsflokksins, af hólmi.
» Johnson hefur tvívegis gengið í hjónaband. Eiginkona hans er Marina Wheeler lögmaður. Þau eiga fjögur börn.