Gunnar Örn Gunnarsson
Gunnar Örn Gunnarsson
Gunnar Örn Gunnarsson gerir athugasemdir við frétt Morgunblaðsins um lífríki Mývatns: "Í greininni var nefnilega verið að vekja upp sama drauginn sem lifði góðu lífi á þeim tíma sem ég var framkvæmdastjóri Kísiliðjunnar..."

Á FIMMTUDAGSKVÖLDIÐ hinn 19. júlí var ég að koma heim eftir að hafa eitt einni viku á hálendi Íslands með vinum við útivist og náttúruskoðun. Ógleymanleg ferð. Eftir að hafa verið í nær engu sambandi við umheiminn þessa viku þá hugsaði ég mér gott til glóðarinnar og settist niður fyrir framan blaðabunkann sem safnast hafði saman. Rak ég þá augun í Morgunblaðið frá 14. júní þar sem stóð á forsíðu, Lifnar yfir Mývatni. Mjög ánægjulegt, hugsaði ég og hóf lesturinn. Heldur þyngdist samt brúnin þegar mér varð ljóst innihaldið og boðskapurinn. Í greininni var nefnilega verið að vekja upp sama drauginn sem lifði góðu lífi á þeim tíma sem ég var framkvæmdastjóri Kísiliðjunnar og verið var að vinna umhverfismat fyrir áframhaldandi starfsemi Kísiliðjunnar. Þessi draugagangur gengur stuttlega út á það að allt sem miður hefur farið í lífríki fugla, fiska eða annarra lífvera frá upphafi starfsemi Kísiliðjunnar sé af hennar völdum. Það verður að segjast eins og er að það var verulega á brattann að sækja fyrir Kísiliðjuna að sannfæra umhverfisyfirvöld um það að þessi draugasaga væri ekki á rökum reist þegar það er haft í huga að nær allt vísindasamfélag líffræðinga í landinu var búið að gera upp hug sinn í málinu og taldi að draugasagan væri sönn. Þau undur gerðust hins vegar að Kísiliðjan fékk grænt ljós á að halda starfsemi áfram og hefja námuvinnslu í Syðri flóa vatnsins þvert á það sem nær allir héldu. Ástæðan fyrir þeirri niðurstöðu var hins vegar einföld. Umfangsmikil matsskýrsla sýndi fram á svo ekki var um villst að starfsemi Kísiliðjunnar kæmi hvergi nærri þeim sveiflum í lífríki Mývatns eins og sumir vísindamenn og aðrir höfðu haldið fram.

Að mínu mati var það fernt sem skipti sköpum í þessu sambandi. Í fyrsta lagi kom berlega í ljós að sú kenning að dældu svæðin tækju til sín allt lífrænt efni af sléttum botninum og kæmu þar með að engu gagni fyrir lífríki alls vatnsins, átti sér enga stoð. M.a. var sýnt fram á að engir setflutningar eru á milli Syðri og Ytri flóa Mývatns. Í öðru lagi bentu talningar á flórgoða á Mývatni ekki til þess að Kísiliðjan hefði neitt með viðgang þess fuglastofns að gera. En hnignun flórgoðastofnsins hafði einmitt verið notuð í mörg ár sem eitt skýrasta dæmi um hversu slæm áhrif Kísiliðjan hefði á lífríkið eða þangað til stofninn fór að braggast aftur svo um munaði og náð meiri stærð en fyrir daga Kísiliðjunnar. Þá hvarf umræðan um þann stofn eins og dögg fyrir sólu. Í þriðja lagi sýndi skýrsla óháðra virtra erlendra vísindamanna á sviði vatnalíffræði, eftir að hafa farið mjög vel yfir öll gögn í málinu að beiðni ríkisstjórnarinnar, að draugasagan var ekki á rökum reist og ég endurtek, ekki á rökum reist. Þeir settu sig ekki á móti því að námuvinnsla mundi hefjast í Syðri flóa vatnsins. Í fjórða lagi hafði vísindamönnum sem störfuðu með gögn frá Mývatni ekki tekist að koma fram með trúverðuga kenningu hvað þá auma tilgátu um það orsakasamhengi sem gæti skýrt það að starfsemi Kísiliðjunnar hefði þessi víðtæku áhrif á lífríki vatnsins eins og ýjað var að. Þetta atriði er einkar athyglisvert þegar það er haft í huga að á þessum tíma höfðu nær samfelldar rannsóknir staðið yfir við vatnið í um 30 ár.

Auðvitað kom margt fleira fram í matsskýrslunum sem sýndi fram á að Kísiliðjan kom hvergi að sveiflum lífríkisins svo sem það að gögn um fiskveiðar úr vatninu hafa ekkert vísindalegt gildi eða að á botni dældra svæða væri kominn bullandi gróður og lífríki aðeins fáum árum eftir dælingu. En plássið leyfir ekki frekari röksemdir. Ég vil hins vegar segja að ansi er Morgunblaðið farið að leggjast lágt að koma með svona fréttaflutning og það á forsíðu. Hvað er það sem leiðir blaðið til þess að vekja upp gamla drauga og hafa eftir slík ósannindi eins og í þessu máli? Ég er á þeirri skoðun að það sé engum til gagns og síst Morgunblaðinu sjálfu að vera með svo óvandaða fréttamennsku eins og þessa þar sem menn eru að reyna að réttlæta áratuga óvild og árásir á Kísiliðjuna sem þvert á móti skilaði Mývatnssveit og þjóðfélaginu öllu miklum verðmætum og hjálpað til við að byggja upp gott samfélag í sveit.

Að lokum þá vil ég benda á að árið 2000 var lífríki á Mývatni með slíkum blóma að menn mundu vart annað eins. Mýstrókar voru með mesta móti og viðgangur fugla mikill. Það var einstakt að upplifa þessa hluti og eru þeir vel skjalfestir á myndum sem ég tók á þessum tíma. Gæti það verið að það hafi verið Kísiliðjunni að þakka þar sem hún var þá í fullum rekstri? Annað sem vert er að benda á er að veðurfar á Mývatni hefur verið einstaklega hlýtt ef miðað er við árin áður eins og reyndar allir landsmenn hafa reynt. Getur það verið að þetta góða veðurfar hafi eitthvað að gera með óvenju líflegt lífríki vatnsins?

Höfundur er fyrrverandi framkvæmdastjóri Kísiliðjunnar við Mývatn, 1999-2002.