Það þarf engan stjarneðlisfræðing til þess að sjá kostina við að taka hluta af grunnháskólanámi erlendis. Þar er hægt að slá margar flugur í einu höggi, bæta tungumálakunnáttuna, kynnast nýju fólki og annarri menningu og taka námskeið sem ekki eru í boði á Íslandi. Alþjóðleg reynsla er auk þess vel metin á vinnumarkaði.
Í sumum deildum háskóla er auðveldara að komast í skiptinám erlendis en í öðrum. Möguleikarnir fyrir þá sem stunda tungumála- og viðskiptanám eru miklir og sömuleiðis þá sem leggja stund á félagsvísindi. Nemendur í lögfræði, læknisfræði, hjúkrunarfræði og raunvísindagreinum eiga hins vegar oft erfiðara með að finna nám við hæfi, vegna þess að þessar námsgreinar krefjast fleiri skyldunámskeiða.
Sumar íslenskar námsbrautir eiga enn eftir að innleiða alþjóðlegt skiptinám í námskrá sína. Í slíkum tilfellum er best að þrýsta á að slíkt nám verði að veruleika í gegnum hagsmunafélag nemenda í skólanum svo að stúdentar eigi möguleika á að taka hluta af sínu námi erlendis.
Flestir erlendir háskólar kenna a.m.k. einhver námskeið á ensku, jafnvel þótt það sé ekki móðurmál landsins sem háskólinn er í. Það opnar hins vegar fjölmörg tækifæri ef fólk hefur önnur tungumál á valdi sínu, eins og spænsku, svo tekið sé dæmi. Þá má velja úr fjölda námskeiða á því tungumáli í háskóla jafnt á Spáni sem í S-Ameríku, ekki aðeins þeim fáu sem kennd eru á ensku fyrir skiptinema.
Styrkir í Erasmus og Nordplus
En hvað er mikilvægt að hafa í huga þegar verið er að íhuga skiptinám? Það er lykilatriði að byrja nógu snemma á því að gera áætlanir. Þú þarft að skrá þig í námskeið í erlendu háskólunum og finna húsnæði í tíma.Nemendur sem ætla til landa eins og Bandaríkjanna, Kanada, Kína og Rússlands þurfa að sækja um vegabréfsáritun. Í erlendum stórríkjum tíðkast yfirleitt meira skrifræði en Íslendingar eru vanir og starfsmenn þeirra hafa lítinn skilning á að "redda hlutum" á síðustu stundu samkvæmt íslensku hefðinni. Það getur líka skapraunað íslenskum alþjóðafulltrúum þegar nemendur birtast í júlí og vilja komast á námskeið erlendis sem hefst í lok ágúst.
Hvert get ég farið?
Kannaðu alla möguleika sem eru í boði áður en þú ákveður þann besta fyrir þig. Hvar myndir þú vilja eyða tíma þínum? Hvaða tungumál talarðu? Hversu miklum peningum geturðu eytt aukreitis? Samræmist stundaskrá erlenda háskólans íslenska skólaárinu? Kannaðu það orð sem fer af skólanum. Stóru nöfnin í háskólageiranum hljóma tilkomumikil, hafa langa hefð og mikið af auðlindum og því líkleg til þess að mæta lámarksgæðakröfum. En það sem mun virkilega skipta þig máli er hvort að þú munir njóta námstímans og hvort að kennararnir veiti þér innblástur. Minna þekktir háskólar hafa stundum vinalegra andrúmsloft og þar er oft ódýrara að lifa.
Fellur skiptinámið inn í grunnnámið mitt og er það lánshæft?
Kannaðu tvisvar og svo enn einu sinni, hvort að námskeiðin sem þú hyggst taka við erlenda háskólann séu metin til eininga í námi þínu á Íslandi. Talaðu við þá manneskju eða nefnd sem er ábyrg fyrir mati á erlendum námskeiðum í deildinni sem þú stundar nám við. Fáðu einnig skýra staðfestingu hjá erlenda háskólanum um að námskeiðin munu verða í boði. Það hefur komið fyrir að erlendum námskeiðum sem íslenskir nemendur hafa fengið samþykkt af bærum skólayfirvöldum hérlendis er aflýst og þá þarf nemandinn að fá nýtt námskeið metið með tilheyrandi skriffinnsku.
Hversu mikið mun þetta kosta?
Þeir nemendur sem fara í nám við háskóla í Evrópu sem taka þátt í Erasmus-verkefni Evrópusambandsins geta sótt um styrki fyrir ferðalögum og uppihaldi. Upphæð styrksins nær ekki yfir öll útgjöld en hluta þeirra. Sömu reglur gilda fyrir þá sem fara í skiptinám í gegnum Nordplus-verkefnið til Norðurlandanna. Þeir sem fara í nám utan Evrópu þurfa yfirleitt að leggja meira til fararinnar. Sumir íslenskir nemendur, sérstaklega þeir sem stunda nám við ríkisrekna háskóla, virðast vera þeirrar skoðunar að skiptinám erlendis skuli vera ókeypis og hætta við námið þegar þeir gera sér ljóst að námsdvölin verður ekki greidd að mestum hluta eða að öllu leyti fyrir þá. Ef þetta á við um þig, mundu þá að þú ert ekki að borga skólagjöld og spurðu sjálfa/n þig hvort sé meira virði: skiptinám erlendis eða ferð til Kanaríeyja.LÍN lánar reyndar fyrir skiptinámi en það skiptir máli að lesa smáa letrið og muna skilafresti.