21. ágúst 2007 | Íþróttir | 730 orð | 1 mynd

"Tek strætó í skólann"

Sara Björk Gunnarsdóttir, 16 ára, valin í landsliðið eftir tveggja ára fjarveru vegna alvarlegra meiðsla

Nýliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir, knattspyrnukona úr Haukum í Hafnarfirði, er aðeins 16 ára og var valin í íslenska kvennalandsliðið í gær.
Nýliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir, knattspyrnukona úr Haukum í Hafnarfirði, er aðeins 16 ára og var valin í íslenska kvennalandsliðið í gær. — Morgunblaðið/ÞÖK
"ÉG er enn að jafna mig eftir að hafa fengið fréttirnar. Það er gríðarlegur heiður að vera valin í A-landsliðið," sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, leikmaður 1. deildar liðs Hauka, við Morgunblaðið í gær.
"ÉG er enn að jafna mig eftir að hafa fengið fréttirnar. Það er gríðarlegur heiður að vera valin í A-landsliðið," sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, leikmaður 1. deildar liðs Hauka, við Morgunblaðið í gær. Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari kynnti í gær val sitt á leikmönnum fyrir leikinn gegn Slóvenum um næstu helgi og er Sara Björk eini nýliðinn í hópnum, en hún er aðeins 16 ára.

Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson

seth@mbl.is

Sara verður 17 ára gömul í lok september og það vekur athygli að hún var frá keppni vegna alvarlegra meiðsla frá sumrinu 2005 og þar til snemma á þessu ári. "Ég sleit krossband í hné í skólaferðalagi í 10. bekk í Hvaleyrarskóla. Ég var í einhverjum boltaleik og fékk högg á hnéð. Það tók sinn tíma að finna út úr því hvað var að mér. Í fyrstu var haldið að flís hefði brotnað úr lærleggnum. Ég var því sett í gifs í 5 vikur. Þegar ég losnaði úr gifsinu kom í ljós að krossbandið var slitið."

Of ung til að fara í uppskurð

Sara þurfti að bíða í tæpt ár eftir því að komast í aðgerð á hnénu – ekki vegna biðlista heldur vegna aldurs síns.

"Vaxtarlínurnar í beininu voru ekki grónar saman og það er ekki hægt að gera aðgerð á krossbandi fyrr en vaxtarlínan er gróin. Ég var því frá keppni allt sumarið 2005 og einnig 2006. Í nóvember á síðasta ári fór ég að æfa. Það voru ekki mikil átök í fyrstu en smátt og smátt fór ég að ná meiri styrk. Í vor og sumar hef ég varla fundið fyrir meiðslunum."

Sara fer í Flensborgarskólann í haust á annað námsár sitt í framhaldsskólanum.

"Ég tek strætó fyrstu vikurnar í skólann þar sem ég fæ ekki bílpróf fyrr en í lok september. Ég er á málabraut á íþróttasviði."

Í sumar hefur verið nóg um að vera í landsliðsverkefnum hjá Söru. Hún lék 4 landsleiki með U17 ára landsliðinu á Norðurlandamótinu í byrjun júlí og þar var hún fyrirliði. "Ég var í U19 ára landsliðinu sem lék í úrslitakeppninni hér á landi í júní. Það var gríðarlega skemmtilegt og mikil reynsla sem við fengum. Ég tel að við séum ekki langt á eftir sterkustu liðunum." U19 ára liðið hefur leikið 6 leiki á þessu ári og hefur Sara Björk því tekið þátt í 10 landsleikjum á árinu og í haust eru 3 leikir á dagskrá.

Horfi mikið á fótbolta

Sara fylgist vel með fótboltanum hér á landi og erlendis. Manchester United er "liðið" að mati Söru. "Ég er ekkert smeyk við að viðurkenna það að ég horfi mikið á fótbolta og á laugardögum get ég alveg setið í sófanum og horft á nokkra leiki í röð. Stelpur sem æfa fótbolta mættu alveg gera meira af slíku."

Sara leikur á miðjunni og lýsir sjálfri sér sem sókndjörfum miðjumanni. "Ég hef ekki hugmynd um hvort ég fæ að leika gegn Slóveníu en þessa stundina er ég bara glöð yfir því að vera í hópnum. Það er gríðarlegur heiður fyrir stelpu á mínum aldri. Ég varð eiginlega bara hissa þegar ég fékk fregnirnar frá KSÍ." Sara býr ekki langt frá æfingasvæði Hauka og er hún ánægð í herbúðum liðsins. "Það er stutt að fara á æfingar og í sumar er ég að aðstoða við þjálfun hjá 5. flokki kvenna. Það er mjög skemmtilegt starf. Ég hef ekki gert það upp við mig hvað ég ætla mér að gera á næstu árum hvað fótboltann varðar. Það kemur vel til greina að sameina háskólanám og að spila fótbolta í Bandaríkjunum en það er nægur tími til þess að velta slíku fyrir sér," sagði Sara Björk.

Sara er framtíðarleikmaður

Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari sagði að hann hefði valið Söru í sinn hóp þar sem hún hefði að sínu mati verið besti leikmaður U19-landsliðsins í Evrópukeppninni hér á landi fyrr í sumar.

"Hún lék líka mjög vel með U17 ára landsliðinu fyrr í sumar og hennar framganga er ótrúleg þegar tekið er tillit til þess hve lengi hún hefur verið frá. Sara hefur verið gríðarlega dugleg að æfa sjálf og einnig með sínu liði, Haukum. Það koma stundum upp svona leikmenn sem virðast tilbúnir í allt og ég sé Söru fyrir mér sem framtíðarleikmann í landsliðinu ef hún heldur rétt á spilunum. Sara er alhliða leikmaður með mikla vinnslu og baráttu og hún á bjarta framtíð fyrir sér," sagði Sigurður Ragnar um Söru Björk Gunnarsdóttur.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.