Niðurstöður Jónas Guðmundsson frá Landsbjörgu og Benóný Ásgrímsson hjá Landhelgisgæslunni á fundinum í gær.
Niðurstöður Jónas Guðmundsson frá Landsbjörgu og Benóný Ásgrímsson hjá Landhelgisgæslunni á fundinum í gær. — Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Gunnar Pál Baldvinsson gunnarpall@mbl.is LEIT var formlega hætt í fyrrakvöld að þeim Matthiasi Hinz og Thomasi Grundt. Mannanna hefur verið saknað síðan 18. ágúst en þeir eru nú taldir af.
Eftir Gunnar Pál Baldvinsson gunnarpall@mbl.is

LEIT var formlega hætt í fyrrakvöld að þeim Matthiasi Hinz og Thomasi Grundt. Mannanna hefur verið saknað síðan 18. ágúst en þeir eru nú taldir af.

Fulltrúar Ríkislögreglustjóra, Lögreglunnar á Eskifirði, Björgunarfélagsins á Hornafirði, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Landhelgisgæslunnar tilkynntu á blaðamannafundi í gær niðurstöðu leitarinnar, en hún hófst laugardaginn 18. ágúst. Víðir Reynisson, lögreglufulltrúi hjá embætti Ríkislögreglustjóra stjórnaði umfangsmiklum aðgerðum á leitarsvæðinu sunnan við Vatnajökul síðustu daga. Allt að 122 einstaklingar komu að leitinni sem fram fór í afar erfiðu landslagi. "Það er samdóma álit okkar sem komið hafa að þessari aðgerð að það er búið að gera allt sem hægt er að gera. Við erum búnir að leggja björgunarfólk í töluverða hættu og við erum búnir að gera ótrúlega mikið á þessum tíma."

Í fyrrakvöld tóku björgunarsveitarmenn saman útbúnað sinn og lögðu af stað í bæinn. Voru allir farnir af svæðinu upp úr klukkan tíu þá um kvöldið.

Í gærmorgun hittu stjórnendur leitarinnar dómsmálaráðherra, fulltrúa þýska sendiráðsins og móður Matthíasar Hinz og tilkynntu þeim að leit væri hætt. "Við tilkynntum þeim að við sæjum ekkert í spilunum sem kallaði á að við gætum gert neitt frekar á þessu svæði. Við teljum okkur vera búna að leita á því svæði sem er líklegast, því svæði sem hægt er að leita á og enn fremur því svæði sem skynsamlegt er að leita á. Það er niðurstaða okkar að við séum búnir að gera allt sem hægt er til að finna þessa menn." Það er samdóma álit þeirra sem að leitinni hafa komið að erfiðara landslag og torfærara leitarsvæði sé vart fundið á Íslandi. Lægsti punktur svæðisins er rétt yfir sjávarmáli og sá hæsti er Hvannadalshnjúkur, hæsti tindur landsins.

Ferðamenn "vanmeta Ísland"

Ljóst er að mennirnir tveir hafa verið á ferðinni á svæðinu þegar aðstæður eru ferðamönnum, og einnig björgunarmönnum, hvað verstar. "Jökullinn er á bullandi hreyfingu á þessum árstíma. Þarna eru stórar sprungur og svelgir. Á öðrum árstíma væri óhætt að fara þarna um," segir Jónas Guðmundsson frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu en hann tók þátt í stjórn aðgerða síðustu daga leitarinnar. Aðspurður hvort vitað væri hvort mennirnir hefðu vitað hversu aðstæður væru óhagstæðar á þessum árstíma segir Jónas að svo sé ekki. "Við vitum eftir margra ára reynslu af erlendum ferðamönnum að þeir vanmeta Ísland. Þeir vanmeta aðstæður og þeir vanmeta veður. Það hefur eitthvað komið upp á í þessu tilviki, sama hvort það er vanmat eða slys. Slys geta líka komið fyrir hjá bestu mönnum."

Víðir Reynisson, hjá Ríkislögreglustjóra, segir að það sé alltaf erfið ákvörðun að hætta leit þegar svona stendur. Hann segir hins vegar að aðstæður hafi verið þess eðlis að ekki hafi verið talið réttlætanlegt að halda leitinni áfram. "Það er að koma vetur þarna uppi. Það er farið að snjóa og þá daga sem við vorum á leitarsvæðinu var komið upp undir 10 til 20 cm lag af nýjum snjó." Talið er að mennirnir hafi verið á leitarsvæðinu fyrir 3-4 vikum. Þá hafi þar ekki verið snjóflóðahætta en hún sé að skapast nú. "Ef þeir hafa lent í einhverjum slysum þá eru sprungur og svelgir það líklegasta sem þeir geta hafa lent í," segir Víðir og bendir jafnframt á að verið geti að snjór hafi síðan lokað sprungunum.

Benóný Ásgrímsson, flugrekstrarstjóri Landhelgisgæslunnar, segist telja að yfirborðsleit hafi farið fram alls staðar þar sem snjór hafi verið. Veður hafi verið gott í gær og þá hafi þyrlan náð að fljúga vel yfir mest allt svæðið.

Leitin að Þjóðverjunum

17. ágúst Thomas Grundt og Matthias Hinz skila sér ekki heim til Þýskalands eftir Íslandsferð.

18. ágúst Eftirgrennslan hefst hér á landi og upplýsinga óskað að utan.

19. ágúst Rannsóknarhópur stofnaður og kemur saman. Ferðaáætlanir finnast í tölvum mannanna.

20. ágúst Eftirgrennslan í skálum og á tjaldstæðum við Vatnajökul.

21. ágúst SMS-samskipti sýna að Matthias var við Skaftafell. Björgunarsveitir kallaðar út og leit þar skipulögð.

22. ágúst Leitað á jöklum og láglendi í Skaftafelli úr þyrlum og á jörðu niðri.

23. ágúst TF-GNÁ finnur tjöldin við Svínafellsjökul.

24. ágúst Spor finnast. Björgunarsveitarmaður slasast.

25. ágúst Svínafellsjökull fínkembdur og Hrútsfjallstindar.

26. ágúst Leit hætt. Mennirnir taldir af.

Ganga á Hrútsfjallstinda erfiðasti hluti leitarinnar

"ÞESSIR menn eru "geðveikir"," sagði Benóný Ásgrímsson, flugrekstrarstjóri Landhelgisgæslunnar, um björgunarsveitarmenn sem buðu sig fram til að leita að þýsku ferðamönnunum á Hrútsfjallstindum eftir að búið var að fljúga með þá upp í fjallið. Á blaðamannafundi leitaraðila í gær kom fram að verkefnið hefði verið það tæknilega erfiðasta sem framkvæmt var í leitinni að mönnunum tveimur.

Björgunarsveitarmennirnir voru fimm talsins og buðu sig fram til verksins eftir að menn úr þyrlu sáu til spora á fjallinu á föstudagskvöldið. Freyr Ingi Björnsson fór fyrir hópnum og segir að aðstæður hafi verið afar erfiðar. "Það er tæknilega krefjandi verk að klífa fjallið á veturna þegar þarna er allt fullt af ís og snjó. Á þessum tíma er það hins vegar tóm vitleysa. Það er samt ekki hægt að útiloka að þeir hafi farið þarna upp."

Íslenska bergið laust í sér

Þegar hitnar kemur berg fjallsins í ljós undan snjónum og ísnum og gerir fjallið nær ókleift. Freyr segir að íslenska bergið sé það laust í sér að erfitt sé að klífa það eins og við þær aðstæður sem eru í Hrútsfjallinu. "Þeir höfðu hins vegar klifrað í Ölpunum sem eru úr mun harðara bergi og kannski hafa þeir vanmetið íslenska bergið." Fram kom á fundinum í gær að aðstæður á Hrútsfjallstindum séu í samræmi við þær gönguferðir sem mennirnir höfðu áhuga á.

"Nú er sá tími sem er hættulegast að vera þarna. Sprungurnar eru hvað opnastar og snjórinn búinn að bráðna algjörlega úr mörgum þeirra," segir Freyr.

TF-GNÁ flaug með fimmmenningana á svæði þar sem tiltölulega öruggt var fyrir þá að fóta sig. Reyndu þeir að komast að því svæði þar sem sést hafði til spora kvöldið áður en komust ekki vegna gríðarstórrar jökulsprungu. Einnig tókst þeim ekki að sjá sporin með sjónaukum þar sem nokkuð hafði snjóað um nóttina. Eftir erfiða göngu um fjallið sótti þyrlan þá því án þess að fleiri vísbendingar kæmu í ljós um afdrif Þjóðverjanna tveggja.

Hrútsfjallstindar eru með stærri fjöllum á landinu og þaðan gátu fimmmenningarnir séð yfir allt leitarsvæðið. "Virðing okkar fyrir þessum fjöllum minnkaði ekki við það að horfa yfir svæðið. Við sáum allar þessar sprungur galopnar fyrir framan okkur."

Freyr segir það áhugavert að taka þátt í svo umfangsmikilli leit. Þótt hópurinn komi úr hátt í 15 björgunarsveitum hafi allir náð að starfa vel saman og samstarfið við Landhelgisgæsluna hafi verið afar gott. "Við hefðum aldrei getað farið í þetta verkefni sem við fórum í án hjálpar frá þyrlunni."

Týndust í jöklinum

BRESKU háskólanemarnir Tony Proser og Ian Harrison týndust á Öræfajökli í ágúst 1953. Fjallavistfræðingurinn og Íslandsvinurinn dr. Jack D. Ives lýsti því, þegar félagar hans hurfu, í viðtali við Morgunblaðið 2003.

Ives sagði að félagar hans hafi lagt á jökulinn í góðu veðri, en nokkrum klukkustundum síðar hafi skollið á óveður. Líklega hafi þeir ákveðið að halda áfram en villst og fallið í jökulsprungu hulda nýsnævi. Mennirnir fundust ekki þrátt fyrir mikla leit, en búnaður þeirra fannst í júlí 2006.

Samantekt Jóns E. Ísdal um ferðir manna á Vatnajökul fram að fyrstu vorferð Jöklarannsóknafélagsins 1953 birtist í Jökli, tímariti félagsins, 1998. Þar er því lýst þegar Jón Pálsson kennari fórst í september 1927. Hann var á ferð ásamt fleirum á jökli fyrir útfall Jökulsár á Breiðamerkursandi. Jökulbrúnin brast og fór Jón niður ásamt hestum. Lík Jóns fannst ekki fyrr en um vorið.