31. ágúst 2007 | Blaðaukar | 567 orð | 1 mynd

Náttúran.is er fræðslusíða fyrir neytendur

Á vafri um veraldarvefinn má finna fróðlegan vef, bæði fyrir áhugasamt náttúrufólk og eins fyrir neytendur sem kjósa umhverfisvænar lausnir.

Vefurinn fæddist í raun fyrir um 5 árum, þá sem sú hugmynd að gera vef sem mig vantaði sjálfa, vef sem tengir nútímafólk betur við náttúruna, árstíðirnar og gjafir jarðar og sinnir auk þess ákveðnu umhverfisupplýsingastarfi með tengingu við...
Vefurinn fæddist í raun fyrir um 5 árum, þá sem sú hugmynd að gera vef sem mig vantaði sjálfa, vef sem tengir nútímafólk betur við náttúruna, árstíðirnar og gjafir jarðar og sinnir auk þess ákveðnu umhverfisupplýsingastarfi með tengingu við viðskiptalífið," segir frumkvöðullinn að náttúran.is, Guðrún Arndís Tryggvadóttir myndlistamaður. "Mér fannst vanta tæki fyrir neytendur sem kusu að versla umhverfisvænt og sem jafnframt kenndi þeim og kynnti öll þau flóknu umhverfisviðmið sem eru í gangi. Það vantaði yfirsýnina og einhvern sem tengdi saman upplýsingarnar sem koma úr ólíkum áttum og kæmi á framfæri í samhengi. Ég gerði fyrstu viðskiptaáætlunina fyrir rúmum fjórum árum á Brautargengisnámskeiði. Síðan var ekki aftur snúið, enda er þetta mikilvægasti vefur í heimi," segir Guðrún Arndís og hlær.

"Náttúran.is er í eigu 12 aðila og er samvinnuverkefni þar sem fjöldi sérfræðinga og fagaðila kom að þróun. Ekkert er gert án samráðs við vottunaraðila og fagaðila en það sem gerir vefinn spennandi er að á bak við hann stendur fólk sem er að springa af áhuga á bættu umhverfi og nýsköpun á náttúrulegum nótum. Það á við allt frá bindum til bíla. Þetta er ekki bara vefur heldur hugsjón, áhugamál og eitt allsherjar listaverk. Áður var talað um óperur sem "Gesamtkunstwerk" eða allsherjarlistaverk en fyrir okkur er það þessi vefur."

– Hvað er á vefnum? Og hvað er vinsælast?

,,Fréttaliðurinn hefur verið starfræktur allt frá haustinu 2005, þá á forvef Náttúrunnar en hann hét Grasagudda.is. Grasgudda birti blandaðar fréttir af náttúru og umhverfismálum á breiðum grundvelli, innlent og erlent efni, allt í þágu umhverfisbaráttu. Það er því gríðarlegt magn efnis nú þegar inni á vefnum í formi frétta og greina og það er mjög vinsælt. Við viljum segja frá öllu grænu sem er að gerast og gæti verið áhugavert fyrir fólk að vita af. Grænar síður geyma síðan upplýsingar um alla sem eru að gera eitthvað á þessu sviði. Þar eru 500 aðilar skráðir og við stefnum að því að vera með hið vistvæna Ísland allt þar inni og ítarupplýsingar um hvað hver er að gera."

Óháð umhverfisvænt markaðstorg

– Og svo starfrækirðu náttúrumarkaðinn, um hvað snýst hann? Er þörf á slíkum markaði hér?

,,Náttúrumarkaðurinn er óháð markaðstorg fyrir alla. Við seljum og eigum sjálf engar vörur. Þeir sem eru í viðskiptum úti í samfélaginu, standa í nýsköpun, flytja inn eða framleiða vörur sem eru náttúrulegar eða tengjast vottunum, heilsu eða umhverfisvæni geta skráð vörurnar hjá okkur. Þannig geta neytendur auðveldlega fundið það sem þeir leita að hverju sinni og geta valið að versla frekar við þessa umhverfisvænu aðila, í raun í þágu hreinna og betra umhverfis. Allt sem við kaupum snertir umhverfið á einhvern hátt og því er það gífurlega mikilvægt að taka réttar ákvarðanir. Að versla á veraldarvefnum er auk þess umhverfisvænt út af fyrir sig. Þú þarft ekki að keyra langar vegalengdir til að tína ofan í körfuna. Við erum líka með það breitt úrval að ekki þarf að fara úr einni búð í aðra heldur panta beint hjá okkur."

– Hvernig er aðsóknin að vefnum?

,,Hún er ágæt og í stöðugri sókn. Við látum mæla heimsóknirnar hjá Modernus og Náttúran.is hefur í sumar hvað eftir annað verið í hæstu sætum yfir aukningu milli vikna. Það er mjög gott yfir sumarmánuðina á Íslandi. Auðvitað stefnum við á að fólk fari alltaf inn á Náttúran.is með spurningar um hvað sé umhverfisvænna en annað, en það kemur smám saman. Okkur dreymir stóra drauma!"

www.natturan.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.