6. september 2007 | Minningargreinar | 6426 orð | 1 mynd

Björn Th. Björnsson

Björn Th. Björnsson fæddist í Reykjavík 3. september 1922. Hann lést á líknardeild Landakotsspítala 25. ágúst síðastliðinn. Foreldrar Björns voru Baldvin Björnsson gullsmiður og listmálari, f. í Reykjavík 1.5. 1879 d. 24.7. 1945, og Martha Clara Björnsson, húsmóðir, fædd Bemme, í Leipzig í Þýskalandi 10.5. 1886, d. 30.10. 1957. Bræður Björns Th. voru þeir Siegfried Haukur stórkaupmaður í Reykjavík, f. 27.7. 1906, d. 20.10. 1983, kvæntur Marsibil Guðjónsdóttur, og Harald Steinn stórkaupmaður í Reykjavík, f. 5.6. 1910, d. 23.5. 1983, kvæntur Fjólu Þorsteinsdóttur.

Björn Th. kvæntist Ásgerði Búadóttur myndlistarmanni, f. í Borgarnesi 4.12. 1920. Þau voru gefin saman í Kaupmannahöfn 27.6. 1947. Foreldrar hennar voru Búi Ásgeirsson verslunarmaður, frá Stað í Hrútafirði, og Ingibjörg Teitsdóttir, húsfreyja, Borgarnesi.

Börn Björns og Ásgerðar eru Baldvin grafískur hönnuður, f. 20.12. 1947, starfandi í Danmörku, Björn Þrándur prófessor í lífeðlisfræði við Gautaborgarháskóla, f. 1.8. 1952, kvæntur Ingibjörgu Eiri Einarsdóttur, og Þórunn náttúrulæknir og osteopati, f. 20.8. 1968, starfandi í Englandi, gift Simon Bacon. Barnabörn Björns og Ásgerðar eru fimm. Björn ólst upp í Reykjavík og í Vestmannaeyjum. Hann tók stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík 1943 og stundaði síðan nám í listasögu við háskólann í Edinborg (1943-1944), Lundúnaháskóla (1944-1946) og Kaupmannahafnarháskóla (1946-1949). Hann kenndi listasögu við Myndlista- og handíðaskóla Íslands frá 1950 til 1984 og jafnframt við Kennaraskóla (síðar Kennaraháskóla) Íslands og Háskóla Íslands um áratuga skeið. Björn var þingkjörinn fulltrúi í útvarpsráði 1953-1968 og sat í undirbúningsnefnd um stofnun íslensks sjónvarps. Hann var fulltrúi í Menntamálaráði Íslands 1968-1974, var formaður og varaformaður Rithöfundasambands Íslands 1958-1964 og sat í ritstjórn tímaritsins Birtings 1958-1963. Hann var forstöðumaður Listasafns Háskóla Íslands frá stofnun þess, 1980, til 1998. Björn var afkastamikill rihöfundur og fræðimaður. Eftir hann liggja fjölmörg ritverk um íslenska listasögu og listamenn, skáldsögur og heimildarskáldsögur, endurminningar, sagnaþættir, þjóðlegur fróðleikur, leikrit og þýðingar. Meðal þeirra eru Íslenzka teiknibókin í Árnasafni (1954), Virkisvetur (1959), Á Íslendingaslóðum í Kaupmannahöfn (1961), Íslenzk myndlist á 19. og 20. öld (1964, 1973), Haustskip (1975), Þingvellir, staðir og leiðir (1984), Sandgreifarnir (1989), Falsarinn (1993) og Hraunfólkið (1995). Björn gerði einnig fjölda þátta um menningu og sögu fyrir útvarp og sjónvarp. Björn hlaut fyrstu verðlaun í skáldsögukeppni Menntamálaráðs 1959 fyrir Virkisveitur, bókmenntaverðlaun DV 1989 fyrir Minningarmörk í Hólavallagarði og var tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 1993 fyrir Falsarann. Björn hlaut sérstaka heiðursviðurkenningu frá Bókasafnssjóði höfunda vegna framlags síns til íslenskra bókmennta, árið 2002. Birni Th. var veittur riddarakross hinnar íslensku fálkorðu fyrir fræði- og ritstörf árið 1994. Björn var alla tíð virkur þátttakandi í stjórnmálahreyfingum. Hann var félagi í Alþýðubandalaginu í áratugi og einn af stofnfélögum Vinstrihreyfingingarinnar – græns framboðs.

Útför Björns fer fram frá Dómkirkjunni í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Við kynntumst á námskeiði sem haldið var við Menntaskólann í Reykjavík til að hjálpa utanskólafólki að þreyta gagnfræðapróf upp í þriðja bekk. Þá hef ég verið fjórtán vetra og hann sextán. Þessi sérkennilegi piltur skar sig úr hópnum, með þykkar varir og ullhvítan síðan makka sem hann kastaði upp af höfðinu hátt og djarflega. Síðan urðum við samferða í skólanum fjóra vetur, þrjá hina seinni sem sessunautar við ílangt kennsluborð.

Björn var ekki ástundunarsamur í Menntaskólanum. Hann var gagnrýninn og kröfuharður og gat ekki lært neitt sem honum þótti leiðinlegt; og kennarar hefðu helst þurft að vera hreinir orðsnillingar til að þóknast honum. En í félagslífi skólans naut hann sín vel og lét mjög að sér kveða. Hann var róttækur í skoðunum, fljúgandi mælskur og hélt þrumuræður á málfundum. Í Skólablaðinu birti hann skeleggar greinar sem stundum vöktu uppsteyt og úlfaþyt.

Utan skólatímanna vorum við einnig saman flestum stundum. Þá vorum við frjálsir og brölluðum býsna margt. Einhverju sinni lét ég falla nokkur óvirðuleg orð um kröfubrölt kommúnista, en þessháttar dóma hafði ég heyrt meðal fólks heima í sveitinni. Þá svaraði Björn með nístandi tilfinningu sem mér er ógleymanleg: "Ég hlýt að vera kommúnisti Jónas, ég hef séð svo hræðilega fátækt hérna í Reykjavík." Þetta var á kreppuárunum, og Björn mundi líklega ekki hafa verið einn um að sjá slíka sjón. Og ég hugsaði með mér, hver ert þú Jónas, bláfátækur bóndasonur, að setja þig á háan hest yfir öreigum borgarinnar? Við eignuðumst að vinum stóran hóp bekkjarsystkina, og sú vinátta hefur enst alla okkar ævi. Ávallt höfum við komið saman til fagnaðar að minnsta kosti einu sinni á ári, og nefndust þær samkomur "aðalfundir" okkar. Í upphafi hvers samkvæmis las Björn "fundargerð" síðasta ársfundar, og voru þær ritsmíðar meir byggðar á skáldlegu hugarflugi en sögulegum staðreyndum. Fundargerðir Björns lyftu hverri veislu í hæðir og voru síðar fjölritaðar á bók og gefnar öllum bekkjarsystkinum sem náðu fimmtugs aldri. Er gott að eiga þær til ígripa ef ólund sækir að.

Á langri starfsævi og með afburða elju hefur Björn innt af höndum afreksverk á mörgum sviðum. Hér er ekki rými til að tíunda þau, en ég vil aðeins nefna það sem kalla má kórónu hans ævistarfs. Hann gleymdi aldrei því sem fyrir hann hafði borið á kreppuárunum í Reykjavík, og fann ritleikni sinni farveg í heimildaskáldsögum og skáldlegum sagnaritum þar sem hann fjallar um líf og dauða smælingja og ógæfumanna sem sættu harðræði yfirvalda "á blindri öld". Hann "bað þeim fótumtroðnu góðs" í táknsögum sínum eins og rússneska skáldið forðum í sínum áhrínsljóðum. Fyrst þessara verka kom skáldsagan Haustskip, þar sem hann leiðir fram úr myrkrinu fjöld fordæmdra Íslendinga sem enduðu ævi sína í hlekkjum Brimarhólms, fyrirlitnir og aldrei nefndir af fremstu menntamönnum og stjórnskörungum þjóðarinnar sem þó bjuggu innan sjónmáls við ólánsmennina í sömu borg. – Stundum prófaði Björn þessa sagnaþætti meðan þeir voru í smíðum með því að lesa þá hátt fyrir okkur skólabræður sína í lesklúbbnum Skallagrími. Þá skynjaði hann af hyggjuviti sínu að óhætt mundi að halda lengra fram.

Fyrir kemur að þessar harmaminningar Björns hljóta farsælar lyktir, eins og sagan af falsaranum dauðamerkta sem losnaði úr prísund og gerðist ái mikillar ættar á erlendri grund. Og þegar Björn féll frá hafði hann einmitt í smíðum sögu af íslenskum bandingja sem lifði undursamleg ævintýri í hefðarhöllum stórborgarinnar.

Nú kveð ég minn forna vin, með söknuði en jafnframt með sælu þegar ég rifja upp þau mörgu og undursamlegu ævintýri sem við áttum saman á skólaárum okkar í Reykjavík. Við Sigríður sendum Ester og börnunum þeirra innilegar samúðarkveðjur og þakkir fyrir liðna tíð.

Jónas Kristjánsson.

Kveðja frá Listasafni Háskóla Íslands

Eini tilgangur minn á sínum tíma með þeim útúrdúr úr námi að taka háskólapróf í sagnfræði var að geta setið í listasögutímum hjá Birni Th. Björnssyni sem kenndi innan sagnfræðinnar. Hann var þá á besta aldri en þegar orðinn "living legend", goðsögn í hópi kennara Háskóla Íslands, gríðarlega vinsæll fyrirlesari sem kenndi einhver fjölmennustu námskeið háskólans í yfir tvo áratugi. Fyrsti íslenski listfræðingurinn og brautryðjandinn í rannsóknum á íslenskri myndlist miðlaði mörgu í senn í kennslustofunni. Hann kenndi að lesa myndir og skilja tungumál hinnar þöglu listgreinar, hann lauk upp dyrum að galdri einstakra meistaraverka listasögunnar og hann kenndi einnig hvernig eitt myndlistarverk dugði til að varpa ljósi á heilt samfélag. Björn talaði alltaf blaðalaust og það var ljóst að hann var gríðarlega minnugur. Það sem gerir grundvallarrit Björns um íslenska myndlistarsögu einstakt sinnar tegundar – að ég hygg í heiminum – er það sambland af umfjöllun um líf og verk einstakra myndlistarmanna, samfélagsgreiningu og tilraun til að skrifa íslenska hugmyndasögu sem þar er að finna. Svipaðar áherslur mátti sjá í frumlegri sýn Björns á viðfangsefnið í kennslustofunni. Áhugi rithöfundarins á manninum og mannlegu eðli gerði það einnig að verkum að Björn hafði sérstakan áhuga á þeim þversögnum mannssálarinnar sem oft kristölluðust í persónu listamannsins. Björn leit á listina sem afl til að breyta heiminum og sýn manna á veruleikann, það síðasta sem fagurkerinn og módernistinn hefði getað látið sér koma til hugar var að listin væri upp á punt, stássstofuskraut í heiminum.

Meðal fjölmargra sem sátu í fyrirlestratímum Björns í listasögunni í lok áttunda áratugarins voru listaverkasafnararnir Sverrir Sigurðsson og Ingibjörg Guðmundsdóttir. Það mun hafa verið upp úr þeirra kynnum sem hugmyndin að stofnum háskólalistasafns varð að veruleika árið 1980 með stórri stofngjöf Sverris og Ingibjargar. Björn varð síðan fyrsti forstöðumaður Listasafns Háskóla Íslands frá stofnun þess árið 1980 og til ársins 1998.

Björn fylgdist líka með því þegar áratuga baráttumál hans sjálfs, nám í listfræði á háskólastigi, varð nýlega að veruleika. Það var allatíð hugmynd hans að listfræðin og Listasafn Háskóla Íslands hefðu náið samstarf og stuðning hvort af öðru, m.a. um rannsóknir á íslenskri myndlistarsögu. Fyrir ekki löngu síðan kallaði Björn mig á sinn fund og var tilefnið að gefa Listasafni Háskóla Íslands valdar bækur úr stóru bókasafni sínu sem gætu einnig nýst listfræðinemendum. Við sama tækifæri vildi Björn gefa mér persónulega tvær bækur sem eru mér sérstaklega kærar, ekki síst fyrir það hversu lýsandi þær eru fyrir margbrotinn hugmyndaheim gefandans en vart er hægt að hugsa sér andstæðari verk á skala heimsbókmenntanna. Önnur bókin er Kommúnistaávarpið eftir þá Marx og Engels, en þá bók taldi Björn gott fyrir nýskipaðan lektor í listfræði að hafa innan seilingar á skrifborðinu. Hin bókin er frönsk átjándu aldar ástarsaga, hástéttarafþreying síns tíma, en Björn hafði miklar mætur á skáldskap 18. aldar, ekki síst á breskum skáldævisögum.

Ég þakka Birni brautryðjandastarf hans, bæði við listfræðikennslu og fyrir Listasafn Háskóla Íslands. Sjálf þakka ég vináttuna um leið og ég sendi innilegar samúðarkveðjur til Ásgerðar og fjölskyldu.

Auður Ólafsdóttir.

Í orku vors máls er eilífð vors frama.

(Einar Benediktsson.)

Þegar vinur minn Björn Th. Björnsson var í essinu sínu stóðust fáir honum snúning í stílsnilld og kennslu enda maður orðsins. Engum hefur tekist betur en honum að glæða áhuga okkar Íslendinga á myndlist hvort sem er í rituðu máli, með útvarps- og sjónvarpsþáttum eða í kennslu í listasögu og fá okkur til að njóta hennar.

Það var því ævintýri líkast að hefja nám í listasögu hjá Birni fyrir tæpum tveimur áratugum. Mitt í eyðimörk hversdagsleikans opnaðist okkur nemendum hans skyndilega undraheimur – heimur listanna. Fimmtudagarnir bókstaflega flugu áfram þau þrjú ár sem hann heillaði okkur með fágætlega skemmtilegum fyrirlestrum um hinar ýmsu listastefnur og listamenn, innlenda sem erlenda.

Hið listræna nostur Björns í meðferð hins talaða og ritaða máls var einstakt, hvort heldur hann var að lýsa listaverki, sögu Þingvalla, sínum eigin strákapörum og félaga sinna í Eyjum í bókinni Sandgreifarnir eða segja okkur örlagasögu Sólu og Andrésar eða Muggs svo fátt eitt sé nefnt. Þessi ritverk hans eru perlur, rituð á svo auðugu máli og firnaskemmtileg. Þau eru eins og sjálfstæð leikrit, þar búa sorg og gleði, glæstar vonir og brostnir draumar.

Í náminu í listasögu hlotnaðist okkur dýpri sögulegur skilningur á samhengi fjarlægra tímabila í listum. Þá kunni Björn þá fágætu list að gæða frásögnina lífi með ótal skemmtilegum sögum, einkum af íslenskum listamönnum sem hann þekkti flestalla. Í hugann kemur t.d. upp sagan um Ísleif Konráðsson, myndlistarmann, sem hafði nýlokið við að mála íslenskan bóndabæ og hafði áhyggjur af því hvort brúin í málverkinu mundi þola þunga dráttarvélarinnar á bænum!

Áfram þjóta árin

sem óðfluga ský.

Árin liðu en minningarnar úr listasögutímum Björns héldu áfram að gleðja ótal hjörtu. Við nemendur hans vorum lukkunnar pamfílar.

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Birni og hans mætu konu Ásgerði Búadóttur á öðrum vettvangi. Það var ávallt tilhlökkunarefni að sækja þau heim – en skyndilega er komið að kveðjustund. Merkur maður er genginn sem lætur eftir sig djúp spor.

" – og stuðlarnir falla og fimmtin hljómar.

Á Fróni varðveitast heilagir dómar."

(Einar Benediktsson.)

Guðrún Eggertsdóttir.

Við andlát Björns Th. Björnssonar er fallinn frá einn helsti fræðimaður um íslenska listasögu. Sem listfræðingur gegndi hann á langri starfsævi mörgum hlutverkum, sem fræðimaður, gagnrýnandi, kennari og dagskrárgerðarmaður í útvarpi og sjónvarpi. Eftir nám í listasögu við háskóla í Kaupmannahöfn, Edinborg og London gerðist hann á sjötta áratugnum áhrifamikill gagnrýnandi í íslensku menningarlífi. Þetta var tími mikilla umbrota og nýrra viðmiða, abstraktlistin var að hasla sér völl bæði sem hugmyndakerfi og tjáningarform og í þessari orðræðu var Björn Th. Björnsson áhrifamikill, sem einn helsti talsmaður og skýrandi hinna nýju viðhorfa í listinni. Hann tvinnaði saman róttæka sýn á samfélagið og um hlutverk og markmið listarinnar. Þetta margþætta samspil listar, samfélags og menningar var einnig helsta viðfangsefni hans á sjöunda áratugnum, þegar Björn birti rannsóknir sínar um íslenska listasögu í tveimur bindum. Í íslenskri menningarsögu voru þetta mikil tímamót, þar sem þetta var fyrsta tilraunin til að setja fram heilsteypta túlkun á íslenskri listasögu á fyrri hluta 20. aldar. Listasaga hans var mikilvægt brautryðjandarit, sem markaði djúp spor í íslensku menningarlífi. Með þessu grundvallarriti gerðist Björn Th. Björnsson áhrifamesti túlkandi sögu íslenskrar myndlistar og gerði um leið þennan þátt menningararfsins aðgengilegan og sýnilegan. Sýn hans á söguna, túlkanir, efnistök og áherslur verða að sjálfsögðu viðfangsefni þeirra sem koma að umfjöllun og rannsóknum á íslenskri listasögu í nútíð og framtíð. Að leiðarlokum vil ég þakka Birni fyrir margvíslega vinsemd í minn garð, allt frá því að ég í menntaskóla leitaði ráða hjá honum um nám í listasögu til margra ánægjulegra samskipta á liðum árum. Fjölskyldu Björns vil ég votta innilega samúð.

Ólafur Kvaran.

Björn Th. Björnsson er látinn. Með honum er genginn maðurinn sem gerði listfræði að skiljanlegu hugtaki í vitund íslensku þjóðarinnar. Svo vel tókst honum að breiða út fagnaðarerindið um hið unga fag að það reyndist auðvelt fyrir okkur sem eftir komu að ná fastalandi án þess að þurfa að finna aftur upp hjólið. Eini barningurinn var sá að mörgum fannst sem Björn væri fagið holdi klætt og aðrir gætu því varla borið purpurakápu listfræðinnar með rentu.

Sem kennari hafði Björn Th. afgerandi áhrif á yngri kollega sína. Þótt þeir færu ekki svo glatt í fötin hans urðu erindi hans og framsögn viðmið sem þeir gátu ekki virt að vettugi. Sem penni setti hann einnig eftirkomendum sínum viðmið enda fóstraði hann með sér hæfileika rithöfundar sem átti einkar auðvelt með að ná til alls þorra lesenda.

Þannig voru áhrif hans mikil og ógleymanleg. Þótt hann sé horfinn á braut nýtur íslensk listfræði enn krafta hans sem brautryðjanda. Um leið og ég votta fjölskyldu hans samúð mína vona ég að íslenskir listfræðingar haldi merki hans á lofti með því að brýna áfram penna sína og raust faginu til framdráttar og íslenskri menningu til ávinnings.

Halldór Björn Runólfsson.

Með nokkrum sanni má segja að með andláti Björns Theódórs Björnssonar, rithöfundar og listfræðings, hafi endanlega rofnað beint viðræðusamband við fyrstu kynslóð þeirra fræðimanna íslenskra sem lögðu fyrir sig rannsóknir á myndlistararfinum að fornu og nýju. Að vísu má segja að Björn Th. hafi hætt afskiptum af íslenskum myndlistarmálum fyrir röskum áratug eða svo til að helga sig skáldsagnaritun. En hann var eftir sem áður haukur í horni þeirra sem vanhagaði um upplýsingar, ábendingar eða heilræði sem vörðuðu hin fjölmörgu áhugasvið hans: handritalýsingar, silfursmíði, sögu íslenskrar myndlistar á fyrri hluta síðustu aldar og listsköpun einfara, svo fátt eitt sé nefnt.

Og þótt hann sæist sjaldan á listviðburðum hin síðari ár var Björn Th. sínálægur í formi síns mikla yfirlitsrits, Íslensk myndlist I & II, sem vinur hans og samstarfsmaður Ragnar Jónsson í Smára fékk hann til að rita og kostaði af þjóðkunnri rausn. Vilji menn gaumgæfa upphaf og þróun myndlistar á Íslandi í fullri alvöru komast þeir ekki hjá því að taka afstöðu til þeirrar sögu sem þar er sögð.

Vissulega er listasaga Björns Th. ekki hafin yfir gagnrýni, enda önnur viðhorf uppi í listfræðum nú en fyrir hálfri öld, þegar hún er skrifuð. Hins vegar er sú heildarmynd sem þar birtist, niðurröðun listasögunnar í tímabil frumherja og landslagsupphafningar, þorpsmálverks og loks róttækrar formhyggju í kjölfar síðara stríðs, enn meginupplegg þeirra sem sinna fræðslu um íslenska myndlist á háskólastigi. Í nýrri íslenskri listasögu sem nú er í bígerð sýnist mér heldur ekki ætlunin að hrófla við þessari díalektísku söguskoðun Björns Th.

Annað í myndlistarsögu Björns Th. geta menn ekki svo auðveldlega tileinkað sér, nefnilega fágæta stílfimi hans. Honum var gefið að lýsa því sem gerist í myndverki þannig að það birtist ljóslifandi í hugskoti okkar. Inn í þá lýsingu blandast aðskiljanlegar staðreyndir um listamenn og hugarheim þeirra, hugleiðingar um tíðarandann og loks mat á því listaverki sem um ræðir. Sumar þessara lýsinga, t.a.m. á nokkrum lykilverkum Kjarvals, Gunnlaugs Schevings eða Þorvalds Skúlasonar, eru meistaralegar örsögur af glímunni við listgyðjuna. Þessar lýsingar eru bornar uppi af sannfæringu sem á tímum fimmtán mínútna frægðar þykir eflaust gamaldags, nefnilega að það skipti máli fyrir samfélagið í heild sinni hvað listamenn taka sér fyrir hendur.

Listskýringar Björns Th. gátu líka verið firnaskemmtilegar, sem var auðvitað höfuðsynd í augum bókstafstrúarmanna í hópi yngri starfsbræðra hans. Ef þær urðu of skemmtilegar var raunar hyggilegast að taka þær ekki of alvarlega, heldur láta berast áhyggjulaust með hástemmdri frásögn ábúðarmikils skýrandans.

Góðu heilli hefur frásagnargáfa Björns Th. varðveist í hljóðupptökusafni ríkisútvarpsins, þar sem hann var vikulegur gestur um árabil, ýmist með flutning á erlendum skáldskap, erindi um listtengd málefni eða upplestra úr eigin skáldverkum.

Sá sem þetta skrifar þykist eiga Birni Theódór nokkra þökk að gjalda; kynningar hans á erlendum skáldum í útvarpi voru eyrnakonfekt unglingi með skáldagrillur, skrif hans um myndlist voru fyrstu kynni undirritaðs af listfræðum, og síðar meir sýndi Björn Th. ungum starfsbróður margháttaða vinsemd.

Listakonunni Ásgerði Búadóttur og afkomendum þeirra hjóna sendi ég samúðarkveðjur.

Aðalsteinn Ingólfsson.

Hér á árum áður var á dagskrá Ríkisútvarpsins þáttur sem bar heitið: Á hljóðbergi. Erlendir textar af ýmsu tagi, oft í flutningi höfundanna sjálfra, en á undan fóru aðfaraorð umsjónarmanns og var þannig háttað að maður komst ekki hjá því að leggja við hlustir. Þetta voru fyrstu kynni mín, og margra af minni kynslóð, af Birni Th. Björnssyni.

Fljótlega urðu ritverk hans á vegi, þá fyrst bók hans um Reykjavík árið 1969. Hér lukust upp fyrir undirrituðum leyndardómar Reykjavíkurborgar og fram steig örlögdramað sem býr að baki spilamannsandliti götumyndar nútímans. Minnisstæð eru upphafsorðin: "Það var mynd, en ekki maður, sem fyrst nam land í Reykjavík..."

Ætli Þingvellir, Reykjavík og Kaupmannahöfn megi ekki heita kjörstaðir Björns Th. Björnssonar? En um alla þessa staði ritaði hann bækur og er Á Íslendingaslóðum í Kaupmannahöfn frægust, löngu sígilt verk þar sem hin gamla höfuðborg Íslendinga er seidd fram með manni og mús og gengnir landar okkar á Hafnarslóð fara í karnevali hjá og halda áfram löngu eftir að lestri er lokið.

Þingvellir stóðu Birni að sjálfsögðu nærri, eins og öllum Íslendingum, en að auki höfðu ættmenn hans gengið þar um garða og átt þar sín örlög. Séra Páll Þorláksson, bróðir Jóns Þorlákssonar skálds, sat staðinn seint á átjándu öld, en hann var forfaðir Björns og var gaman að sjá í Þingvallabókinni hvernig Björn tók svari þessa ættföður síns gagnvart breskum spjátrungum sem höfðu áð í kirkju klerksins sumarið 1789 og eitthvað fundið að gestrisni hans, en sonar-sonar-sonarsonurinn gat rifjað upp fyrir þeim að skömmu áður höfðu landskjálftarnir miklu riðið yfir og því óhægt um vik að stjana við aðkomumenn.

Listasaga Björns í tveimur bindum gnæfir eins og foldgnátt fjall í bókaútgáfu tímabilsins, þar sem saman fóru rausn og dirfska útgefandans, Ragnars í Smára, og hinn kjörni maður til verksins, listfræðingurinn Björn. Hvílíkur hvalreki, og þessa lúxusbók var hægt að eignast á spottprís vel fram á áttunda áratuginn, því verðið var látið standa í stað þótt verðbólgan æddi áfram.

Skáldverkin hamraði Björn á ritvél sína með vaxandi þunga eftir því sem leið á ævina. Frásagnir hans rísa jafnan á heimildum og njóta þar af leiðandi góðs af því sem er hans aðall: að endurvekja og miðla hinu liðna með uppmálandi og grípandi hætti. Hraunfólkið (1995) er mér ofarlega í hug, að ógleymdum Haustskipum sem út komu tuttugu árum fyrr þar sem höfundurinn lifir sig inn í örlög og afdrif ótalinna íslenskra brotamanna og samúðin ævinlega með hinum dæmda – enda fulltrúar laganna í flestum tilvikum réttnefndari glæpamenn að skoðun eftirtímans.

Björn gegndi formennsku og varaformennsku í Rithöfundasambandi Íslands á árunum 1958-1964 og var kjörinn heiðursfélagi þess árið 2005. Fyrir hönd félaga okkar færi ég honum þakkir og flyt aðstandendum hans samúðarkveðjur.

Þótt nú sé komið að leiðarlokum er samfylgd læsra Íslendinga við Björn Th. Björnsson fjarri því að vera lokið.

Pétur Gunnarsson.

Björn Th. Björnsson var rithöfundur af því tagi sem ekki eru margir eftir af á Íslandi. Hann var öllu öðru fremur sögumaður, hvort sem hann sótti viðfangsefni sín til skáldskapar eða veruleika, og kannski naut hann sín best þegar hann gerði hvort tveggja í senn. Sögumaður er sá sem tekur í hönd lesandans og leiðir hann með sér á slóðir ævintýra. Á þessum orðum hefst minningabók Björns frá Vestmannaeyjum, Sandgreifarnir: "Við sátum í röð með bakið upp að rökum kórveggnum og teygðum lappirnar fram. Hinir strákarnir voru allir á gúmmiskóm, meira að segja einn með hvítri rönd, en ég í uppreimuðu ökklastígvélunum hennar múttí sem hún komst ekki lengur í eftir að hún fékk seinna líkþornið." Svona skrifar sögumaður, og lesandinn bíður óþreyjufullur eftir meiru.

Sagnfræði og myndlist voru svið Björns sem fræðimanns, og rannsóknir hans á sviði íslenskrar myndlistarsögu og sambandi Íslendinga við sína gömlu höfuðborg, Kaupmannahöfn, munu lengi halda nafni hans á lofti. En sem höfundur vildi hann ná út fyrir þröngan hring fræðanna og heimildasögur urðu leið hans til þess. Bækur eins og Haustskip og Falsarinn nutu einstakra vinsælda meðal íslenskra lesenda, og þegar síðarnefnda sagan var gefin út í Danmörku spurði þarlendur gagnrýnandi: Af hverju getur ekki verið svona hátt til lofts og vítt til veggja í okkar sagnalist? Að mínum dómi reis sagnagerð Björns hæst í bókinni Hraunfólkið, þar sem hann sagði sögu forfeðra sinna og -mæðra í Bláskógabyggð.

Samfylgd Máls og menningar og Björns Th. Björnssonar var löng, allt frá því hann laumaði sér unglingur á útihátíð í Þrastaskógi þar sem stofnun félagsins var kynnt. Á árum mínum sem útgáfustjóri forlagsins gáfum við út fjölmörg verk eftir Björn af ýmsu tagi og áttum við hann sérlega skemmtilegt samstarf. Björn hafði ákveðnar skoðanir á bókagerð en fór ekkert endilega eftir þeim sjálfur. Eitt sinn flutti hann yfir mér langa ræðu um að titlar á bókum ættu aldrei að vera lengri en eitt orð, og afhenti mér svo handritið að verkinu "Minningarmörk í Hólavallagarði". Þar hefst einn upphafskaflinn svo: "Á þessum árum voru valdsmenn kirkjunnar ekkert að þynna blóð heilagleikans með verslegum spúsum." Svona skrifaði Björn Th., og ósjálfrátt hallaði maður sér aftur í stólnum.

Þetta var á þeim tíma áður en heilsugæslan tók öll völd í samfélaginu, og forleggjaraskrifstofa var óhugsandi án púrtvíns og vindla. Sjaldan skemmti Björn útgefendum sínum betur en þegar hann hallaði sér aftur í vindlareyknum með bros á vör og sagði sögur af Dunganon eða Ísleifi Sigurjónssyni og öðrum Hafnarbúum sem bíða hans nú á sagnalendunum miklu.

Þannig sé ég hann fyrir mér um leið og ég þakka honum samfylgdina, einnig fyrir hönd Máls og menningar, og sendi Ásgerði og fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur.

Halldór Guðmundsson.

Tímarnir í listasögu hjá Birni Th. Björnssyni við Háskóla Íslands eru mér ógleymanlegir, en þar fór saman yfirgripsmikil þekking og ástríða í að miðla viðfangsefninu. Í tímum blönduðust oft saman við fræðin frásagnir af persónulegum kynnum Björns við listamenn er urðu að óstjórnlega fyndnum sögum þar sem sögumaðurinn og skáldið Björn Th. kom hæversklega í ljós.

Síðar tókust með okkur persónulegri kynni, þar sem Björn Th. fékk mig sér til aðstoðar á Listasafni Háskóla Íslands. Löngum stundum sátum við og spjölluðum margt í kjallaranum í Odda, þar sem aðsetur safnsins var, og ekki síst um val á listaverkum fyrir byggingar háskólans. Eftir þær spekúlasjónir var haldið af stað með listaverkin aftan í stórum sendiferðabíl og þau hengd upp í skólastofum, á göngum skólans, skrifstofurými hans og fleiri stöðum á vegum HÍ.

Við aðra háskóla, hér á landi og erlendis, er leit að jafn alþýðlegri starfsemi lista, menningar og mennta. Starf Listasafns Háskólans var mjög í anda Björns, en hann taldi ekki nóg að rannsaka, skrifa um og miðla með kennslu viðfangsefnum listamanna. List var fyrir honum mikilvægur vettvangur manngildissjónarmiða sem eiga í sífelldri baráttu við öfl sem vilja afmá, afskræma og/eða upphefja frá meginþorra fólks. List varð því að halda að sem flestum og nota hvert tækifæri til að minna á hana, inntak hennar og ekki síst við hvaða þjóðfélagslegu og persónulegu aðstæður listamenn vinna. Við slíka listmenntun fór Björn Th. fram með góðu fordæmi og sinnti af mikilli alúð og fornfýsi.

Ásgerði og öðrum aðstandendum votta ég mína innilegustu samúð.

Sigurjón Baldur Hafsteinsson.

Ég hélt að maðurinn með ljáinn myndi ekki ná til hans Björns Th. En hann er slyngur, sláttumaðurinn sá, og Björn er fallinn en lifir í minningunni – og í mörgum bókum og snjöllum.

Faðir minn, Gestur Þorgrímsson myndhöggvari, og Björn Th. þekktust allt frá unglingsárunum í Reykjavík en móðir mín, Sigrún Guðjónsdóttir, Rúna, myndlistarmaður og Ásgerður Ester Búadóttir myndlistarmaður kynntust ungar í Handíðaskólanum sem þá hét svo, en síðar Myndlistar- og handíðaskóli Íslands. Foreldrar mínir og Ester, eins og þau kölluðu hana ætíð, dvöldu við nám í konunglega listakademíinu í Kaupmannahöfn veturinn 1946 til 1947 en Björn nam listfræði við Kaupmannahafnarháskóla. Þar lágu saman leiðir hans og Ásgerðar. Og í þann tíma kviknaði ég til lífsins, var borinn í þennan heim í júní og var síðan ætíð einhvers staðar nálægur þeim fjórum þau 56 ár sem öll lifðu eftir þann viðburð, faðir minn lést 2003.

Því má með sanni segja að ég hafi þekkt Björn Th. Björnsson frá blautu barnsbeini og vel það. Ég minnist margra ljúfra stunda þegar ég fylgdi foreldrum mínum í heimsókn til Björns og Ásgerðar ellegar þau komu til okkar. Pabbi og Björn voru ósparir á sögurnar: endurminningar frá æskudögunum, sögur af skrýtnu og skemmtilegu fólki, að ógleymdum samtölum þessa vinafólks um listir, bókmenntir og pólitík; umræðuefnin skorti aldrei og ég tel víst að ungur og næmur hugur minn hafi orðið fyrir varanlegum áhrifum af þessum samtölum. Í seinni tíð hitti ég þau hjón oft á tíðum þegar þau komu í sunnudagaheimsóknir til foreldra minna á Austurgötuna í Hafnarfirði og snæddu heita eplaköku eða vöfflur með rjóma, og enn flugu sögur; ætíð inspekteraði Björn vinnustofu foreldra minna, álit hans var þeim mikils virði.

Með Birni Theodór Björnssyni er horfinn einn af stíl- og orðsnillingum 20. aldarinnar. Hann talaði manna fyrstur um myndlist í útvarpi á þann hátt að hlustendur sáu fyrir sér litbrigði og form og með stílsnilld sinni gæddi hann fornar sögur og nýrri, Íslendingaslóðir í Kaupmannahöfn, Þingvelli, jafnvel Suðurgötukirkjugarðinn, eilífu lífi í bókum sínum. Hann er einn af áhrifavöldum og fyrirmyndum þeirra sem hafa enn trú á að þjóðtunga þessa litla samfélags okkar eigi erindi við heiminn og neita að beygja sig fyrir einföldunaráráttu og forenskun samtímans.

Ég var alltaf á leiðinni til hans á Landakot þegar hann var kominn á endastöðina en einhvern veginn snerist það fyrir mér í annríki daganna og andlátsfregnin kom á óvart, eins og alltaf. Björn Th. hélt öllu sínu til hinstu stundar, fróðleiknum, húmornum og frásagnargáfunni, og enda þótt skrokkurinn væri orðinn lélegur auðnaðist honum að kveikja í síðasta vindlinum daginn sem hann dó. Mikið vildi ég gefa til að hafa verið á Kínamúrnum um árið þegar þeir spásseruðu þar saman, pabbi og Björn, orðnir aldraðir menn en hnarreistir og virðulegir eins og alltaf, Björn með stóra, svarta regnhlíf til að verjast brennheitri Kínasólinni, og kveikti sér í vindli uppi á þessu undri heimsins og púaði reyknum út yfir Kínaveldi.

Þorgrímur Gestsson.

Björn Th. ólst upp í umhverfi listar og listamanna. Faðir hans, Baldvin Björnsson, var gullsmiður í Berlín er hann kvæntist Mörthu Bremme, og þar var hann orðinn yfirmaður í stórri silfursmiðju þegar fyrri heimsstyrjöldin skall á. Baldvin setti þá upp vinnustofu í Reykjavík og smíðaði silfurmuni og skartgripi eftir eigin teikningum. Árið 1925 brann vinnustofa Baldvins til kaldra kola og töpuðu þau hjón aleigunni. Þau fluttust þá til Vestmannaeyja og rak Martha þar matsöluhús af miklum dugnaði. Í Eyjum ólst Björn Th. upp til fermingaraldurs og úr þeim jarðvegi spratt minningarritið Sandgreifarnir.

Kynni Björns við andans menn á unglingsárum höfðu ótvíræð áhrif á það að hann hélt út á listfræðibrautina. Björn sagði svo frá: "Ég hef alla tíð haft húmanískar intressur. Ég fór ungur að sækja málverkasýningar og hafði snemma yndi af að skrifa. Ég held að ég hafi undirvitað gert mér ljóst, að til þess að miðla listþekkingu eða listlifun þyrfti maður að búa yfir hæfileika sjálftjáningar í ræðu og riti." Haustið 1943 sigldi Björn Th. til náms við Edinborgarháskóla, var við Lundúnaháskóla 1944-1946, og Kaupmannahafnarháskóla 1946-1949.

Kaupmannahöfn heillaði Björn Th., en á Listaakademíinu voru þá tuttugu Íslendingar við nám. Þar kynntist hans Ásgerði Ester Búadóttur. Sagði Björn að það eitt hefði nægt sér sem erindi til Hafnar. Á Hafnarárunum tók Björn að gefa sig að miðaldalist í handritum Árnasafns. Árið 1954 gaf hann svo út merkisritið Íslenska teiknibókin í Árnasafni. Björn Th. var sagnabrunnur um líf og störf Íslendinga í Höfn og kom öndvegisrit hans, Á Íslendingaslóðum í Kaupmannahöfn, fyrst út árið 1961. Þegar þau hjón fluttust aftur til Íslands hóf Björn Th. störf sem kennari í listasögu. Hlutskipti hans varð að auka skilning og áhuga almennings á listum með útvarps- og sjónvarpsþáttum, blaðagreinum, fyrirlestrum og listaverkabókum. Ritverkið Íslensk myndlist I-II markaði tímamót í íslenskri bókaútgáfu, en það rit sýnir þá yfirburðaþekkingu sem Björn Th. hafði á sögu íslenskrar myndlistar. Björn Th. var vinur og stuðningsmaður flestra okkar fremstu myndlistarmanna. Sem forstöðumaður Listasafns Háskóla Íslands og stjórnarmaður Listasafns ASÍ vann hann gott og óeigingjarnt starf. Ekki hampaði Björn Th. eingöngu akademískt menntuðum myndlistarmönnum, heldur hóf til virðingar einfara í íslenskri myndlist. Björn Th. hafði þörf fyrir að hlaupa út undan sér frá listfræðinni og skrifaði þá um önnur efni og þá oftast sögulegan skáldskap, um Stokkhúss- og Finnmerkurþræla, forfeður sína í Þingvallasveit, Hraunfólkið, og margt fleira. Á sviði skáldskapar skipaði hann sess sem einn vinsælasti höfundur landsins og liggja eftir hann nokkur meistaraverk. Sem félagi var Björn Th. hlýr og gefandi. Frásagnarsnilldin var engu lík og voru forréttindi að eiga með honum stundir í veiðiferðum, ekki vegna veiðisældar, heldur óborganlegra spretta sagnameistarans. Andi Björns Th. svífur yfir vötnum og til hans verður alltaf gott að hugsa.

Hvíl í friði kæri vinur.

Þorsteinn Jónsson,

Ólafur Haukur Símonarson.

Björn Th. nú ertu farinn. Það er ljótt hve pestin hefur mikil völd í þessum heimi. Það er erfitt að hugsa til þess að ekki lengur er hægt að heimsækja þig og Ásgerði og njóta félagsskapar ykkar. Þessi kveðja er frá mér og þúsundum nemenda þinna og vina. Þú varst fyrir mér og okkur einstakur kennari, félagi og vinur. Ég mun sakna þín mikið. Ég naut þeirra forréttinda að heimsækja þig með reglulegu millibili síðasta árið. Einnig hér fyrr sem nemandi í listasögu og sem aðstoðarmaður þinn í HÍ. Það var alltaf jafn gefandi; þitt hlýja viðmót og allar skemmtilegu stundirnar með þínum ótal frásögnum um atburði og hluti sem þú einn gast gert skil á svo eftirminnilegan hátt.

Þú kemur oft upp í umræðunni hjá fólki sem er í samræðum um menningu, sögu og listir; svo mikil áhrif hefur þú haft á þekkingu fólks. Þú varst einn af sjaldséðum alþýðufræðurum sem gafst okkur Íslendingum tækifæri á að skyggnast inn í þann heim sem maður fær sjaldnast yfirlit yfir í föðurhúsunum. Við fengum handleiðslu og hvatningu með kennsluaðferð sem var sérstaklega fagleg, vönduð og skemmtileg.

Þú varst persónulegur, einlægur og komst iðulega beint að kjarna málsins.

Gullaldarmál þitt, sem við numum af þér, var fyrir okkur merki um hve vel þú varst að þér og hversu náin tengsl þín voru við gömlu meistarana. Það var unaður að hlýða á þig segja frá kynnum þínum af fyrri kynslóðum sem og nýuppgötvuðu og framfarasinnuðu listafólki. Þín persónulegu viðhorf til listarinnar voru fyrir mér sem strangur skóli sem gerði kröfu um vandað siðferði listafólks og þú afhjúpaðir fyrir mig marga blekkinguna.

Björn, þú munt lifa með okkur áfram; í minningunni um persónuleika þinn, öllum verkunum þínum og ekki síst vegna þess að þú ert hluti af okkur vinum þínum og nemendum, við erum einfaldlega það sem við erum m.a. vegna persónulegra kynna okkar af þér. Mótun þín á mér er mun meiri en ég geri mér grein fyrir.

Björn, ég þakka þér fyrir það og allt hitt og hugsa til þín.

Þinn vinur,

Oddur Albertsson.

Ég kynntist Birni þegar ég sótti tíma í listasögu í Háskólanum. Hann var fasmikill í jarðlitum tvídfötum, en þó á hæglátan máta þess sem hefur smekkvísi og vanann að bakhjarli. Einkum rak ég augun í forláta slifsi sem hann bar jafnan, og minnti mig á ábyrga lögreglusjeriffa úr westrunum.

Sannarlega reyndist hann fullur af fróðleik. Það varð tilhlökkunarefni að sækja tímana. Ekki einasta var Björn stútfullur af sögum um það sem menn gera vel, heldur gat hann sagt þannig frá því að manni stóð ekki á sama. Því Björn var fyrst og fremst svo mennskur maður.

Mér verður ævinlega minnisstæð vorferð bekkjarins um helstu kirkjustaði fyrir austan fjall. Þegar rútan var reiðubúin til brottferðar snemma morguns, kom Björn nokkuð framlágur því hann hafði verið að fagna stórafmæli í góðum félagsskap. Hann hvíldist framan af ferð og hresstist síðan með okkur krökkunum aftast í rútunni. Síðan fór hann á kostum í leiðsögn sinni um kirkjustaðina.

Hámarki náði ferðin svo þegar við komum að lítilli fornri kirkju. Þar fylgdi okkur ungur prestur og Björn vissi sem var, að kirkja þessi geymdi fjölmörg djásn með mikla sögu. Þegar hann rak svo augun í "katalóg-hökul" við hliðina á ævafornum kaleik, þá var honum nóg boðið. Við nemendurnir fengum að heyra innblásna ræðu um mikilvægi þess að virða sögu, handverk og arfleifð. Hann kom fram með tillögur um endalok hökulsins, sem lituðust víst eitthvað af því, að fyrir utan kirkjuna var nýtekin gröf. Ekki er ég frá því að ungi presturinn hafi eitthvað orðið litverpur undir lestrinum, en það var ekki ætlun Björns. Til þess var hann alltof góður maður. Saga landsins og handverks stóð honum bara svo nærri hjarta. Ég þakka fyrir að hafa kynnst svo mennskum manni og votta vinum og vandamönnum hans samúð mína.

Jóhann S. Bogason.

Þegar ég fór, fjórtán ára unglingur, til náms við Kvennaskólann í Reykjavík, þá var eitt af þeim heimilum sem ég kynntist í höfuðborginni heimili þeirra sæmdar- og listahjóna, Björns Th. Björnssonar og Ásgerðar Búadóttur. Björn hafði nefnilega verið fyrsti sumarstrákur foreldra minna. Af fyrstu fundum þeirra föður míns og Björns úti í Vestmannaeyjum segir í bókinni Sandgreifarnir (1989) á þessa leið (s. 153-):

"Það var einmitt þetta sólríka vor... sem dáldið talsvert merkilegt kemur fyrir mig. Ég er... með strákunum niðri í Tangafjöru að búa til flóðgarð... byrjað að falla að. Þá heyri ég kallað ofan af vegi: – Skyldi vera einhver drengur hér sem heitir Björn?

Enginn kannaðist við það... Þetta var ungur og stór maður með skóflu og tóman strigapoka; hann gengur fram og aftur og skimar um.

Manni! Meinarðu nokkuð hann Bidda Bjöss?

– Hann á að heita Björn. Sonur hans Baldvins gullsmiðs.

– Þá erða ann Biddi Bjöss. Biddi Bjöss! Þar maður a leita aðér! Ég þurrkaði blautar lúkurnar... og labba... til mannsins með tóma pokann og segi kondu sæll.

– Kom þú sæll og blessaður vinur! Og hann tekur í hendina á mér, alveg eins og við værum ekki hérna heldur uppá Íslandi eða einkvurstaðar." Erindi aðkomumannsins var að ná í skeljasand fyrir hænsni Sigurbjörns Sveinssonar. Af tali þeirra segir svo: "– Hafi ég ekki kynnt mig fyrr, þá heiti ég Karl Björnsson og er bóndi á Stóru Borg í Víðidal og er nú á heimleið að vertíðarlokum. ...

Eru nokkurntímann hjá þér strákar í sveit, Karrl Björrsson?

– Búið er nú lítið enn og ekki mikið umleikis. ...En röskur drengur, vel ættaður, það væri alls ekki frá. Sem hefði gaman af fornsögum.

– Ég er voða æstur fyrir fornsögum! ...Við erum alltaf í fornmannaleik!...

– Máske ég ræði þetta við foreldra þína, Björn minn. Það hefur ekkert ungmenni verra af því að hlusta á hjarta landsins."

...Þetta var árið 1935. Ævilöng vinátta tókst með fjölskyldunum og urðum við, ég og systir mín nokkrum árum eldri, heimagangar hjá þeim Birni og Ásgerði. Oft sat húsfreyjan við listvefnað þegar okkur bar að garði, Björn hellti þá upp á kaffi og spjallaði við okkur á meðan á undirbúningi stóð. Athyglisvert þótti mér, að Björn gerði sér aldrei neinn mannamun eftir aldri eða virðingarsessi viðmælenda sinna, þessi alþýðlegi höfðingi og hæfileikamaður gaf unglingunum jafnt af tíma sínum og athygli og þeim sem eldri og virðulegri voru. Sama hefur fyrr og síðar einnig gilt um heiðurskonuna Ásgerði Ester sem sveipast enn léttfættum þokkanum og ljúflegu viðmótinu. Henni og afkomendum þeirra Björns sendi ég og fjölskylda mín innilegustu samúðarkveðjur og biðjum við þeim blessunar öllum.

Guðrún Karlsdóttir

frá Stóru-Borg.

Sagt hefur verið að þá fyrst hafi Íslendingar lært að meta fegurð landsins þegar þeir eignuðust málara sem festu hana á léreft. Auðvitað er það orðum aukið, en víst er að meistari Kjarval opnaði augu fólks fyrir litbrigðum hrauns og mosa svo þar lifnuðu lönd drauma og ævintýra. Þjóðin þurfti líka að eignast menn sem sýndu henni hinn sjónræna arf, tengdu saman list og líf í sögu landsins og samtíma. Í þeim flokki fór fremstur Björn Th. Björnsson listfræðingur.

Á langri og afkastamikilli starfsævi nýtti hann allar leiðir til miðlunar, skrifaði bækur, gerði þætti, kenndi í skólum. Hæfileiki hans til að tengja saman, sýna og skýra byggði á yfirgripsmikilli þekkingu á sögu, bókmenntum og sjónlistum. En honum tókst það sem mest var um vert, að hrífa áheyrendur og lesendur með sér, að láta sögurnar og verkin vakna til lífsins. Þeir sem forðum höfðu haldið á penna, pensli eða meitli urðu ljóslifandi í hugum okkar sem á hlýddum, kjör þeirra komu okkur við. Slíkum tengslum við hugarheim og verk þeirra sem horfnir eru lýsti Jón Helgason svo snilldarlega:

Oftsinnis meðan ég þreytti hin fornlegu

fræði

fannst mér sem skrifarinn sjálfur hið

næsta mér stæði,

hugurinn sá yfir hlykkjóttum stafanna

baugum

hendur sem forðum var stjórnað af lifandi

taugum.

Í skáldsögum Björns sameinast eiginleikar fræðimannsins og skáldsins. Í bókinni Falsarinn rekur hann alla þræði hinnar flóknu fléttu sem tengir saman staði, menn og tíma af þekkingu og öryggi. En það þarf skáldlegt innsæi til að löngu liðnar persónur lifni og komi okkur við. Þannig tekst honum að opna lesandanum leið inn í huga unglingsins listhneigða sem reikar út fyrir fangelsisportið til að skoða betur bíldhöggið og áletrunina yfir dyrunum og gleymir sér þar í forundran sinni yfir því hvernig hægt sé að móta slík lejón í steininn. Þekkingarþorstann og sköpunarþrána skildi Björn bæði með hug og hjarta. Þeir eru óðum að hverfa úr röðum okkar sem mótuðu íslenska menningu á síðari hluta tuttugustu aldar, opnuðu dyr bæði til fortíðar og framtíðar, blésu til sóknar og sögðu minnimáttarkennd smáþjóðarinnar stríð á hendur. Björn var einn þeirra, aristókrat og alþýðusonur sem hafði heita og óbilandi trú á menntun og mennsku. Hann var kennari minn eins og svo ótal margra, en hann var fyrst og fremst kær fjölskylduvinur sem ég kveð með söknuði og innilegu þakklæti fyrir löng og góð kynni. Verk hans munu lifa og minningin um hann blæs þeim vonandi kjarki í brjóst sem enn vilja berjast fyrir lífi íslenskrar menningar.

Ragnheiður Gestsdóttir.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.