Forstjóri William Fall kynnir nýjar áherslur.
Forstjóri William Fall kynnir nýjar áherslur. — Morgunblaðið/Kristinn
MIKLAR breytingar eru framundan hjá Straumi-Burðarási en forstjóri bankans, William Fall, kynnti þær fyrir blaðamönnum og fjárfestum í gær.

MIKLAR breytingar eru framundan hjá Straumi-Burðarási en forstjóri bankans, William Fall, kynnti þær fyrir blaðamönnum og fjárfestum í gær. Stefnt er að því að árið 2010 verði bankinn fremstur í flokki fjárfestingarbanka í Norður- og Mið-Evrópu og að hann verði fyrsti valkostur fyrirtækja á því markaðssvæði. Þá er stefnt að því að tekjur bankans fari yfir 1.250 milljónir evra, eignir yfir 14 milljarða evra, þóknunartekjur verði 75% af heildartekjum og arðsemi eigin fjár verði að jafnaði meiri en 20%.

Í máli Fall kom fram að til þess að hægt væri að ná þessum markmiðum innan þess tímaramma sem hann hefur sett sér yrði bankinn að vaxa bæði innri og ytri vexti, þ.e. kaupa fyrirtæki í bland við opnun nýrra starfstöðva á erlendri grundu. Þá væri nauðsynlegt að sameina alla starfsemi undir einu nafni.

Fall benti á að bankinn hefði legið undir ámæli fyrir skort á gagnsæi og sagði hann nauðsynlegt að bregðast við því. Stefnt er að því að Straumur-Burðarás verði leiðandi á sviði upplýsingagjafar og sem liður í því sagði hann að á næsta ári myndi bankinn sjálfur gefa út spá um afkomu sína og frá og með árinu 2009 verða gefnar úr ársfjórðungsspár.