Halldóra Briem EK arkitekt látin HALLDÓRA Valgerður Briem Ek, arkitekt, lést sunnudaginn 21. október sl. á sjúkrahúsi í Stokkhólmi, áttræð að aldri. Hún var fyrsti íslenski kvenarkitektinn. Halldóra fæddist 13. febrúar 1913 að Hrafnagili í Eyjafirði...

Halldóra Briem EK arkitekt látin

HALLDÓRA Valgerður Briem Ek, arkitekt, lést sunnudaginn 21. október sl. á sjúkrahúsi í Stokkhólmi, áttræð að aldri. Hún var fyrsti íslenski kvenarkitektinn. Halldóra fæddist 13. febrúar 1913 að Hrafnagili í Eyjafirði, dóttir séra Þorsteins Briem, síðar prófasts á Akranesi og ráðherra, og Valgerðar Lárusdóttur. Halldóra lætur eftir sig fimm uppkomin börn og eru þau öll búsett í Svíþjóð.

Halldóra varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1935, fyrst íslenskra kvenna ásamt bekkjasystur sinni, Ingibjörgu Böðvarsdóttur lyfjafræðingi, að ljúka stúdentsprófi af stærðfræðibraut. Halldóra hélt utan til náms og lagði stund á arkitektúr við Kungliga Tekniska Högskolan í Stokkhólmi undir handleiðslu prófessors Gunnars Asplunds og lauk þaðan prófi 1940. Halldóra hóf störf sem arkitekt hjá Kooperativa forbundet, sænsku samvinnuhreyfingunni, 1941 og starfaði þar til 1943. Ári síðar hóf Halldóra rekstur einkastofu sem hún starfrækti til 1945 er hún réð sig til HSB, Hyresgästernas bosteder, þar sem hún vann um tveggja ára skeið, m.a. við hönnun á íbúðarhúsum.

Árið 1949 hóf hún störf hjá Svenska riksbyggen og hannaði þar m.a. fjölbýlishús, dagheimili og félagsheimili en síðar gegndi hún starfi sérfræðings innan stofnunarinnar í litasetningu og efnisvali utan húss og innan. Hún var ráðin til húsameistara sænska ríkisins, Byggnadsstyrelsen, árið 1960 og vann þar að skólabyggingum í fjögur ár, en frá 1964 gegndi Halldóra stöðu deildarstjóra hjá CBS, Centrala sjukvärdsberedningen. Þar veitti hún ráð og leiðbeiningar varðandi barnaheimili, dvalarheimili fyrir aldraða og smærri sjúkrahús.

Halldóra giftist Jan Ek, lækni, árið 1941 og bjó alla tíð í Svíþjóð og lengst af í Stokkhólmi þar sem hún var heiðursfélagi Íslendingafélagsins. Jan Ek lést árið 1963 en þau eignuðust fimm börn sem öll eru á lífi og búsett í Svíþjóð. Halldóra fékkst við lisköpun meðfram starfi sínu, s.s. tónsmíðar og ljóðagerð auk þess að koma sér upp miklu safni glerminja og halda ættfræðifróðleik til haga. Rödd Halldóru er mörgum Íslendingum enn í fersku minni, því frá 1937 til 1963 hljómaði rödd hennar sem ungfrú Klukka hjá talklukku íslenska símans.

Halldóra Briem