Eftir Bjarna Bjarnason bjarnibjarnason@hotmail.com !Júdasarsvikaauglýsing símans er áhugaverð. Þar gerir trúaður grínisti sig að Júdasi, fyrir símann, en er um leið að gera sig að píslarvætti sem skilur ekkert í snuprum kirkjunnar.

Eftir Bjarna Bjarnason

bjarnibjarnason@hotmail.com

!Júdasarsvikaauglýsing símans er áhugaverð. Þar gerir trúaður grínisti sig að Júdasi, fyrir símann, en er um leið að gera sig að píslarvætti sem skilur ekkert í snuprum kirkjunnar. Greyið Júdas, enginn skilur hann og núna er búið að krossfesta hann líka. Í auglýsingunni sér Jesús Júdas taka við blóðpeningunum sem geta verið peningarnir sem Jón Gnarr fékk sjálfur fyrir auglýsinguna, frá símanum, fyrir að svíkja trúna fyrir kapítalismann. Svo er hann krossfestur af kirkjunni og verður fyrir vikið eiginlega frelsari kapítalismans. Er kjarninn þá að Júdas sé píslarvottur og frelsari kapítalismans sem var bara að krækja sér í smá aukapening? Ef það er inntakið þá verður það að teljast góður punktur því með því veit maður ekki hvort verið er að upphefja kapítalismann á kostnað kristninnar eða öfugt. Þá er þetta annaðhvort alger snilld eða til marks um að þegar þessir tveir merkingarheimar mætast í svona auglýsingu verða þeir báðir merkingarlega gjaldþrota.

Auglýsingin boðar að kjarni kristinnar trúar sé léttvægt grín, að ekkert sé heilagt, að þetta hafi bara verið smá bissniss hjá fyndnum og skemmtilegum Júdasi Gnarr. Þetta er aðdáunarverð hreinskilni um hversu vanfær nútímamaður getur verið þegar kemur að trú og því að virða nokkurn hlut, jafnvel sjálfan sig og eigin trú. Það er auðmjúkur persónulegur boðskapur höfundar. Þetta er líka til marks um að söguleg tilfinning er engin, augnablikið er allt, þar má hlæja að öllu, því hláturinn er æðstur, sem er forvitnilegur boðskapur út af fyrir sig. Þannig lagað séð er auglýsingin örvæntingarfullt konseptlistaverk Jóns Gnarr og verður að teljast mjög vel heppnað. Jón fórnar öllu fyrir boðskapinn, enda er hann boðskapurinn. Þetta listaverk, auglýsing símans, fórnar öllu, gerir frábærlega í sig, en afhjúpar nútímamann í leiðinni og nær því ótrúlega vel í gegn sem hvorttveggja í senn lofgjörð og gagnrýni, list og lágkúra.

Að auglýsingin sé nútímatrúboð, eins og heyrst hefur sagt, er fyndin viðbót. Að ímynda sér að hægt sé að auglýsa trú er eins og að ætla að boða kærleika með kynlífi í sjónvarpi. Jafnvel þótt aðilar elskuðu hvor annan er hætt við að áhorfendur upplifðu það sem klám. Trú, von og kærleikur ratar til fólks með öðrum leiðum en í gegnum auglýsingar, því miður kannski, því annars væri mjög gott og mjög hagkvæmt að lifa í heiminum. Auglýsingin er tragekómísk trúarglíma einstaklings en segir lítið um trúarkennd fólks almennt í landinu. Trúarboðskapur auglýsingarinnar er að fyrir frægðina verður að selja öll prinsipp.

Eins og ég hef áður reynt að sýna fram á í umfjöllun um Kaupþingsauglýsinguna Hugsum lengra með John Cleese, þá er fátt eða ekkert sem afhjúpar hugsunarhátt og gildismat nútímans jafn vel og auglýsingar. Menn eins og Roland Barthes hafa greint auglýsingar afbragðsvel og lagt til aðferðir sem nota má við það. Til að sporna við því að fólk sé stöðug undir sprengjuregni allskyns tákna í afkáralegu samhengi í auglýsingum, án þess að mega vera að því að greiða úr því, tel ég að fjölmiðlar mættu hafa auglýsingagagnrýnendur á sínum snærum. Þeir væru þá að fjalla um efni sem velflestir kannast við og margir hefðu áhuga á og væru ánægðir með að fá sundurgreint fyrir sig að einhverju marki. Opinber regluleg gagnrýnin umfjöllun um auglýsingar gæfi líka þau skilaboð að það væri ekki sjálfsagt að auglýsingar væru eini áróðurinn í opinberu rými sem hefði rétt á að ráðast að undirvitund fólks án nokkurs viðnáms. Sá réttur auglýsinga er óþarfa undirlægjuháttur við kapitalískt gildismat.

Auglýsingagagnrýnendur gætu líka spornað gegn mjög slökum auglýsingum og opnað á umræðu um forvitnilegar auglýsingar eins og bæði John Cleese-auglýsinguna og Júdasar Gnarr-auglýsinguna.