Sigurjón Þ. Árnason
Sigurjón Þ. Árnason
Eftir Davíð Loga Sigurðsson í Dublin david@mbl.is ÞAÐ kann að reynast óhjákvæmilegt fyrir íslensk fjármálafyrirtæki í útrás að taka upp ensku sem vinnumál í höfuðstöðvum sínum á Íslandi.

Eftir Davíð Loga Sigurðsson í Dublin

david@mbl.is

ÞAÐ kann að reynast óhjákvæmilegt fyrir íslensk fjármálafyrirtæki í útrás að taka upp ensku sem vinnumál í höfuðstöðvum sínum á Íslandi. Þannig yrði þeim kleift að ráða útlendinga til starfa við ýmsa bakvinnslu sem krefst menntunar, en það veldur bönkunum erfiðleikum hversu hátt atvinnustigið er á Íslandi um þessar mundir og hversu erfitt er að fá hæft fólk til starfa.

Þetta segir Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, en hann bendir á að útrásarfyrirtæki noti nú þegar enskuna mjög mikið.

"Eftir því sem fyrirtækin verða alþjóðlegri og menn samhæfa kerfin sín í öllum löndum þá er líklegt að það þróist þannig að kerfin sem menn nota séu eins á Íslandi, í London og á Írlandi," segir Sigurjón en í Dublin á Írlandi starfar verðbréfafyrirtækið Merrion Capital, sem er í eigu Landsbankans. "Þá yrði enskan vinnumál en með henni opnast þessi möguleiki að fá erlent fólk til starfa á Íslandi – sem hefur verið vandamál í þeim skilningi að fyrirtæki á Íslandi eru auðvitað að vaxa mjög hratt og það er aðeins 1% atvinnuleysi, en það bendir aftur til þess að það sé ekki nægt hæft fólk á markaðnum í þessi störf."

Sigurjón tekur þó fram að engin ákvörðun liggi fyrir um þetta hjá Landsbankanum. Vandinn vegna starfsmannaskorts sé heldur ekki aðkallandi ennþá. Það liggi hins vegar í hlutarins eðli að það komi til með að verða skortur á fólki.

Sigurjón segist almennt telja að tækifæri séu fólgin í því fyrir íslensk fyrirtæki að ráða til sín erlent vinnuafl. Menn hafi gert það í mörgum öðrum atvinnugreinum.