17. september 2007 | Minningargreinar | 10213 orð | 1 mynd

Ásgeir Elíasson

Ásgeir Elíasson fæddist í Reykjavík 22. nóvember 1949. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu sunnudaginn 9. september síðastliðinn. Foreldrar hans eru Ragnheiður Erlendsdóttir, f. 2.5. 1933, og Elías Þorvaldsson, f. 13.6. 1927, d. 29.6. 1976. Fósturfaðir Ásgeirs er Björn Jóhann Haraldsson, f. 27.3. 1928. Systur Ásgeirs eru Hólmfríður, f. 1955, Linda, f. 1956, Lára, f. 1958, og Eyrún, f. 1969, Björnsdætur.

Árið 1970 kvæntist Ásgeir Soffíu Guðmundsdóttur, f. 15.10. 1948. Foreldrar hennar voru Guðfinna Gísladóttir, f. 8.1. 1912, d. 30.11. 1981, og Guðmundur Jakobsson, f. 26.2. 1912, d. 20.6. 1985. Ásgeir og Dedda, en svo er Soffía nefnd af öllum þeim sem þekkja hana vel, eiga tvo syni, þeir eru: 1) Þorvaldur, f. 19.10. 1974, kvæntur Evu Hrönn Jónsdóttur, f. 29.9. 1978, þau eiga þrjú börn, Tönju Ösp, f. 1997, Ísak Snæ, f. 2001, og Óðin Breka, f. 2005. 2) Guðmundur Ægir, f. 6.1. 1983.

Ásgeir var íþróttakennari og knattspyrnuþjálfari að mennt og helgaði íþróttunum allt sitt líf, þó aðallega knattspyrnunni, bæði sem leikmaður, kennari og þjálfari.

Útför Ásgeirs verður gerð frá Hallgrímskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku besti afi, mamma og pabbi sögðu okkur að þú værir hjá englunum núna. Okkur finnst það frekar skrítið og erfitt að skilja af hverju þú ert ekki hjá okkur og ömmu. Við vitum þó að þú ert hjá okkur öllum í huganum og hjartanu og munt veita okkur styrk í framtíðinni.

Þú ert sá allra besti afi sem hægt er að óska sér, enda elskum og dáum við þig öll. Þegar við bjuggum í kjallaranum hjá ykkur ömmu í Hagalandinu góða þá fannst okkur alltaf svo gott þegar þú komst niður, bara til að gefa okkur einn stuttan koss eða knús áður en þú fórst að þjálfa. Þú gafst þér alltaf tíma fyrir okkur.

Það var svo gaman að spila við þig fótbolta í garðinum og fengum við ófáar kennslustundir hjá þér. Ísak Snær elskaði að spila við þig og ekki síður litla stýrið hann Óðinn Breki. Þú kenndir okkur svo margt m.a. að tefla, golf-sveifluna, fótbolta og tala nú ekki um allar höfuðstöðurnar sem við æfðum hjá þér. Þér fannst svo gaman að kenna okkur og vorum við svo montin þegar þú hrósaðir okkur, sem þú gerðir svo oft! Það var alltaf svo gott að koma í heimsón til þín og ömmu, enda varstu alltaf svo skemmtilegur og mikið fjör í kringum þig.

Við munum sérstaklega eftir því þegar þú og amma komuð og náðuð í okkur heim. Við fórum saman á skauta og kenndir þú okkur að fara aftur á bak. Okkur fannst þú rosa góður og vorum við montin að þú værir afi okkar, afinn sem gat allt! Eftir skautana bauðstu okkur og ömmu upp á pulsu, uppáhaldið okkar. Það var svo gaman hjá okkur.

Einnig munum við vel eftir ferðunum sem við fórum í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn með þér og ömmu. Já við gerðum margt skemmtilegt saman. Það er svo sárt að hugsa til þess að við getum ekki knúsað þig og fundið skeggrótina þína stingast í hálsakotið okkar... en við vitum að við munum hittast seinna en þangað til ætlum við að passa ömmu fyrir þig. Við elskum hana svo mikið.

Elsku afi, takk fyrir allt það sem þú hefur gefið okkur, alla ástina, tímann og minningarnar sem við höfum um þig. Við elskum þig elsku afi... Þín barnabörn

Tanja Ösp, Ísak Snær og

Óðinn Breki.

Elsku besti bróðir og mágur. Mikið skelfing er erfitt að sjá á eftir þér, þú varst alveg frábær drengur, áttir engan þinn líka.

Við systur vorum svo lánsamar að eiga þig, stóri bróðir, þegar við hver af annarri, fjórar talsins, komum í þennan heim. Alltaf varstu tilbúinn að hjálpa okkur ef á þurfti að halda og tókst oft á þig okkar sök.

Það rifjast svo margt upp frá gömlum góðum dögum þegar við vorum á ferðalögum með mömmu og pabba, öll í flatsæng aftan í Land Rovernum, syndandi í myrkvuðum gjám í Mývatnssveit og við systur drulluhræddar en áfram hvattir þú okkur. En svo kom að því að boltinn varð samvaxinn fótum þínum, sem hann varð strax við þín fyrstu skref.

Minningabrot fljúga hjá; bróðir sem týndist og fannst sofandi undir einum bekknum inni á Hálogalandi, handboltaleikir sem spilaðir voru, ásamt öllum fótboltaleikjunum, en hvað við vorum stoltar af bróður okkar.

Dag einn birtust pínulitlir skór í forstofunni og Dedda var komin í fjölskylduna. Þar eignaðist þú einstaka konu sem hefur verið með þér af lífi og sál og saman hafið þið verið órjúfanleg heild.

Svo kom að því að þið Dedda eignuðust strákana ykkar, Dodda og Mumma, sem eru einstakir. Barnabörnin þrjú bættust í hópinn og sáum við hvað þú naust þeirra og hvað þau voru heppin að eiga slíkan afa.

Það var alltaf gaman þegar við hittumst og slóst þú okkur öllum við í jólaboðunum þegar tekin var skák eða spilað Trivial Pursuit og í hugskotinu hljómar glettnisleg röddin og hláturinn þinn.

Árið sem mamma og pabbi áttu gullbrúðkaup bjuggum við systkinin til myndband um uppvaxtarár okkar og er ógleymanlegt þegar þú komst hjólandi á tvíhjóli í matrósafötum og syntir í Hafravatni og við systur í grænum heimalöguðum kjólum.

Á þessu ári hefur Ásgeir mætt tvisvar í viku til foreldra okkar til að þjálfa og byggja upp líkamsþrótt þeirra og hafa þessar stundir verið þeim ómetanlegar.

Það er svo margs að minnast, góður bróðir og mágur er genginn. Þín er sárt saknað en við vitum að þér er ætlað annað og mikilvægara hlutverk fyrir handan sem þú munt skila af sömu snilld og þú hefur gert hérna megin. Við erum þakklát fyrir að hafa fengið að ganga þennan veg með þér og biðjum almættið að styrkja mömmu og pabba, hana Deddu okkar, Dodda, Mumma, Evu, Tönju, Ísak Snæ og Óðin Breka og alla aðra sem eiga um sárt að binda.

Hólmfríður og Sævar,

Linda og Magnús,

Lára og Gunnar,

Eyrún og Stefán.


Deyr fé

deyja frændur

deyr sjálfur ið sama.

En orðstír

deyr aldregi

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Það ríkti mikil eftirvænting í minni fjölskyldu þegar Dedda litla systir kom með hann Geira og kynnti fyrir okkur. Knattspyrnustrák úr Fram, það leit nú ekki vel út. Strax kom þó í ljós að hún hafði hitt einstakan ljúfling. Ásgeir vann hug og hjörtu allrar fjölskyldunnar með hógværð sinni og einstöku viðmóti. Hann var keppnismaður af guðs náð og góður í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Það lýsir honum kannski best að það var betra að tapa fyrir Geira en öðrum og var þá sama í hverju við vorum að keppa, knattspyrnu, golfi eða skák.

Að missa þennan öðling svona snögglega er hræðilegt. Ekki veit ég hvað tekur við hjá honum Geira, en hvað sem það verður þarf hann engu að kvíða. Hann var góður maður og hans afrek munu lifa.

Ég vil að lokum þakka forsjóninni fyrir að hafa átt hann Ásgeir mág fyrir vin frá fyrstu kynnum.

Elsku Dedda mín, megi minningin um yndislegan mann, föður, tengdaföður og afa hjálpa þér og þínu fólki í ykkar miklu sorg. Foreldrum, systrum og þeirra fjölskyldum sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Theodór Guðmundsson

og fjölskylda.

Elsku frændi.

Djúpt og mikið skarð hefur verið höggvið í tilveru okkar.

Fáir hefðu getað trúað því að svo yndislegur og góður maður sem helgaði íþróttum líf sitt yrði tekinn svo fljótt frá okkur.

Þegar við hugsum til æskuára okkar rifjast upp margar góðar og skemmtilegar minningar um þig sem ylja okkur nú um hjartarætur.

Heimsóknir til ykkar hjóna voru heilsdags ævintýri. Ævintýri sem aðeins var hægt að upplifa í Mosfellssveitinni hjá Ásgeiri og Deddu.

Árin liðu og við krakkarnir urðum eldri og uppátækin breyttust hjá okkur. Þrátt fyrir það stóðst þú alltaf við bakið á öllum þínum systkinabörnum og talaðir oft okkar máli þegar aðrir löttu. Minnisstæðust eru þó áramótin í seinni tíð, þegar megnið af stórfjölskyldunni safnaðist saman á miðjum Langholtsveginum til að fagna nýju ári með tilheyrandi ljósum og látum. Enda eru fáar fjölskyldur sem búa jafn þétt við eina og sömu íbúðargötu.

Elsku Dedda, Mummi, Doddi, Eva og börn, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð og megi Guð styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum.

Elsku Ásgeir, megi ljós þitt skína um ókomna tíð, þér munum við aldrei gleyma.

Þín systrabörn,

Edda Björk Gunnarsdóttir,

Björn Jóhann Gunnarsson.

Elsku frændi, ég trúi því ekki að þú sért farinn, stóri bróðir móður minnar sem ég leit alltaf svo mikið upp til og hreykti mér af þegar ég var barn.

Ég hitti þig síðast á föstudaginn í morgunkaffi hjá afa og ömmu. Þar voru þið systkinin saman og mikið spjallað. Ég kvaddi þig með þeim orðum að ég yrði að kyssa bjargvættinn minn bless, þú brostir bara til mín og vissir hvað ég átti við. Þetta voru síðustu orð mín til þín og nú ert þú farinn, þetta líf er ekki alltaf sanngjarnt.

Elsku frændi, þér hlýtur að hafa verið ætlað annað og meira hlutverk annars staðar.

Ég bið góðan guð að styrkja fjölskylduna í þessari ólýsanlegu sorg.

Þó þung séu oft sporin á lífsins leið,

og ljósið svo skelfing lítið,

skaltu eiga þér von, sem þinn vin í neyð,

það virkar, en virðist skrýtið.

Því vonin hún vinnur gegn myrkri og kvíða,

og veitir þér styrk sinn, í stormi og byl,

sjá ljósið mun stækka, og þess skammt er að bíða,

að sólskinið sjáir, ég veit það er til.

(SHL)

Þín systurdóttir

Ragnheiður.

Ásgeir Elíasson frændi minn er látinn, langt fyrir aldur fram. Eftir sitja í huga mér fallegar minningar um góðan og skemmtilegan dreng með stríðnisglampa í augum.

Ég man sunnudagana sem við áttum saman hjá ömmu og afa á Langholtsveginum og hvað ég var hreykin af að fá að fara með honum frænda mínum þegar hann skoraði mörkin í fótboltaleikjunum uppi á Holti eða renndi sér lengst á svellinu í Vatnagörðunum.

Það var alltaf mikið tilhlökkunarefni að halda uppá afmæli ömmu í garðinum á Langholtsveginum á 17. júní, eftir skrúðgönguna niður Laugaveginn. Þar söfnuðumst við öll saman frændsystkinin, eftir mikið kökuát, við ýmsa stórskemmtilega leiki og í endurminningunni var alltaf sólskin. Þar átti Ásgeir stóran hlut að máli og litum við öll upp til hans, en hann var elstur okkar allra. Því miður hittumst við ekki nógu oft á fullorðinsárunum enda hafsjór á milli okkar, en engu að síður fannst mér við alltaf taka upp þráðinn án erfiðleika hvar sem við hittumst. Kærar þakkir fyrir samveruna elsku frændi, hvíl þú í friði.

Elsku Dedda og synir, Ragnheiður mín og Bjössi og systurnar allar og ykkar fjölskyldur, yfir hafið votta ég ykkur mína dýpstu samúð. Minningin um góðan dreng mun seint gleymast.

Eyrún B. Hafsteinsdóttir, London.

Ásgeir Elíasson var elstur í frændsystkinahópnum og sá fyrsti sem kveður þann hóp. Það var 15 ára aldursmunur á okkur og samskipti okkar þess vegna ekki mikil fyrr en ég var orðin eldri. Ég ólst upp við sögur af Ásgeiri, en móðir mín var fjögurra ára þegar hann fæddist og þau voru miklir vinir á sínum uppvaxtarárum. Ég get lýst Ásgeiri í einu orði "perla" og það skilja það allir sem hafa kynnst honum. Ef ég hefði átt stóran bróður þá hefði hann mátt vera alveg eins og Ásgeir frændi. Ég man hvað ég var stolt að geta sagt að hann Ásgeir væri frændi minn.

Þegar ég var 11-13 ára var ég í vist hjá Ragnheiði móðursystur minni í einn mánuð á sumri en ég bjó þá úti á landi og fékk að fara til Reykjavíkur og vinna mér inn pening með því að passa litlu frændsystkini mín, m.a. Þorvald son Ásgeirs sem þá var á öðru ári. Ég á góðar minningar frá þessum tíma og ég tengdist öllum innan fjölskyldu Ragnheiðar sérstökum vináttuböndum sem rofna aldrei og mér þykir mjög vænt um í dag.

Mín fyrsta minning af Ásgeiri frænda er í Eikjuvogi 7. Rautt eldhúsborð með gráum þykkum kanti úr stáli í svefnherberginu, en það var verið að innrétta eldhúsið.

Ég stelpuhnokki á sjötta aldursári var að myndast við að þurrka af eldhúsborðinu og Ásgeir var á staðnum, ég vissi ekki að hann væri að fylgjast með mér. Í þann mund sem ég er að fara að þurrka allri mylsnunni fram af borðinu og á gólfið þá heyrist í frænda: "Nei, við gerum ekki svona Ásta, ég skal kenna þér." Tekur klútinn af mér, safnar öllu saman í hann og setur í lófann sinn á borðbrúninni og brosir sínu breiðasta til mín og blikkar mig. Oft hef ég staðið mig að því að minnast þessarar stundar þegar ég þurrka af eldhúsborðinu mínu og nú verður þessi minning mér enn kærari.

Elsku frændi, takk fyrir kennsluna og okkar stuttu kynni þau eru mér dýrmæt. Guð gefi þér frið og allri fjölskyldu þinni styrk á þessari sorgarstundu. Minning þín lifir.

Þín litla frænka,

Ástdís Guðbjörnsdóttir.

Elsku Ásgeir, minn besti vinur og frændi, ég sakna þín.

Margar góðar minningar á ég um þig, kæri vinur, ég var aðeins fjögurra ára gömul þegar þú fæddist. Þú varst ekki bara litli frændi minn þú varst leikfélagi minn og við fylgdumst að í uppvextinum og ég passaði þig. Mínar bestu minningar um þig eru stundirnar hjá mömmu á sunnudagsmorgnum milli kl. 10 og 13 er við fengum að leggja undir okkur borðstofuna og vera þar alveg útaf fyrir okkur.

Við gátum stundum verið svolitlir prakkarar saman. Þegar ég var 10 ára og þú 6 ára þá fórum við eitt sinn í ferðalag norður á Langanes. Bíllinn bilaði og við urðum að bíða á sveitabæ á meðan verið var að laga bílinn. Okkur leiddist biðin og urðum að finna okkur eitthvað að gera til að drepa tímann. Við fórum að stríða hænunum og gerðum allt vitlaust á bænum.

Þú varst snemma ómissandi í fótbolta og ég man hvað ég var stolt af þér þegar að strákarnir í hverfinu sem voru á mínum aldri, þá um fermingu, komu að sækja þig til að spila með þeim fótbolta. Ég vissi líka alltaf hvar þig var að finna ef ég átti að sækja þig heim – auðvitað á fótboltavellinum, hvar annarsstaðar?

Ásgeir minn, þú varst einstakur maður og þér var margt til lista lagt. Ég man þegar ég kom eitt sinn í heimsókn til þín og Deddu vestur í bæ. Þú varst búinn að sníða joggingbuxur á þig og Dodda og saumavélin var tilbúin á eldhúsborðinu.

Þegar ég var að fara heim þá gantaðist þú með það að mér hefði verið nær að nota tímann og sauma nokkur spor á meðan á heimsókninni stóð.

Elsku vinur, það er svo gott að eiga dýrmætar minningar um þig nú þegar þú ert farinn frá okkur. Ég mun oft hugsa til þín og ég bið Guð að varðveita þig um alla eilífð. Ég bið hann líka að gefa fjölskyldu þinni styrk til að takast á við lífið án þín.

Mínar bestu kveðjur til þín, Ásgeir minn, við sjáumst síðar.

Ég kveð þig með bæninni sem hún mamma mín kenndi okkur og við fórum svo oft með áður en við fórum að sofa.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson.)

Þín móðursystir,

Þórey Erlendsdóttir.

Elsku frændi. Jörðin stoppaði um stund þegar Mummi hringdi og bar mér fréttirnar um andlát þitt. Ég vil segja þér Geiri að þú varst mitt leiðarljós á svo margan hátt í gegnum lífið, en ég sagði þér aldrei frá því.

Þú varst þessi flotti frændi, mín íþróttastjarna.

Ég vil þakka þér allt það sem þú gafst mér og fyrir þær stundir sem strákarnir mínir fengu að njóta með þér.

En núna ertu kominn í faðm afa og ömmu, og ég veit að það eru fagnaðarfundir hjá ykkur.

Elsku Dedda, synir og fjölskylda, Guð gefi ykkur styrk.

Erlendur Guðbjörnsson.

Kveðja frá Knattspyrnusambandi Íslands

Ásgeir Elíasson hefur stjórnað sínum síðasta leik. Hann kvaddi óvænt þennan heim og það af sömu hógværð og ávallt einkenndi hann. Ásgeir var ekki fyrir sviðsljósið þó að það beindist oft að honum. Knattspyrnuhreyfingin naut hæfileika hans innan sem utan vallar, fyrst sem leikmanns og síðan sem þjálfara. Ferill hans var glæsilegur og hann var ávallt í fremstu röð. Ásgeir hafði gott keppnisskap, var klókur og gafst aldrei upp við að finna réttu lausnina. Hann féll vel í hóp, gat verið leiðtogi og jafnframt félagi. Hann var glaðvær og skemmtilegur án þess að trana sér fram. Hann var rökfastur og skynsamur.

Ásgeir var trúr knattspyrnuleiknum allt sitt líf og naut mikillar virðingar innan knattspyrnuhreyfingarinnar.

Hann vann sér sess sem einn mesti fagmaður íslenskrar knattspyrnu og gerði það á sinn hátt. Hann skapaði leikstíl sem dró fram það besta í knattspyrnunni og var öðrum til eftirbreytni.

Það kynntust margir Ásgeiri og nutu þess að þar fór úrvalsmaður sem var ætíð reiðubúinn til að miðla af þekkingu sinni og reynslu. En Ásgeir var ekki einn á ferð. Fjölskyldan, þau Dedda, Doddi og Mummi, lifðu líka og hrærðust í knattspyrnunni. Missir þeirra er mikill og samúð okkar og hugur er hjá þeim.

Við kveðjum Ásgeir, okkar kæra vin, með söknuði en minning um góðan félaga mun lifa. Ásgeirs verður minnst sem eins af bestu sonum íslenskrar knattspyrnu.

Geir Þorsteinsson, formaður.

"Við erum eitt mannkyn" eru einkunnarorð eins alþjóðasambands en "við erum öll á sama báti" hefðu getað verið einkunnarorð Ásgeirs Elíassonar, sem svo skyndilega var brottkallaður sunnudaginn 9. september. Svo víða kom hann að og þjónaði svo mörgum í starfi sínu sem íþróttakennari og knattspyrnuþjálfari. Hann ólst upp í Knattspyrnufélaginu Fram og lék upp gegnum alla knattspyrnuflokka félagsins. Eftir íþróttakennaranám hóf hann í frítíma sínum frá kennslu í ýmsum skólum að þjálfa meistaraflokka ýmissa félaga svo og landslið KSÍ um þriðjung aldar. Ásgeir var vel metinn og ágætlega menntaður knattspyrnuþjálfari, sem náði markmiðum sínum og setti mark sitt á það lið sem hann þjálfaði með hógværð og natni. Á yngri árum hafði hann leikið handknattleik með ÍR og nú hafði hann tekið við að þjálfa meistaraflokk þess félags og ætlaði að funda með lærisveinum sínum sunnudagsmorguninn 9. september en af því gat ekki orðið.

Íþróttahreyfingin í Reykjavík þakkar Ásgeiri áratuga starf fyrir íþróttirnar í borginni og sendir eftirlifandi eiginkonu og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.

F.h. Knattspyrnuráðs og Íþróttabandalags Reykjavíkur,

Steinn og Frímann.

Kveðja frá Knattspyrnufélaginu Fram

Við kveðjum í dag mikinn og góðan félaga. Mannkostir Ásgeirs komu glöggt fram innan sem utan vallar. Hann var hæverskur og prúður í framkomu en vissi ávallt hvert hann stefndi.

Ásgeir spilaði með Fram bæði í knattspyrnu og handknattleik upp alla yngri flokka félagsins og ávann sér landsliðssæti í báðum greinum. Knattspyrnu spilaði hann síðan með Fram í meistaraflokki í mörg ár. Hann vann fjölda titla á ferlinum með sínum félögum og var ávallt fremstur meðal jafningja. Ásgeir var leiðtogi alla sína tíð innan sem utan vallar.

Eftir að hann hætti sjálfur að keppa nutum við mannkosta hans sem þjálfara er hann m.a. þjálfaði knattspyrnulið félagsins á einu mesta blómatímabili í sögu þess hin síðari ár og kom þá glögglega í ljós yfirburða þekking og skilningur hans á knattspyrnu.

Ásgeir var mikill félagsmaður og var ávallt gaman að vera í návist hans hvort sem rætt var um knattspyrnu eða er sagðar voru góðar sögur frá fyrri tíma. Ásgeir markaði djúp spor í sögu félagsins og er því mikill missir að góðum félaga en minning um góðan mann mun ávallt lifa í sögu félagsins.

Við vottum fjölskyldu hans okkar dýpstu samúð.

Guðmundur B. Ólafsson

formaður.

Kveðja frá aðalstjórn ÍR

Fyrir hönd okkar ÍR-inga langar mig til að segja nokkur orð um Ásgeir Elíasson, sem nú er látinn langt um aldur fram.

Mín fyrstu kynni af Ásgeiri voru árið 1974 þegar hann var nýútskrifaður úr Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni. Hann hafði tekið að sér að þjálfa meistara- og annan flokk karla í knattspyrnu hjá ÍR. Það var mikill fengur fyrir okkur sem vorum í ÍR á þessum tíma að fá þennan frábæra knattspyrnumann sem þjálfara. Hann kenndi okkur íþróttina sem átti eftir að eiga hug hans allan þar til yfir lauk. Eins og allir sem hafa átt þess kost að njóta leiðsagnar hans vita þá gerði hann það á þann hátt sem fáum er gefið þ.e. ekki með hrópum og köllum heldur af alúð. Þannig náði hann til allra og naut mikillar virðingar.

Allir sem fylgdu ÍR að málum á fyrstu árum félagsins í hverfinu höfðu tekið eftir Ásgeiri þar sem hann spilaði handknattleik með félögum sínum þegar ÍR hóf æfingar í íþróttahúsi Breiðholtsskóla.

Ég fylgdist að sjálfsögðu með Ásgeiri og hans afrekum í gegnum tíðina en leiðir okkar ÍR-inga og Ásgeirs lágu aftur saman fyrir rétt tæpu ári. Ásgeir hafði verið að þjálfa Fram, en Framarar ákváðu að endurnýja ekki samning sinn við Ásgeir. Ég lagði strax til við forsvarsmenn knattspyrnudeildar að hafa samband við Ásgeir og kanna hvort hann hefði áhuga á að koma og vinna með knattspyrnudeildinni. Ég lýsti jafnframt yfir áhuga okkar hjá aðalstjórn félagsins á að hann kæmi að vinnu við að byggja upp afreksstefnu í félaginu. Ásgeir svaraði því mjög fljótt að hann væri tilbúinn að takast á við þetta verkefni með okkur. Án þess að nokkur tímamörk hafi verið nefnd á þessum tíma veit ég að Ásgeir eins og við í aðalstjórninni horfði fram á samstarf til margra ára. Það sem við hjá ÍR gerðum okkur ekki grein fyrir áður en hann kom til okkar var hve mikill félagi Ásgeir ætti eftir að verða. Hann tók þátt í getraunastarfinu með okkur, sagði okkur skemmtilegar sögur yfir kaffibolla af því sem hann hafði reynt bæði sem þjálfari og leikmaður. Þegar ÍR hélt upp á 100 ára afmæli sitt hinn 11. mars á þessu ári voru hann og Soffía eiginkona hans hrókar alls fagnaðar.

Ásgeir lést sama morgun og leikur átti að fara fram á ÍR-vellinum. Þegar ég horfði yfir hópinn sem kom saman seinna þennan dag mátti augljóslega sjá hversu vel hann hafði náð til þeirra ungu manna og drengja sem hann hafði verið að kenna knattspyrnuíþróttina í tæpt ár. Þessir drengir eiga aldrei eftir að gleyma Ásgeiri. Þessi afreksmaður sem hafði komið til að þjálfa þá sem höfðu jafnvel ekki haft mikla trú á eigin getu áður en hann kom til félagsins voru að sjá á eftir besta þjálfara sem þeir höfðu nokkurn tímann haft.

Þrátt fyrir að missir okkar ÍR-inga sé mikill, þá er þó missir fjölskyldu hans mestur. Við ÍR-ingar sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til Soffíu, Guðmundar, Þorvaldar og annarra aðstandenda á þessum erfiðu tímum. Megi góður guð hjálpa ykkur að takast á við sorgina.

Úlfar Steindórsson, formaður.

Ásgeir réð sig til starfa við Melaskóla í skólabyrjun og kenndi nemendum í 2.-4. bekk íþróttir.

Kynni okkar í skólanum af Ásgeiri voru því stutt – alltof stutt. Þó var ljóst að hann naut strax mikillar aðdáunar hinna ungu nemenda sem hann kenndi en það kom þeim sem þessar línur ritar ekki á óvart.

Ég kynntist Ásgeiri fyrst fyrir einum 45 árum. Þrennt fannst mér einkenna hann við fyrstu sýn, sem var á knattspyrnuvellinum: Gleðin í andliti hans, hversu frábær knattspyrnumaður hann var og síðast en ekki síst hversu vel hann tók sig út í KR-búningnum! En Ásgeir hóf ferilinn í Vesturbænum.

Ásgeir skipti fljótlega yfir í Fram en gleðin var ávallt í andliti hans þar til yfir lauk og í hverjum knattspyrnuleik sem hann lék var hann oftar en ekki besti maðurinn á vellinum. Þeir verða aðeins taldir á fingrum annarrar handar þeir íslensku knattspyrnumenn sem teljast hafa verið jafn góðir eða betri en Ásgeir.

Ásgeir var drengur góður og fyrir hönd okkar allra í Melaskóla sendi ég fjölskyldu hans okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Björn Pétursson, skólastjóri Melaskóla.

Ástríða á fótbolta, lífsgleði og reynslusögur er það fyrsta sem kemur upp í huga okkar þegar við minnumst látins þjálfara okkar, Ásgeirs Elíassonar. Þó að við höfum notið leiðsagnar hans og vináttu í allt of skamman tíma þá hefur hann snert okkur alla djúpt og við vitum að það skarð sem hann hefur skilið eftir verður aldrei fyllt og söknum við hans sárt.

Ásgeir var frábær þjálfari og gat kennt öllum að verða betri leikmenn. Hann hafði frábæran skilning á leiknum og sá oft leikinn frá allt öðru sjónarhorni en aðrir. En það eru samt ekki þjálfarahæfileikar hans sem eru okkur minnsstæðastir. Persónuleiki Ásgeirs er án efa það sem hefur snert okkur mest. Hjá honum komu allir jafnir til leiks, aldrei var neinum mismunað og hroka átti hann einfaldlega ekki til. Hann smitaði alla í kringum sig af ástríðu fyrir leiknum og fótbolti væri einfaldlega skemmtilegri íþrótt ef allir hefðu sama hugarfar og leikgleði eins og snillingurinn Ásgeir Elíasson hafði.

Nú er hægt að hlakka til þess að kveðja þennan heim því að hinum megin tekur á móti okkur brosandi meistari með fótbolta og eitt er víst, það eru allir jafn velkomnir á völlinn hans. Eflaust eru þær einnig ótal reynslusögurnar sem hann á eftir ósagðar sem hægt verður að hlusta á og hlæja að.

Við sendum Soffíu og fjölskyldu Ásgeirs okkar innilegustu samúðarkveðjur og megi guð veita þeim styrk á þessari erfiðu stundu.

Það eru forréttindi að hafa fengið að kynnast þér Ásgeir, megir þú hvíla í friði.

Leikmenn meistaraflokks ÍR.

Það var sunnudagsmorgunn. Við komum svo að segja í sömu andrá inn á bílastæðið við Lágmúla. Umræðuefnið frá bílastæðinu inn á skrifstofuna var glæsileg frammistaða íslenska landsliðsins í knattspyrnu gegn Spánverjum kvöldið áður. Ekki höfðum við verið margar mínútur á skrifstofunni þegar síminn hringdi. Það var formaður KSÍ, sem tilkynnti okkur andlát Ásgeirs Elíassonar, vinar okkar. Höggið gat ekki orðið meira. Við hlupum út í bíl og héldum inn á Langholtsveg. Þar voru til staðar læknir, sjúkraflutningamenn, lögregla og nemendur hans úr ÍR auk þess sem nokkur skyldmenni voru komin, en Dedda var hvergi sjáanleg. Við fréttum að hún hefði farið í golfmót fyrr um morguninn. Nú var ljóst að við höfðum verk að vinna.

Við keyrðum hratt og í algjörri þögn upp í Grafarholt. Á bílastæðinu blasti bíll Deddu við okkur. Eftir að hafa kynnt okkur rástíma hennar fengum við leyfi til að aka út á völlinn. Nú ókum við hægt. Leiðin lá þvert yfir átjándu og fyrstu braut, framhjá öðrum og þriðja teig, milli þriðju og fjórðu brautar, framhjá tíunda teig, upp brekkuna og aftur fyrir elleftu flöt og tólfta teig. Þar snerum við bílnum við, því að við sáum að Dedda var að slá teighöggið á elleftu braut. Það var leikið á öllum brautum á vellinum, en einhvern veginn var eins og konurnar vissu af ferð okkar og þær biðu á teigunum á meðan við ókum framhjá. Við stigum út úr bílnum og gengum til móts við Deddu. Þegar hún sá okkur kom hún hlaupandi á móti okkur með opinn faðminn og andlitið ljómaði af gleði eins og við höfum svo oft kynnst. Hún faðmaði okkur og kyssti í bak og fyrir. Við skýrðum henni frá andláti Geira og á örskotsstund breyttist gleðin í yfirþyrmandi sorg. Konurnar sem voru að leika með henni og þær sem voru á tólfta teig stóðu í þögn meðan á þessu stóð. Það var eins og allir vissu erindi okkar og heimurinn stóð kyrr. En ekki lengi, því að drengirnir þeirra og önnur skyldmenni biðu hennar á Langholtsveginum. Nú mátti hún engan tíma missa.

Á leiðinni heim sagði hún okkur frá ýmsu sem á daga þeirra hafði drifið síðustu vikuna, og m.a. hafði hún tekið eftir því að fyrir nokkrum dögum hafði Geiri stungið hjartatöflum í jakkavasann sinn. Hún spurði hann þá hvort hann væri með verk. En hann sagði að hann væri í fínu standi og þetta væri bara til öryggis. Hann vildi ekki að hún hefði áhyggjur af honum.

Þannig var Geiri. Hann sjálfur var ekki aðalatriðið. Sama hvað kunnátta hans og velgengni var mikil, án auðmýktar og hæversku var það einskis virði. Slíkra manna er guðsríki.

Eggert Steingrímsson.

Rúnar S. Gíslason.

Þetta var einn svartasti morgunn í mínu lífi þegar ég fékk símhringingu þar sem mér var skýrt frá andláti hans Ásgeirs vinar míns og félaga. Mig langar að minnast þessa yndislega manns og minnast leiðar okkar saman í nokkrum orðum.

Ásgeir var eins og margir vita afburða íþróttamaður í mörgum íþróttagreinum og svo var hann sannur vinur og félagi. Hógvær, skemmtilegur, traustur vinur sem hafði góða nærveru.

Við erum búnir að fylgjast að yfir fjörutíu ár, fyrst sem félagar í sama knattspyrnuliði og einnig með konum okkar í gegnum klúbbinn sem þær knattspyrnuekkjurnar stofnuðu 1968.

Þessi átján manna hópur hefur haldið vel saman, reynt að vera til staðar hvert fyrir annað því einhvern veginn finnst okkur við eiga svo margt hvert í öðru.

Við Ásgeir höfum hist í hverri viku frá hausti til vors síðan 1982, en þá vorum við Framarar svo heppnir að sigra í fyrsta Íslandsmóti öldunga í utanhússknattspyrnu og vorum við svo lánsamir að ákveða að halda hópinn í framhaldi af því og stofnuðum knattspyrnuhóp sem fékk nafnið Gerpluhópurinn.

Nafnið á hópnum kom einhvern veginn sjálfkrafa vegna þess að við leigðum einn innanhússtíma á mánudögum strax eftir vinnu í íþróttahúsi Fimleikafélagsins Gerplu í Kópavogi. Skilyrði okkar var að tíminn yrði strax eftir vinnu því að við gömlu karlarnir vildum ekki eyða fleiri kvöldum án kvennanna okkar, nóg var nú komið af því þegar við vorum á kvöldæfingum hér fyrr á árum.

Á æfingu með Gerpluhópnum fyrir átta árum fékk Ásgeir minn hastarlegt hjartaáfall sem hann hefur væntanlega aldrei jafnað sig almennilega af, en lét það ekkert á sig fá og breytti engu í sambandi við íþróttaiðkun sína.

Nokkru eftir þetta minntist ég á við félagana að við segðum þetta gott af knattspyrnuiðkun og byrjuðum að stunda göngur saman hér í borginni sem við reyndar komum í framkvæmd í fyrravetur.

Ásgeir aftók það með öllu, sagði við mig að ef hann ætti að ganga með okkur gömlu körlunum þá yrði að vera hvít kúla þar á undan. Sem þýddi að við þyrftum allir að koma í golf en auðvitað var þessi afburða íþróttamaður einnig mjög góður golfspilari.

Þetta var auðvitað Ásgeir í hnotskurn, hvað átti hann að gera þarna ef engin var keppnin?

Fyrir einni viku var ákveðið að þessum 25 ára kafla í lífi okkar væri lokið, þ.e.a.s. við ákváðum að segja upp tímanum okkar í Álftamýrarskóla en þar hefur Gerpluhópurinn haft aðstöðu sl. tvö ár.

Ég veit að Ásgeir var ekki ánægður með þessa ákvörðun. Honum fannst við stundum hætta of snemma í tímanum, t.d. þegar við vorum fáliðaðir, þá sagði hann að við værum gamlir þreyttir karlar.

Það eru ánægjulegar minningar sem koma fram þegar maður lætur hugann reika, fjölmargar samverustundir með þeim Geira og Deddu sem allir þekkja með þeim nöfnum, þau voru alltaf einhvern veginn eins og eitt.

Við Halldóra þökkum kærlega fyrir vinskapinn öll árin og einnig sendi ég kveðju frá Gerpluhópnum með innilegum samúðarkveðjum til allrar fjölskyldunnar.

Þorbergur Atlason.

Örlaganornirnar spinna sína myrku vefi. Eiga þær sér heim sem við skiljum ekki? Hafa þeirra verk einhvern tilgang?

Hvers vegna er einn af okkar ástsælustu samferðamönnum kallaður svo snemma af leikvelli, þegar seinni hálfleikur hefur nýverið verið flautaður á? Þetta er reiðarslag, svo vægt sé til orða tekið, og grimmd örlaganornanna ótrúleg.

Um 1960 var ungur drengur sendur í sveit austur í Skeiðahrepp í Árnessýslu. Eftir skamma dvöl mislíkaði pilti eitthvað við húsbóndann. Skipti það engum togum, drengurinn laumaðist út, tók reiðhjól sitt og hjólaði til Reykjavíkur, um 80 km. Leiðin lá gegnum Grímsnesið, til Hveragerðis, upp gömlu Kambana, allt á gömlum malarvegi, um 6 klst. ferð. Hvers vegna er þetta sagt hér? Jú þetta er á vissan hátt góð lýsing á persónunni. Ásgeir var fylginn sér, staðfastur, áræðinn, duglegur og kjarkmikill forystumaður. Knattspyrnufélagið Fram, sem hann tilheyrði mestalla tíð, varð þessara krafta aðnjótandi, og ekki síður þeir Frammarar sem léku með honum í þau rúm 20 ár sem hann klæddist búningi félagsins. Í önnur 10 ár þjálfaði hann liðið. Ég var einn af þeim sem léku með honum og fyrir það er ég þakklátur.

Ásgeir var sigurvegari. Mikinn meirihluta þeirra knattspyrnuleikja þar sem hann átti hlut að máli vann lið hans, hvort sem var í yngri flokkum eða meistaraflokkum. Ávallt var haft rétt við og aldrei sá ég hann reyna að fá eitthvað ókeypis. Hann vann fyrir öllu.

Við samferðamenn hans sem lékum með honum fótbolta, tefldum, spiluðum bridge og ræddum knattspyrnu tímunum saman erum þrumu lostnir, og teljum að á okkur hafi verið gróflega brotið með brotthvarfi hans svo vægt sé til orða tekið. Ekki getum við því ímyndað okkur hvernig hans nánustu, Deddu, Dodda, Mumma og öðrum fjölskyldumeðlimum, líður þegar við erum sem steinrunnir. Þær tilfinningar verða ekki settar í orð.

Ég votta hans nánustu mína innilegustu samúð. Þetta er erfitt.

Eyjólfur Bergþórsson (Olli).

Hvernig ertu? Hefurðu eitthvað bætt á þig undanfarið? Svo skellihló hann með sínum smitandi hlátri og sterka brosi. Þetta eru aðstæður sem koma upp í hugann þegar ég sest nú niður til þess að skrifa fátækleg minningarorð um vin minn og samstarfsfélaga til margra ára, Geira El. Eitt af hans síðustu verkum var að fylgjast með knattspyrnulandsleik Íslands á móti Spáni í sjónvarpinu laugardagskvöldið 8. september og síðan kvaddi hann þennan heim morguninn eftir. Hans fyrsta verk sem þjálfari íslenska landsliðsins var einmitt að stýra liðinu svo eftirminnilega til sigurs gegn Spáni á Laugardalsvelli haustið 1991. Einstakur þjálfari hann Ásgeir, með svo mikinn skilning á leiknum að eftir var tekið. Hann sá knattspyrnuvöllinn fyrir sér sem skákborð. Alltaf að velta fyrir sér þeim möguleikum sem kæmu upp við mismunandi aðstæður, leikmenn á ferð sem og boltinn. Finna lausnir. Hann var mikið fyrir það. Ferðalögin voru mörg, æfingarnar margar sem og leikirnir.

Ég var svo lánsamur að vera aðstoðarmaður hans þann tíma sem hann stjórnaði íslenska landsliðinu frá 1991-1995. Einnig var komið að þjálfun yngri landsliða (U-16 og U-21) á þeim tíma sem og fræðslumálum KSÍ. Aftur var ég aðstoðarmaður hans hjá Fram 1999-2000. Spiluðum saman í meistaraflokki Fram 1978. Hann var þjálfarinn minn í 2. flokki 1976. Báðir lékum við handbolta. Báðir erum við íþróttakennarar. Hann var mín fyrirmynd sem leikmaður og þjálfari alla tíð. Nú er ekkert annað að gera en ylja sér við allar minningarnar. Þær verða ekki frá manni teknar. Elsku Dedda, Mummi, Doddi og fjölskylda. Missir ykkar er mikill og söknuðurinn sár. Eftir standa afrek Ásgeirs innan vallar sem utan. Þau munu lifa.

Gústaf Adolf Björnsson og fjölsk.

Reykjavíkurdrengur í sveit upp úr miðri síðustu öld. Bóndinn ræðir knattspyrnu:

– Furðulegt að eltast við bolta til að troða ofan í einhverja holu. – Það er ekki hola, segir drengurinn, það er mark, ellefu metra breitt. – Ha, ellefu metra breitt! Þá myndi ég nú bara vaða upp og skora! Drengnum er nóg boðið. Við fyrsta tækifæri stígur hann á bak hjólhesti sínum og hjólar fjallabaksleið til Reykjavíkur. Yfirgefur sveitina, snýr baki við landbúnaði og lítur aldrei um öxl, – aldregi.

Ásgeir Elíasson helgaði sig íþróttum og leikjum. Það var sjálfgefið en þó nýtt, hluti af forréttindum eftirstríðskynslóðarinnar. Það var gæfa Geira og okkar hinna. Við vorum bekkjarbræður í Langholtsskóla, boltafélagar og í hópi fimm vina úr Kleppsholtinu sem fórum alla leið vestur í bæ í KR um tíu ára aldurinn en smöluðumst skömmu síðar austur yfir læk í Fram, fyrst Geiri en Maggi Kjartans síðastur. Nú eru þeir báðir horfnir, skyndilega og fyrir aldur fram með árs millibili. Þannig heyra staðreyndir lífsins sögunni til en við hinir reynum að átta okkur á því. En sagan er dýrmæt, æskuminningar og uppvaxtarár. Geiri var ágætur námsmaður, einkum í stærðfræði og íslensku, vinsæll og vinmargur og skákmeistari skólans. Hann valdi íþróttirnar en við hinir glöptumst af listum, veiðum og sjómennsku, sveitalífi, flugi og jafnvel pólitík. Hjá Geira var samfellan frá blautu barnsbeini íþróttir, leikir og keppni. Hann var einstakur meðal íþróttamanna, keppti í þremur landsliðum í flokkaíþróttum, kenndi, leiðbeindi og þjálfaði en umfram allt, hann lék sér alla tíð.

Geiri tók lítt þátt í orðaskaki félaganna. Þegar þreyta sótti á kappana var stutt í þrasið. Hann tók ekki þátt í því, það bara hnussaði í honum þegar honum þóttu hortugheitin á vellinum keyra úr hófi. Hann og Villi áttu best saman, ólíkir um flest en báðir afburða íþróttamenn. Milli þeirra voru bræðrabönd alla tíð. Geiri hafði sérstakan leikstíl í fótboltanum. Tapaði sjaldan eða aldrei tæklingu, þyngdarpunkturinn nógu neðarlega og hann stóð bara í fæturna meðan andstæðingurinn rótaðist og hrökk síðan af honum eins og sprek. Í handbolta var það einföld bolvinda sem opnaði honum dyr gegnum vörnina inn á línuna. Með ÍR vann hann margan frækinn sigur en ÍR-ingar voru á þeim árum frægir sem miðvikudagslið en sýnu lakara sunnudagslið. Það var ekki Geira að kenna. Með Fram varð hann margfaldur meistari í fótbolta í öllum flokkum og sem þjálfari lagði hann grunn að einum fallegasta fótbolta sem sést hefur hér á landi, hjá meistaraliði Fram.

Við vorum stoltir strákar í Kleppsholtinu. Strákafélagið okkar hét því frumlega nafni Frami. Það leystist upp í læðing, sársaukalaust í fyllingu tímans og síðar fór hver sína leið. Þannig viljum við hafa æskuminningar sem okkur verða því kærari sem lengra líður. Megi sorg og söknuður víkja fyrir ljósi bjartra minninga um Ásgeir Elíasson. Í þeirri von færa æskuvinir úr Holtinu fjölskyldu hans innilegustu samúðarkveðjur.

Magnús Ingólfsson.

Hið skyndilega fráfall Geira El., eins og hann var ávallt kallaður í okkar hópi, kom sem reiðarslag fyrir okkur Mulningsvélarmenn, sem er hópur gamalla Valsmanna. Við öttum kappi við Geira á handboltavellinum og nú seinni árin á hinum ýmsu golfvöllum. Allir sem einn kunnum við að meta þennan snjalla boltamann og ljúfling. Hann var alltaf sami erfiði andstæðingurinn í leik, en orð fór af honum alla tíð fyrir drengskap, hversu hart sem gengið var til leika, eins og sagt var til forna. Strax að leik loknum var stutt í húmorinn og stríðni, sem alltaf var í gamni gerð af hans hálfu.

Um langt árabil höfum við Mulningsvélarmenn, 16 talsins, keppt árlega við jafnmarga Framara á golfvöllum víðsvegar um landið. Geiri var ávallt í hópi andstæðinga okkar og að keppni lokinni hafa verið haldnar sameiginlegar veislur þar sem menn hafa eignast vini í hópi andstæðra fylkinga og hent gaman að viðureignum einstakra keppinauta. Þessar stundir verða ekki samar og áður þegar Geiri El., sem oftast fór með sigur af hólmi í sinni viðureign, er horfinn á vit feðra sinna. Hans verður lengi minnst í okkar hópi sem eins af fjölhæfustu íþróttamönnum þjóðarinnar. Auk þess gat hann sér frábæran orðstír sem einn albesti knattspyrnuþjálfari okkar þegar glæstum ferli hans lauk í knattspyrnunni.

Með þessum fáu línum viljum við þakka Geira fyrir allar ánægjulegu samverustundirnar, sem við áttum með þessum góða dreng og félaga, sem nú er látinn á besta aldri. Þá viljum við votta Soffíu, eiginkonu hans, sonum þeirra og allri fjölskyldunni okkar dýpstu samúð.

Geiri mun lifa í minningu okkar sem skemmtilegur félagi og öðlingur. Hvíldu í friði.

Vinirnir í Mulningsvélinni.

Fallinn er frá á besta aldri Ásgeir Elíasson, einn af bestu leikmönnum íslenskrar knattspyrnusögu og einn albesti knattspyrnuþjálfari landsins.

Ásgeir El. var mjög fjölhæfur íþróttamaður, einkum í boltagreinum. Hann lék knattspyrnu lengst af með Fram og það var á þeim vettvangi sem við kynntumst, sem andstæðingar í boltanum, en við urðum einnig samherjar með landsliðinu og góðir félagar frá fyrstu tíð.

Geiri var leikinn og lunkinn, stórskemmtilegur leikmaður með þyngdarpunktinn neðarlega eins og sjálfur Pelé. Ásgeir, sem var íþróttakennari að mennt, gerðist snemma knattspyrnuþjálfari og varð fljótt einn virtasti og besti þjálfari landsins og náði frábærum árangri, einkum með Fram 1986-90 og íslenska landsliðið 1991-95.

Ásgeir Elíasson var einhver besti og heiðarlegasti maður sem ég hef kynnst, innan íþróttahreyfingarinnar sem utan. Ég bar mikla virðingu fyrir honum, bæði sem þjálfara og ekki síður sem manneskju. Hann var skapgóður, hlýr og húmorískur og hafði góða nærveru. Það var alltaf gaman að hitta Geira El. á förnum vegi... það var stutt í brosið og vinátta hans var fölskvalaus og einlæg.

Íslensk knattspyrna hefur misst einn sinn mikilhæfasta fulltrúa, stórskemmtilegan leikmann og frábæran þjálfara sem var ávallt sjálfum sér samkvæmur og trúr sinni skoðun á því hvernig knattspyrnu hann vildi sjá og láta lið sín leika.

Minningin um einstakan mann og góðan vin mun lifa á meðal okkar sem þekktum Ásgeir og þótti vænt um hann. Við minnumst Geira El. með söknuði og virðingu og sendum innilegustu samúðarkveðjur til Soffíu og fjölskyldunnar allrar og biðjum algóðan Guð að styrkja þau í sorginni.

Í Spámanninum eftir Kahlil Gibran stendur:

Skoðaðu hug þinn vel, þegar þú ert glaður, og þú munt sjá, að aðeins það, sem valdið hefur hryggð þinni, gerir þig glaðan.

Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur huga þinn, og þú munt sjá, að þú grætur vegna þess, sem var gleði þín.

Hörður Hilmarsson og

félagar úr

Knattspyrnufélaginu Val.

Ásgeir Elíasson var vinur minn. Við hittumst reglulega, drukkum saman kaffi og spjölluðum um fótbolta. Ég hafði löngu áður en ég kynntist honum heillast af þeirri knattspyrnu sem hann stóð fyrir. Að halda boltanum innan liðsins langtímum saman og bíða þolinmóður eftir besta tækifærinu. Að leika boltanum frá aftasta manni. Ekki bara dúndra fram og sjá svo til. Eftir að Ásgeir kom í seinna skiptið að þjálfa hjá Þrótti og ég orðinn formaður félagsins kynntist ég Ásgeiri. Strangheiðarlegur, einlægur og grandvar persónuleiki með þægilega nærveru. Alltaf stutt í glettnina og frá góðlátlegu brosinu stafaði hlýja. Yfirburðaþekking hans á knattspyrnu kom mér endalaust á óvart. Hvernig hann mundi og gat endursagt leikinn, hvert smáatriði. Þetta var allt ljóslifandi í huga hans.

Orðspor Ásgeirs hjálpaði Þrótti enda var hann frábærlega vel liðinn og dáður alls staðar. Ungir knattspyrnumenn sóttust eftir því að koma til félagsins því þá fengju þeir að æfa undir stjórn Ásgeirs Elíassonar. Þannig kæmust þeir í kynni við Ásgeirsboltann og næðu að þroska hæfileika sína sem knattspyrnumenn hjá þjálfara sem þeir litu svo upp til. Það þótti líka eftirsóknarvert hve vinalegur og alúðlegur Ásgeir var. Hann var alltaf einn af strákunum. Hann þurfti ekki að öskra á menn eða hafa í hótunum við liðið til að ná því besta fram.

Ásgeir Elíasson reifst ekki við dómarann og forystumenn KSÍ þurftu ekki að sekta hann eða áminna hann fyrir umsagnir hans. Reyndar kom það fyrir að Ásgeir varð öskureiður út í dómarana en hann lét það ekki í ljósi. Hann vissi sem var að þegar á heildina var litið og allt var tekið með í reikninginn þá hagnaðist hann jafnoft og hann tapaði á mistökum dómara. Slíkur fagmaður var Ásgeir. Fyrir þetta ávann hann sér virðingu og traust í íþróttahreyfingunni sem hefur misst frábæran liðsmann.

Þróttur stendur í þakkarskuld við Ásgeir Elíasson. Hann átti stóran þátt í því að félaginu tókst að koma sér fyrir á nýjum stað í Laugardalnum og stækka með þeim veldisvexti sem raunin hefur orðið. Hann hefur lagt sitt af mörkum til að Þróttur verði í hópi þeirra bestu. Það var hans vilji.

Við Þróttarar sendum Deddu, strákunum og öllum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi góður Guð varðveita minningu frábærs félaga og vinar og styrkja ástvini alla í mikilli sorg.

Kristinn Einarsson,

formaður Þróttar.

Ásgeir Elíasson, góður félagi og ljúfur vinur, er látinn allt of fljótt. Það varð brátt um hann og við stöndum eftir dálítið ringlaðir. Hann bjó til ÍR-liðið í handbolta með okkur á árunum 1966 til 1970. Við vorum á þeim aldri þá að vináttan varð einlæg og eilíf. Geiri var í okkar liði sá snöggi og lipri. Ljúfur og skapgóður innan vallar sem utan og tók okkur hinum fram í mannlegum samskiptum. Gjarnan að leita sátta þegar við hinir vorum að baka vandræði og í straffi eða fýlu.

Á þessum árum kynntust þau Dedda og við strákarnir tókum til þess hversu samrýnd og samstiga þau urðu strax. Hún var því alltaf með okkur og þau gjarnan nefnd í sömu andránni: "Geiri og Dedda". Geiri sjálfur var þá strax kominn með pípustertinn í munninn og spilastokkurinn og taflborðið gjarnan skammt undan. Þau hjónin aufúsugestir í öll partí sem haldin voru og máttarstólpar liðsins okkar.

Það er með söknuði sem við kveðjum góðan dreng um leið og hugur okkar er hjá Deddu. Börnum og barnabörnum sendum við samúðarkveðjur.

Gamlir félagar úr ÍR.

Getur það verið satt var fyrsta hugsun mín þegar hringt var í mig og mér sagt frá andláti vinar míns Ásgeirs Elíassonar. Mér fannst þetta svo óraunverulegt fyrst í stað og það tók tíma fyrir mig að skilja að Ásgeir væri í raun farinn yfir móðuna miklu.

Með þessum fátæklegu orðum vil ég láta í ljós þakklæti mitt fyrir að hafa fengið að kynnast og ganga nokkurn spöl lífsins með Ásgeiri.

Í gegnum árin kynnist maður mörgu góðu fólki en mín kynni af Geira El. voru með þeim hætti að betri manni hefi ég ekki kynnst.

Ég vil trúa því að aldrei hafi borið skugga á okkar samstarf og betri félaga var ekki unnt að fá þegar erfiðlega gekk á vellinum. Þegar verst gekk tókum við gjarnan nokkrar skákir til að leiða hugann að öðru og leið báðum betur á eftir.

Mig langar líka að minnast fótboltaferðar einnar sem við fórum saman í Geiri, Kristinn Rúnar, Ágúst Guðmunds og ég. Var þetta ævintýraferð hin mesta og er mér til efs að ég hafi nokkru sinni hlegið jafnmikið í einni ferð. Var margt spjallað og gert í þessari ferð og allt saman á góðu nótunum.

Þessi ferð verður mér alltaf ógleymanleg.

Kæra Soffía og fjölskylda, nú er snillingur fallinn frá en minningin um góðan dreng mun ætíð lifa í huga okkar.

Ég og fjölskylda mín sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur.

Ólafur Helgi Árnason.

Ásgeir hennar Deddu vinkonu er fallinn frá aðeins 57 ára gamall og skyndilega verður manni betur ljóst en áður hvað lífið sjálft og vináttan er mikils virði. Ásgeir, þessi glettnislegi góði drengur, skilur eftir sig ótal minningar. Bros hans og hlýr faðmur mætti manni hvar sem hann var.

Ég minnist hans fyrst sem 17 ára gæja í Glaumbæ. Þar hafði návist hans svo mikil áhrif á Deddu vinkonu mína að ekki varð aftur snúið og eftir það tilheyrði líf hennar honum. Brúðkaupið þeirra var skemmtilegt, mikið hlegið og dansað. Fjölskyldur þeirra beggja voru fjölmennar og samstaðan mikil. Ásgeir átti fjórar systur og þar eignaðist Dedda góðar vinkonur. Ásgeir og Dedda eignuðust tvo syni, Þorvald og Guðmund Ægi, heilbrigða og yndislega drengi. Þeir hafa báðir stundað íþróttirnar af miklu kappi eins og foreldrar þeirra og bera þess vitni að hafa fengið ómælda ást og umhyggju í sínu uppeldi.

Ásgeir var alltaf mikill keppnismaður í sér. Hversdagsleg iðja eins og það að spila ólsen-ólsen varð að heilmikilli athöfn þegar hann var annars vegar. Þar var spáð og spekúlerað, reiknað út og komist að niðurstöðu. Enginn gat unnið Ásgeir, ekki einu sinni í ólsen-ólsen. Og það var gott að vera nálægt honum, gott að hlæja með honum og finna vináttu hans bæði á stórum stundum sem og smáum, vináttu sem aldrei brást.

Ég minnist 17. júní fyrir þremur árum þegar við þrjú, Ásgeir, Dedda og ég, lögðum leið okkar á lítinn golfvöll sem lá meðfram sjónum og spiluðum golf í þvílíku roki að varla var stætt. Við hlógum upp í vindinn, önduðum að okkur sjávarloftinu og nutum hvers augnabliks. Ásgeir þurfti svolítið að minna okkur á að golf væri þónokkuð alvarlegt mál og ætti að vanda hvert högg, en við tókum mátulega mikið mark á keppnismanninum og slógum boltana út og suður eins og okkur einum var lagið. Þá hristi hann bara höfuðið og brosti, umburðarlyndið uppmálað, því þótt hann væri mikill keppnismaður sjálfur sýndi hann klaufum eins og mér aldrei neitt nema góðlátlega hlýju og kímið bros.

Minningarnar streyma fram og kalla fram söknuð og trega. Ásgeir hefði orðið 58 ára í nóvember. Það telst ekki hár aldur í dag. Hann sem hafði svo mikið að lifa fyrir. Þau hjón voru nýflutt í draumahúsið sitt við Langholtsveg og búin að nostra mikið við það og umhverfi þess. Barnabörnin orðin þrjú, öll mikil afabörn, vinirnir óteljandi, golfið stöðugt meira heillandi. Ásgeir kunni að lifa lífinu með ástríka eiginkonu sér við hlið, fáir kunnu það betur.

Ég og fjölskylda mín kveðjum góðan vin sem hefur tekið þátt í lífi okkar í 40 ár, kveðjum með sorg og trega í hjarta og geymum sem dýrgrip allar minningar um góðan og glettinn dreng. Við vottum foreldrum hans og systrum okkar dýpstu samúð. Elsku hjartans Dedda mín – harmur þinn og drengjanna ykkar er mikill. Megi góður guð gæta ykkar og hugga í þessari miklu sorg.

Hrafnhildur Valgarðsdóttir (Hadda vinkona).

Ég kynntist Ásgeiri Elíassyni þegar ég gekk til liðs við Fram fyrir 20 árum. Það þurfti ekki langan tíma til að átta sig á því hversu mikill fótboltaáhugamaður hann var. Hann hafði sterkar skoðanir á því hvernig leika ætti fótbolta og jafnframt hafði hann þann hæfileika að geta kennt leikmönnum og leiðbeint þeim með sinni stóísku ró. Á sinn látlausa hátt fékk hann leikmenn til að hlusta á sig þannig að þeir tileinkuðu sér það sem hann kenndi þeim. Eftir að ég byrjaði að spila fyrir hann vissi ég alltaf til hvers hann ætlaðist af mér og sama átti við um aðra leikmenn. Hlutverk allra leikmanna voru mjög skýr og hann lét menn finna fyrir traustinu sem hann bar til þeirra. Þetta hafði þau áhrif að það var ekki hægt að láta sér líða illa þegar maður spilaði undir hans stjórn. Það má kannski segja að þessi góða nærvera hans hafi stundum verið of þægileg því að þegar hann byrjaði að tala á fundum fyrir leiki þá færðist einhver yndisleg værð yfir þannig að maður ósjálfrátt lokaði augunum og sofnaði áður en maður vissi af. Á sínum tíma þótti mér það fullkominn undirbúningur fyrir leiki að fá mér smáblund meðan hann fór yfir leikkerfið.

Eitt atvik kemur alltaf upp í hugann er ég hugsa um Geira en það er þegar hann tók við landsliðsþjálfarastöðunni og framundan var leikur í undankeppni Evrópumótsins gegn Spánverjum. Án þess að hafa haft nokkurn tíma til að velta hlutunum mikið fyrir sér kom hann til mín og sagði að ég yrði markvörður númer eitt hjá sér í landsliðinu – ekkert hik – enginn vafi. Mér þótti svo vænt um þetta þar sem við höfðum ekki þekkst lengi og hann, mikilsmetinn þjálfari sem allir báru ómælda virðingu fyrir, kom svona hreint og beint fram við leikmann sem átti ekki marga landsleiki að baki. Þau félög sem réðu Ásgeir í vinnu til sín voru ekki einungis að ráða til sín þjálfara heldur voru þau jafnframt að fá til sín einstakan mann sem lét sér engin mál óviðkomandi er snertu félagið. Hann ásamt Deddu sinni gaf sig að öllu leyti til starfa fyrir viðkomandi félög. Þau tóku þátt í öllu félagsstarfinu og það var alltaf gaman þar sem þau voru saman. Þannig var það þegar maður spilaði undir hans stjórn á sínum tíma að þá var ekki nóg að Ásgeir hugsaði um að manni liði vel á vellinum og á æfingum heldur sá Dedda um að manni liði vel utan vallar. Hún passaði upp á að líkaminn væri í lagi og maður fengi alltaf nóg að borða. Þær voru ófáar ferðirnar upp í Mosfellsbæ til að fá andlega næringu með spjalli við þau hjón og síðan líkamlega næringu með ýmsum kræsingum frá Deddu. Jafnframt sá hún um að tærnar væru vel snyrtar og meðfærilegar fyrir þrönga fótboltaskó.

Kæri félagi, takk fyrir allt sem þú kenndir mér og traustið sem þú sýndir mér bæði hjá Fram og landsliðinu. Þín verður sárt saknað.

Elsku Dedda, Mummi, Doddi og fjölskylda, ég votta ykkur mína dýpstu samúð og megi Guð styrkja ykkur í sorginni.

Birkir Kristinsson.

Það ríkti mikil eftirvænting meðal ungra knattspyrnumanna í Ólafsvík þegar það spurðist út að einn besti knattspyrnumaður landsins hefði ákveðið að taka að sér þjálfun meistaraflokks og 3. flokks. Þetta var vorið 1976. Ásgeir Elíasson mætti vestur á Snæfellsnes snemmsumars og setti heldur betur mark sitt á okkur guttana í 3. flokki. Meistaraflokkur lék í fyrsta skipti í næstefstu deild og staldraði reyndar stutt við þar en við guttarnir í 3. flokki skutum flestum öðrum liðum á landinu ref fyrir rass.

Ásgeir var á hátindi ferils síns þegar hann ákvað að snúa sér að þjálfun, virtur landsliðsmaður í þremur boltagreinum og listamaður með knöttinn. Okkur þótti mikið til þess koma að Víkingur Ólafsvík var fyrsta liðið sem hann þjálfaði. Ásgeir kom okkur strákunum í úrslitakeppni 3. flokks sem fór fram í Reykjavík. Við ætluðum rétt að skjótast í bæinn til að spila einn leik en næstu dagar voru ævintýri líkastir. Við slógum út hvert liðið á fætur öðru, undir styrkri stjórn Ásgeirs sem náði því besta út úr okkur, og Reykjavíkurförin endaði með því að við lékum til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn. Í þeim leik mættum við reyndar ofjörlum okkar úr Breiðabliki. En við snerum til baka til Ólafsvíkur sem hetjur.

Ásgeir hefur skipað stóran sess í hjörtum okkar Ólafsvíkurgutta æ síðan, enda yndislegur persónuleiki. Það að hann skuli eiga landsleiki að baki í þremur boltagreinum segir allt sem segja þarf um það hversu mikill undramaður hann var með knöttinn. Ásgeir hugsaði í knattspyrnu og starfaði hann óslitið að þjálfun allt þar til yfir lauk.

Ég kynntist Ásgeiri enn betur þegar hann þjálfaði Fram á mestu velgengnisárum félagsins enda lék ég þá með Val. Það má með sanni segja að þessi tvö lið hafi skipt stóru titlunum bróðurlega á milli sín á árunum 1985-1990. Ásgeir vann titla með Fram öll árin og Valur varð tvisvar Íslandsmeistari og bikarmeistari á tímabilinu. Ásgeir var mikill keppnismaður en ég veit ekki til þess að hann hafi nokkurn tímann misst stjórn á skapi sínu. Hann naut mikillar virðingar, ekki síst á meðal okkar Valsmanna, því hann kenndi mönnum að spila fallega og árangursríka knattspyrnu. Ásgeir var heiðarlegur og kappsfullur mótherji en lét kappið aldrei bera fegurðina ofurliði, eins og sr. Friðrik Friðriksson lagði svo ríka áherslu á.

Ég votta Soffíu og sonum hans mína dýpstu samúð, sem og aðstandendum og vinum. Ásgeir var mikilsverð persóna, kennari og fræðimaður og umfram allt hvers manns hugljúfi. Blessuð sé minning hans.

Þótt ég sé látinn, harmið mig ekki með tárum, hugsið ekki um dauðann með harmi eða ótta. Ég er svo nærri, að hvert eitt tár ykkar snertir mig og kvelur, þótt látinn mig haldið.

En þegar þið hlæið og syngið með glöðum hug lyftist sál mín upp í mót til ljóssins. Verið glöð og þakklát fyrir allt sem lífið gefur og ég, þótt látinn sé, tek þátt í gleði ykkar yfir lífinu.

(Kahlil Gibran)

Þorgrímur Þráinsson.

Það var mikið áfall fyrir mig að fá þau tíðindi hinn 9. september síðastliðinn að Ásgeir Elíasson væri fallinn frá. Einungis nokkrum dögum áður sat ég við hlið hans og Soffíu konu hans á knattspyrnuleik og eins og ávallt var Ásgeir léttur í lund og kankvís á svip og hafði sögur að segja. Spjallað var um hitt og þetta en knattspyrnan þó efst á baugi. Þessi samskipti okkar, eins góð og þau voru, urðu okkar síðustu og það harma ég mjög.

Ásgeiri kynntist ég fyrst 1995 og stundaði knattspyrnu undir hans stjórn í nærri áratug og óhætt er að segja að betri manneskju og vingjarnlegri er erfitt að finna. Aldrei hitti ég Ásgeir í vondu skapi og hann hafði ávallt gríðarlega gaman af að vera til.

Léttleiki tilverunnar réð ríkjum í samskiptum okkar og þegar Ásgeir var kominn með kaffibollann í hönd var hann alltaf til í spjall og þær voru ófáar sögurnar sem hann gat sagt eftir fleiri áratugi sem knattspyrnumaður og þjálfari. Nærvera Ásgeirs var nokkuð sem fólk sótti í og oftar en ekki var kominn hópur í kringum hann og gamansögurnar flugu um loftið og andrúmsloftið var gott. Það er líklega sú mynd sem maður tengir helst við Ásgeir. Þessi einstaki léttleiki og gamansemi í návist hans, hann með pípuna og kaffibollann í góðu spjalli og Soffía kona hans aldrei mjög fjarri en hún kom iðulega og fylgdist með leikjum og hvatti hraustlega hans lið enda voru þau mjög samrýnd.

Jafnframt naut Ásgeir gríðarlegrar virðingar sem þjálfari og geta líklega fáir státað af jafngóðum árangri og Ásgeir í gegnum tíðina bæði með félagslið og landslið. Því var það svo, að það kom mörgum mjög á óvart hve almennilegur, lítllátur og þægilegur í samskiptum Ásgeir var, maður þetta þekktur og með þessa afrekaskrá. Það merkilegasta af öllu við Ásgeir var að hann kom fram við alla, hverjir sem þeir voru og hvað svo sem þeir höfðu til brunns að bera, af sömu virðingu og þægilegheitum. Menn sem aldrei höfðu stundað knattspyrnu og höfðu kannski ekkert erindi í það fengu að koma á æfingar hjá Ásgeiri og þegar reyndari menn úr boltanum hristu höfuðið yfir þessarri vitleysu brosti Ásgeir bara og sagði kannski "tja, hann hittir þó á samherja" eða eitthvað slíkt.

Aldrei kom það til greina hjá Ásgeiri að vera með einhver leiðindi eða yfirlæti, enda hafði hann gengið í gegnum margt á sinni lífsleið og unnið verksmiðjuvinnu og annað tilfallandi á sínum yngri árum og sá enga ástæðu til þess að vera að meina mönnum sem áhuga höfðu á að stunda knattspyrnu.

Með Ásgeiri er fallinn hæfileikaríkasti þjálfari sem ég hef haft um ævina og jafnframt einstaklega góð og almennileg manneskja. Það er því sorglegt til þess að hugsa að eiga aldrei eftir að hitta hann aftur og taka létt spjall um knattspyrnuna, tilveruna og hvaðeina sem efst væri á baugi. En minning Ásgeirs mun lifa eilíflega á spjöldum knattspyrnusögu Íslands. Ég votta Soffíu konu hans, sonum þeirra og allri hans fjölskyldu mína innilegustu samúð.

Halldór Hilmisson.

Ásgeir er dáinn. Það er erfitt að skilja það og hugsunin um að eiga aldrei eftir að tala við Geira aftur er skrýtin. Minningarnar streyma fram. Geiri var mikill vinur minn, einstakur maður, alltaf í góðu skapi, skemmtilegur, klár, frábær vinur og umfram allt góður maður.

Ég kynntist Geira haustið 1999 þegar hann tók við liði Þróttar í fótboltanum. Við urðum strax góðir vinir og þrátt fyrir að leiðir okkar skildi í boltanum stóð sú vinátta fram á síðasta dag. Árin með Geira í Þrótti voru frábær. Ég lærði mikið af honum enda átti hann auðvelt með að gefa af sér og það var alltaf skemmtilegt hjá honum. Ófáir klukkutímarnir fóru í það að ræða málin um fótboltann og fleira. Geiri stundaði golfið af miklu kappi og var góður golfari. Það var alltaf gaman að fara með honum. Síðasti golfhringurinn okkar saman var fyrir stuttu og ég er ótrúlega þakklátur fyrir þann hring. Þá notaði Geiri "þrjútréð" hennar Deddu, en það er saga á bak við það sem Geiri sagði svo oft og hló svo mikið að. Það eru margar góðar sögur af Geira sem ég mun varðveita vel.

Ég kveð þig nú með miklum söknuði kæri vinur, það er erfitt að missa svona góðan vin, svona frábæra persónu.

Elsku Dedda, við Sóla sendum þér og allri fjölskyldunni okkar innilegustu samúðarkveðjur. Hugur okkar er hjá ykkur.

Páll Einarsson.

Líklega er ekkert eins til þess fallið að beina huga manns að hverfulleika lífsins eins og að heyra óvænta andlátsfregn. Þegar mér barst frétt af andláti Ásgeirs Elíassonar þyrmdi yfir enda örstutt síðan að við áttum samtal og bundum endurfundi fastmælum. Kynni okkar Ásgeirs hófust fyrir um hálfri öld og þótt á tímans rökkurvegi hyljist ýmsar minningar hjúpi gleymsku er svo ekki með vináttubönd sem bundin eru í æsku.

Við Ásgeir vorum jafnaldrar, ég örlítið eldri í ári, skólabræður í barnaskóla, leikfélagar og vinir alla tíð. Þegar þessi knái og brosmildi strákur flutti í hverfið mitt leið ekki langur tími að við hittumst og þá þegar varð mér ljóst að þarna fór ljúfmenni sem gott væri að eiga að vini. Leikvangur æskunnar var gatan og holtið og þau ævintýralönd sem unnt var að kanna í hverfi sem þá var umlukið engjum og túnum, hólum og tjörnum. Og mikið var gaman. Verkefnin óþrjótandi, lífskrafturinn og tápið án takmarkana, gleði og hlátrasköll hvarvetna. Á undraskömmum tíma varð öllum leikfélögunum hins vegar ljóst að í Ásgeiri fólust miklu meiri hæfileikar til afreka en flestum okkar hinna enda fór svo að þá þegar fór hann að skara fram úr í leikjum og íþróttum og gilti einu hvað þeir hétu enda fór auðvitað svo að Ásgeir varð afreksmaður á mörgum sviðum. Mér er minnisstætt að hafa stundað svo margar íþróttagreinar með Ásgeiri að nú sætir furðu og hann dró mig á vit ýmissa ævintýra sem ætíð lifa ljúf í minningunni eins og þegar tónlistarnámið var látið lönd og leið við hvatningu hans til að gera frekar eitthvað sem vit væri í og spila almennilegan fótbolta fremur en að setjast við eitthvað hljóðfæri inni í stofu. Við stunduðum nokkurn veginn allar íþróttagreinar sem unnt var að nefna, fyrst í óskipulögðum leikhópum barna en síðar í skipulögðum íþróttafélögum og að einu mátti ganga vísu; Ásgeir var jafnan bestur. Ekki ætla ég mér þá dul að fjalla um afrek Ásgeirs og framgöngu á sviði íþróttanna, nægir verða til þess.

Það sem mestu skiptir hins vegar eru ekki afrek sem unnin eru þótt merkileg kunna að vera heldur þau manngæði sem maður fær að kynnast í umgengni, leik og starfi. Ásgeiri verður aldrei betur lýst en svo að hann var drengur góður, svo mjög að ég minnist þess ekki að hafa heyrt hann hafi láta sér um munn fara lastmæli um nokkurn mann og svo verður sjaldan sagt um mann með sanni jafnvel þótt valinkunnur öðlingur sé. Það var líka eitt einkenna Ásgeirs að vera vinfastur og þótt ár liðu milli þess að við hittumst var jafnan eins að stutt hlé hefði orðið á samtalinu og þráðurinn tekinn upp fyrirhafnarlaust og án nokkurra málalenginga. Og alltaf var vináttan söm.

Það eru mikil forréttindi að kynnast manni eins og Ásgeiri Elíassyni og minningin um hann verður mér ávallt kær. Söknuður minn er mikill en verður að hjómi einu þegar litið er til missis eiginkonu Ásgeirs, sona, barnabarna, foreldra og systra.

Því fólki öllu óska ég styrks á sorgarstund og hjá því verður hugur minn og okkar hjóna beggja.

Gunnar Haraldsson.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.