Rómeó og Ingibjörg Leiklist Guðbrandur Gíslason Halaleikhópurinn Rómeó og Ingibjörg. Höfundur: Þorsteinn Guðmundsson Leikstjóri: Edda V.

Rómeó og Ingibjörg Leiklist Guðbrandur Gíslason Halaleikhópurinn Rómeó og Ingibjörg. Höfundur: Þorsteinn Guðmundsson Leikstjóri: Edda V. Guðmundsdóttir Í aðalhlutverkum: Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir, Ingólfur Birgisson, Sigurður Björnsson og á sinn hátt, í þessari sýningu, allir.

Maður gengur að norðanverðu inn í Sjálfsbjargarhúsið, fram hjá sjálfrennihurðum og skilveggjum úr gleri og eftir þröngum gangi sem er lýstur upp af flúorljósum sem liggja langsum eftir loftinu í óglerjuðum skermum og inn í dumbrauðan dimman salinn og sest við enda gangsins og horfir á sviðið sem er suðurendi salarins, gólfið bert en borð og stólar í einu horninu og á borðinu pappaglös og inn tínast leikendur, sumir haltir, sumir haltir og málhaltir, sumir með visna hönd, einn blindur, aðrir ekki ferðafærir öðruvísi en í huganum og um rödd sína og þau leika sér í leikritinu að leikriti til að lifa í gegn um eins og við öll leitum að einhverju til að lifa í gegn um og finna Rómeó og Júlíu, nei Rómeó og Ingibjörgu, sem er þó engu minni Júlía en Júlía, því hvað sagði ekki Rómeó: "Ástin, sem þó er sjónlaus sögð með réttu,/ratar í blindni beint að að marki settu!"

Manni dettur í hug "Sex persónur leita höfundar" eftir Luigi Pirandello eða tónverk eftir Atla Heimi Sveinsson, þar sem í upphafi tónkviðunnar ein tónrödd af annarri ræskir sig og slæst í för með hinum, og víst eru formlegar hliðstæður hér til staðar með verki Pirandellos og sumpart einnig efnislegar: tjáningarþörfin er sterk þó að sumir efist um það brúk sem megi hafa af henni, og hún tekur á sig spaugilegar myndir. En þar lýkur samanburðinum, því Hala-leikhópurinn er hvorki á höttunum eftir tilgansleysi né tilvistarkreppu heldur upplyftingu og ástinni sem Shakespeare sagði að væri "... reykur frá ekkans glóð; hún er sem bjarmi skær/ í augnakasti, sé hún hrein og tær". Og ástin stígur einmitt út úr leikriti skáldjöfursins og inn í leikrit Hala-leikhópsins þar sem hún býr um sig í barmi blindrar konu og þess sem ekki má ferðast öðruvísi en í huganum og um rödd sína. Og eins og segir í forljóðinu að Rómeó og Júlíu, þá er þetta "sú ást sem átti leið um hyldjúp höf/af hörmungum..." og því ljómar hún skýr í endurskini um þetta svið.

Það er óvanalegt að sjá Rómeó sem haltrar og er stirt um tungutak, hvað þá Júlíu sem fálmar í blindni eftir vanga ástvinar síns. Slík er einhæfni (bíó)reynslunnar að manni verður tamt að tengja ástina við líkamshreysti og ofurfagurt skinn. Inntak hennar útvatnast, hverfist í roðið. En Hala-leikhópurinn þekkir framandleikann sem felst í slíkri reynslu og nauðsyn þess að upphefja hann og í upphafi leikritsins utan um leikritið gantast leikendur hvejrir við aðra yfir því sem þeim var ekki gefið, eða því sem var svo grimmdarlega frá þeim tekið. Þjáningin er móðir skopsins. Mér þótti vænt um skopið. Það var á köflum gráglettnislega fyndið og það ruddi mér leiðina aftur að inntakinu, en auk þess var það ágæt andstæða við upphafinn ástartexta Shakespeares. Sá texti var oftar en ekki bráðvel fluttur af aðalleikurunum, og grípandi. Yfirbragð þessarar sýningar var afslappað og eðlilegt, og kemur þar eflaust til, auk leikstjórans, Eddu V. Guðmundsdóttur, nærvera þess ágæta leikhúsmanns, Guðmundur Magnússonar, í hlutverki leikstjórans.

Svo leið leikritið og frásögn þess og túlkun leikaranna náði þeim tökum á athygli minni og tilfinningum að mér fannst ég léttast í sætinu. Það heitir að vera upp numinn.

Þegar lófatakið hafði hljóðnað stóð ég upp, strekkti á stirðum limum, gekk frjáls undir flúorljósunum þröngan ganginn út í víðáttu næturinnar norður af Sjálfsbjörgu og skildi að þau þarna inni í rauðum sal höfðu fært mig á vit listarinnar með leik sínum og þannig leyst úr fjötrum holdsins um stund.

(Tilvitnanir í Rómeó og Júlíu eru sóttar í þýðingu Helga Hálfdanarsonar, William Shakespeare, Leikrit I. Heimskringla 1956)