Guðrún Karítas Sölvadóttir fæddist á Sléttu í Sléttuhreppi 8. júní 1921. Hún lést á Hrafnistu í Reykjavík að kvöldi 20. september síðastliðins.

Foreldrar hennar voru Sölvi Andrésson, bóndi í Aðalvík, f. 12.6. 1889, d. 23.8. 1956, og Veronika Kristín Brynjólfsdóttir húsmóðir, f. 26.9. 1886, d. 18.1. 1981.

Systkini Guðrúnar voru Herborg Arndís, f. 29.11. 1914, d. 30.12. 2004, gift Kristni Lárussyni, f. 8.11. 1898, d. 17.2. 1979, og Guðmundur Einar, f. 9.3. 1918, d. 12.4. 2002, kvæntur Mörtu Þórðardóttur, f. 27.3. 1927, d. 4.6. 2004. Fósturbræður Guðrúnar voru þeir Guðmundur S. Karlsson, f. 20.3. 1932, og Guðni E. Árnason, f. 22.5. 1926, d. 21.6. 2000.

Hinn 10.11. 1945 giftist Guðrún Sigurjóni Guðmundssyni, mótorvélstjóra og sjómanni, frá Stakkadal í Aðalvík, f. 25.2. 1910, d. 26.5. 1971. Foreldrar hans voru þau Guðmundur Guðmundsson, bóndi í Stakkadal í Aðalvík, f. 14.2. 1864, d. 27.4. 1926, og Sigríður Helga Sakaríasdóttir, f. 22.12. 1873, d. 7.11. 1928.

Börn þeirra eru: 1) drengur, f. 23.6. 1946, lést við fæðingu.

2) Sigríður Guðjóna, f. 12.5. 1947, gift Gunnari Kristinssyni, f. 18.2. 1950, búsett í Reykjavík. Börn þeirra eru: a) Sigrún, f. 24.10. 1968, hún á Eygló Sigríði, f. 21.1. 1989, Gunnar Jens, f. 24.4. 1996, og Karítas Sesselju, f. 22.12. 2003. b) Sólveig Kristín, f. 29.5. 1971, hennar barn er Freyja Kristín, f. 9.10. 2000. c) Sigurður Kristinn, f. 24.2. 1979.

3) Kristinn Sölvi, f. 4.6. 1950 á Ísafirði, d. 6.10. 1972, kvæntur Báru Guðnadóttur, f. 18.2. 1951, d. 29.9. 2006, frá Hellu á Rangárvöllum. Þau voru barnlaus.

4) stúlka, f. 24.8. 1954, d. 29. sama mánaðar.

Guðrún Karítas ólst upp á Sléttu til sex ára aldurs, og eftir það í Tungu í Fljótavík og Stakkadal í Aðalvík hjá foreldrum sínum til ársins 1943. Þá fluttu þau til Ísafjarðar og þar giftist hún og bjó, en lengst bjuggu þau Sigurjón á Fossum í Engidal þar sem hann starfaði við rafstöðina sem þar er. Þau hjón fluttu til Reykjavíkur 1967 til að vera í námunda við börn sín tvö sem þá voru á lífi. Eftir lát Sigurjóns bjó Guðrún Karítas lengst af á heimili dóttur sinnar og tengdasonar eða þangað til hún fór á Hrafnistu í Reykjavík 2003 og var hún þar til æviloka.

Guðrún Karítas verður jarðsungin frá Áskirkju í dag og hefst athöfnin kl. 13.

Guðrúnu Karitas kynntist ég fyrir 40 árum þegar ég fór að eltast við dóttur hennar og Sigurjóns þá rétt 17 ára unglingur og það varð upphaf að langri og góðri vináttu okkar í milli. Þá voru þau hjón að flytja til Reykjavíkur frá Ísafirði til að vera nær börnunum sínum og læknishjálp þar sem heilsa Sigurjóns var farin að bila mikið. Sá tími sem hún bjó á heimili okkar hjóna skapaði mikil vinatengsl okkar í milli.

Föst hefð var orðin á að við fórum í bíltúr á vorin austur að Odda á Rangárvöllum til að huga að leiði sonar hennar þar og síðast fyrir um einum mánuði fórum vestur á Ísafjörð að huga að leiðum barna hennar og foreldra. Svo var farið til berja inni við rafstöð í Engidal, en þar varð ég að taka mynd af henni uppi í fjalli til að hún gæti sannað fyrir félögum sínum á Hrafnistu hvað hún hefði afrekað. En henni þótti gaman að ferðast og oft fór hún jafnvel ein af stað komin á efri ár til að fara á æskuslóðirnar vestur á Sléttu og Aðalvík, gisti þá oftar en ekki í tjaldi og þótti henni ekki mikið til um.

Lengst starfaði Guðrún við ræstingar hjá Iðnaðarbanka Íslands sem síðar varð hluti af Íslandsbanka, eða um 20 ár. Eftir starfslok fór hún að kynna sér hvað starf eldri borgara bauð upp á og þar fann sinn vettvang sem listamaður og skapaði mörg og fögur verk, hvort sem efnið var bandspotti, tuska, litir, gler eða timbur, úr öllu gat listamaðurinn Karitas búið til eitthvað til að gleðja augað. Ekki skemmdi það að hún var hvers manns hugljúfi og naut góðs félagsskapar, bæði í félagsmiðstöðinni í Hæðargarði og á Hrafnistu í Reykjavík þar sem hennar vettvangur var síðustu árin.

Það er með söknuði sem kveð aldna tengdamóður mína og hafi hún þakkir fyrir samferðina.

Sérstakar þakkir til starfsfólks Hrafnistu í Reykjavík fyrir alúð og vel unnin störf.

Gunnar Kristinsson.

Amma var einstök kona. Alltaf hlý og góð. Vildi alltaf allt fyrir okkur gera. Hún var hvers manns hugljúfi og ég man ekki til að hún hafi nokkru sinni skipt skapi, alltaf kát og glöð.

Hún var alla tíð trúuð og lifði eftir þeim boðskap að kærleikurinn umvefur allt.

Amma var mér og systkinum mínum góð fyrirmynd að öllu leyti.

Amma flutti til foreldra minna þegar ég var sjö ára og bjó hjá þeim í tæp 30 ár. Við systkinin ólumst upp við að hún væri alltaf til staðar fyrir okkur, tók á móti okkur þegar við komum úr skólanum og hafði alltaf tíma fyrir okkur. Ekki síst ól hún bróður minn upp ásamt foreldrum okkar og hefur hann alltaf verið mikill ömmustrákur.

Amma hafði alltaf eitthvað fyrir stafni. Var alltaf með eitthvað í höndunum. Hún hafði mikið yndi af allskonar handavinnu og var mjög listræn í sér. Prjónaði, saumaði, heklaði, perlaði saumaði út, skar út og málaði. Allt sem hún gerði var fallegt og sérstaklega vel unnið og í fallegum litum. Jólagjafir frá ömmu voru því oft eitthvað eftir hana, eins og útskorin klukka, útskorinn prjónastokkur, lampi með steindu gleri eða málaðar skálar.

Oft hef ég hugsað að ég myndi vilja vera svona klár í höndunum eins og hún var og hafa þolinmæði til að ljúka verkefnunum.

Ömmu þótti gaman að ferðast. Fór margar ferðir með fjölskyldunni út um allt land.

Henni þótti sín heimasveit Sléttuhreppur dásamlegur staður. Talaði mikið um fólkið þar og sagði mér frá, lýsti fyrir mér búskaparháttum þess tíma sem hún ólst upp á. Amma hafði mikla ánægju af að koma þangað og ekki eru mörg ár síðan hún fór þangað síðast. Síðasta ferðin á Ísafjörð var fyrir örfáum vikum en hún fór ásamt foreldrum mínum.

Amma hafði einstakt lag á dýrum og öll dýr elskuðu ömmu. Ósjaldan var það sem Táta stakk trýninu í lófa ömmu til að athuga hvort hún kæmi ekki með sér út og ófáar gönguferðir, oft tvisvar á dag, fór hún með Tátu sína um hverfið.

Síðustu árin var amma á Hrafnistu. Hún var mjög ánægð að búa þar og hafði alltaf nóg að gera. Var dugleg að taka þar þátt í því sem í boði var. Talaði mikið um það hvað hún væri ánægð með að hafa kynnst svo mörgum góðum félögum síðan hún kom þangað.

Takk fyrir allt, elsku amma.

Sigrún Gunnarsdóttir.

Elsku amma mín.

Þá kom að því sem ég innst inni er búin að óttast í mörg ár. Hringingunni frá Íslandi. Ég fékk að vita að þú værir í dái eftir alvarlegt heilablóðfall og að þú myndir ekki vakna upp aftur. Það tók mig nokkra tíma að skilja þetta, og nú, viku síðar er ég enn að reyna að átta mig. Ég sagði Freyju litlu að þú svæfir og myndir ekki vakna aftur, að þú myndir hitta langafa, sem dó fyrir mörgum árum. Ég nefndi ekki við barnið að þú myndir líka hitta börnin þín þrjú.

Við komum eins fljótt og við gátum, en þú varst dáin nokkrum klukkutímum áður. Ég er fegin að þú varst ekkert að bíða eftir okkur. Það var gott að sjá friðsældina yfir þér og þú varst eitthvað svo lítil og falleg. Það var gott og verðugt fyrir þig, að þú fékkst að fara á þennan hátt.

Elsku amma. Eftir þessar fréttir hef ég syrgt og saknað. Ég vildi óska að ég gæti farið aftur í tímann og gert hluti öðruvísi. Að ég myndi eftir að þakka þér fyrir að hafa verið svona stór hluti af mínu lífi, að þakka þér fyrir endalausa hlýjuna og velvildina, að þakka þér fyrir að þú varst alltaf til staðar fyrir mig og alla aðra. Ég á svo margar minningar um okkur saman. Það varst þú sem kenndir mér á klukkuna og kenndir mér að lesa, þú varst alltaf til í að spila og lesa fyrir okkur. Þú baðst bænir og Faðir vor með mér fyrir háttatíma. Þú gerðir alltaf krossmark yfir brjóstið á mér eftir baðið, til að vernda mig. Það var svo mikil umhyggja í því. Það var alltaf pláss fyrir okkur börnin hjá þér. Það hverfur svo margt með þér og nú skil ég að ég hefði átt að spyrja meira og hlusta meira, af því að ég get ekki spurt þig hér eftir.

Þegar við heimsóttum þig í sumar var ég svo stolt af að þú værir amma mín. Stjúpbörnin mín voru að hitta þig í fyrsta skipti og tungumálaerfiðleikar skiptu engu máli. Þú talaðir við þau á íslensku og þau við þig á dönsku. Þú sýndir okkur listaverkin þín; málverk, tréútskurð, saum og prjón. Þú sagðir okkur frá hvernig þú héldir þínum elliárum skemmtilegum, með því að spila golf, bossía og að fara í leikfimi á hverjum degi. Það var bara svo frábært, svona lífsglöð og hress langamma, með bros, kossa og faðmlög fyrir alla.

Elsku amma mín. Við eigum öll eftir að sakna þín, hvert á sinn hátt. Takk fyrir allt, alla hlýjuna, væntumþykjuna, þolinmæðina, umhyggjuna. Þú varst okkur mikils virði og minning þín mun lifa.

Kær kveðja,

Sólveig og Freyja, Ole og börn.