Tillaga Í skýringum höfunda segir að hönnunarhugmyndir Lækningaminjasafnsins séu sóttar í náttúru Seltjarnarness, fuglalífið og sérkenni gamla læknabústaðarins. Byggingin er lágreist og efnisval svipað og í Nesstofu.
Tillaga Í skýringum höfunda segir að hönnunarhugmyndir Lækningaminjasafnsins séu sóttar í náttúru Seltjarnarness, fuglalífið og sérkenni gamla læknabústaðarins. Byggingin er lágreist og efnisval svipað og í Nesstofu. — Teikning/Yrki arkitektar ehf.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.

Eftir Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

FULLTRÚAR Seltjarnarnesbæjar, menntamálaráðuneytis, Læknafélags Íslands, Læknafélags Reykjavíkur og Þjóðminjasafns Íslands undirrituðu í gær samning um byggingu og rekstur Lækningaminjasafns Íslands við Nesstofu á Seltjarnarnesi og kynntu framkvæmdina.

Byggt á teikningu frá 1997

Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, segir að 1997 hafi menntamálaráðuneytið, Þjóðminjasafnið og Læknafélag Íslands staðið fyrir hugmyndasamkeppni um Lækningaminjasafn við Nesstofu og hafi teikningar Yrkis arkitekta ehf. hlotið fyrstu verðlaun. Byggt verði á þessum teikningum og sé gert ráð fyrir að safnið verði fullfrágengið haustið 2009.

Samningurinn gengur út á samstarf og sameiginlega fjármögnun á stofnkostnaði en síðan mun Seltjarnarnesbær taka alla ábyrgð á framkvæmdinni og rekstri safnsins í samvinnu við samstarfsaðilana. Safnið verður um 1.300 fermetrar að stærð og þar af um 300 fm geymslurými neðanjarðar. Áætlaður kostnaður við bygginguna er um 345 milljónir króna auk kostnaðar við lóðina sem Seltjarnarnesbær leggur til öðrum samningsaðilum að kostnaðarlausu. Auk þess leggur Seltjarnarnes til 110 milljónir króna, menntamálaráðuneytið 75 millj. kr., Læknafélag Íslands 50 millj. kr. og ennfremur rennur söluandvirði Bygggarða 7 á Seltjarnarnesi í framkvæmdina. Bygggarðar 7 voru keyptir fyrir erfðafé Jóns Steffensen, læknis og prófessors emeritus, sem arfleiddi Læknafélag Íslands að ákveðnum eignum og fjármunum til byggingar Lækningaminjasafns við Nesstofu. Læknafélagið afhenti Þjóðminjasafninu arfinn til umsjónar og hefur fjármununum verið varið til endurbóta á Bygggörðum 7.

Samkvæmt aðalskipulagi Seltjarnarness frá því vorið 2006 er skilgreint safnasvæði í kringum Nesstofu og segir Jónmundur að Lækningaminjasafn Íslands falli vel inn í það skipulag. Hann bendir samt á að samningurinn sé gerður með fyrirvara um skipulagslega meðferð málsins.

Jákvætt fyrir Seltjarnarnes

Jónmundur segir að safnið hafi margvíslega og jákvæða þýðingu fyrir Seltjarnarnesbæ. Jóni Steffensen verði sýnd ákveðin virðing og safnið komi til með að styrkja Nesstofu, eina helstu perlu höfuðborgarsvæðisins og jafnvel víðar. Bæjaryfirvöld hafi haft mikinn áhuga á því að gera svæðið virkara og auka aðdráttarafl þess fyrir bæjarbúa og alla aðra sem fari um Seltjarnarnes. Húsakynnin verði möguleg fyrir þá sem eigi leið um útivistarsvæðin á Seltjarnarnesi, til fundahalda og annarrar menningartengdrar starfsemi. "Það má segja að þessi bygging sem er fyrirhuguð á grundvelli þessa samnings er ekki Lækningaminjasafn Íslands eingöngu heldur bygging sem hýsir það en er jafnframt ætluð til menningarlegra nota."

Sérstök safnanefnd kemur til með að starfa við safnið og hefja störf ekki síðar en 1. nóvember í ár. Henni er ætlað að vera safnstjóra til aðstoðar við skipulag og áætlanir um sýningarhald, varðveislu og rannsóknir á vegum safnsins. Í nefndinni verða tveir fulltrúar tilnefndir af Læknafélagi Íslands, einn af Þjóðminjasafni ásamt tveimur fulltrúum Seltjarnarnesbæjar og skal annar þeirra vera formaður.

Safnið á að starfa sem stofnun á vegum bæjarfélagsins og verður það miðstöð safnastarfsemi á sviði lækna- og heilbrigðisvísinda auk þess að bera ábyrgð á söfnun, varðveislu, rannsóknum og miðlun á þeim munum og minjum sem snerta sögu lækninga á Íslandi.