Solveig Ásgerður fæddist 25. júlí 1910 að Merki á Jökuldal. Hún andaðist mánudaginn 17. september síðastliðinn á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi. Hún var dóttir hjónanna Guðnýjar Björnsdóttur húsfreyju í Merki, f. 1875, d. 1917, og Stefáns Júlíusar Benediktssonar bónda þar, f. 1875, d. 1954. Alsystkini hennar voru Aðalheiður kennari, f. 1905, d. 1935; Benedikt bóndi í Merki, f. 1907, d.1989; Brynhildur ljósmóðir, síðast búsett á Egilsstöðum, f. 1908, d.1984; Þórey, f. 1909, d.1931; Unnur áður húsfreyja á Brú á Jökuldal nú til heimilis á Heilbrigðisstofnuninni á Egilsstöðum, f. 1912; Valborg húsfreyja á Hrafnabjörgum í Jökulsárhlíð, f. 1914, d. 1991. Hálfsystkini hennar, börn Stefáns og seinni konu hanns, Stefaníu Óladóttur húsfreyju í Merki, f. 1886, d. 1934, eru Helga áður húsfreyja á Gíslastöðum á Völlum, nú búsett á Egilsstöðum, f. 1922; Óli bóndi í Merki, f. 1923; Lilja skrúðgarðyrkjumeistari, búsett í Reykjavík, f. 1925, og Jóhann trésmíðameistari, búsettur á Egilsstöðum, f. 1930.

Solveig Ásgerður lauk kennaraprófi frá KÍ 1934. Eftir það var hún kennari við barna- og unglingaskólann í Vopnafirði frá 1934 til 1943. Síðan starfaði hún sem stundakennari við Laugarnesskóla í Reykjavík 1943 til 1945 og svo sem kennari við barnaskólann á Siglufirði 1945 til 1947.

Árið 1947 giftist hún Guðmundi Jóhannesi Pálssyni bónda á Guðlaugsstöðum, f. 19.1. 1907, d. 30.8. 1993, og hefur búið á Guðlaugsstöðum síðan. Þau eignuðust tvær dætur, Guðnýju Aðalheiði, f. 19.7. 1948, d. 16.11. 1998, síðast til heimilis á Sambýlinu á Blönduósi, og Guðrúnu, f. 17.7. 1952, bónda á Guðlaugsstöðum. Börn hennar með fyrrverandi eiginmanni, Sigurði Ingva Björnssyni, nú bónda á Bálkastöðum ytri í Hrútafirði, eru Guðmundur Halldór, rafvirki, f. 1978, sambýliskona hans er Katharina Angela Schneider, f. 1980, dóttir þeirra er Elísabet Nótt, f. 2007; Guðlaugur Torfi, bifvélavirki, f. 1979; Ásgerður Kristrún, jarðfræðinemi, f. 1983, sambýlismaður hennar er Jón Karl Sigurðsson, nemi við University of Santa Barbara Cal., og Björn Benedikt, nemi við MH, f. 1989.

Solveig Ásgerður verður jarðsungin frá Blönduóskirkju í dag, laugardaginn 29. september, kl.13.30. Jarðsett verður í heimagrafreit á Guðlaugsstöðum.

Árið 1947 var heillaár í Blöndudal. Þá um vorið kom kaupakona að Guðlaugsstöðum, Solveig Ásgerður Stefánsdóttir. Hún fór ekki um haustið eins og upphaflega var áformað, en hún var kennari á Siglufirði. Þau Guðmundur bóndi Pálsson felldu hugi saman þá um sumarið og giftu sig um haustið. Það var mikill fengur fyrir okkar litla samfélag að kona með hæfileika og mannkosti Ásgerðar skyldi setjast þar að. Undanfarin 60 ár hefur hún verið næsti nágranni okkar á Höllustöðum og hefur þar aldrei borið skugga á og met ég hana meir en flesta aðra sem ég hef hitt á lífsleiðinni.

Ásgerður var Jökuldælingur og af merkisfólki komin í tvöfaldri meiningu, þar sem hún var einnig frá höfuðbólinu Merki. Hún unni mjög átthögum sínum alla tíð og fólkinu sem þar bjó.

Ásgerður var víðlesin menntakona og hafði í farangri sínum brot af heimsmenningunni. Hún gerði snjallar tækifærisvísur enda dóttir skáldbóndans Stefáns í Merki. Hún var háttvís í framkomu og hafði frábæra skapstillingu, en þegar henni ofbauð, komu ein eða tvær setningar sem urðu minnisstæðar þeim er heyrðu. Ásgerður var glæsileg kona og hafði einstaklega góða nærveru.

Guðlaugsstaðir eru stórbýli að fornu og nýju. Þar hefur sama ætt búið óslitið síðan 1685. Jörðin er mjög víðlend og þar er sauðland frábærlega gott, en fénaðarferð erfið og smalamennskur tímafrekar. Þau hjón voru mikið ræktunarfólk og unnu landi sínu og bújörð. Þegar virkjun Blöndu kom á dagskrá, voru áformin hræðileg frá sjónarhóli landverndarmanna. Vaðið var yfir heimamenn af fullkomnu tillitsleysi. Að vísu tókst að bjarga því að Guðlaugsstaðir yrðu það fótaskinn virkjunarmanna sem upphaflega voru áform um, en jörðin var þó verulega skert. Hins vegar var óþörf landníðsla á heiðum uppi þyngri en tárum taki og er það mesta gróðureyðing af einni framkvæmd allt frá landnámi. Nú þykjast þeir er höfuðábyrgð báru á þeim hervirkjum vera hinir mestu náttúruverndarar. Guðlaugsstaðafólk tók þessa deilu mjög nærri sér.

Ásgerður vann lengi mikið að búinu, en á Guðlaugsstöðum var á fyrrum búskaparárum hennar mjög stór, gamall og merkilegur bær, sem ekki var sniðinn að nútíma húshaldi. Ásgerði tókst þó að skapa þar notalegt heimili, þar sem gott var að koma.

Þá er ótalin ótrúleg fórnfýsi Ásgerðar og skyldurækni. Hún hjúkraði tengdaföður sínum, að mestu rúmföstum, um fjögurra ára skeið allt þar til að hann kvaddi heiminn níræður.

Þeim hjónum varð tveggja dætra auðið. Sú eldri Guðný Aðalheiður átti við nokkra fötlun að stríða í æsku og mikla á fullorðinsárum. Móðir hennar annaðist hana og umvafði ást og hlýju í fjóra áratugi af einstakri ræktarsemi. Yngri dóttirin Guðrún nam sagnfræði en kom svo heim í búskapinn á Guðlaugsstöðum og býr þar stórbúi. Hún er gáfuð myndar- og dugnaðarkona svo sem vænta mátti. Ásgerður átti skjól hjá dóttur sinni og hélt viti sínu og reisn til æviloka.

Við á Höllustöðum kveðjum frábæra mannkostakonu með aðdáun, virðingu og þökk.

Páll Pétursson.

Látin er í hárri elli Ásgerður Stefánsdóttir, húsfreyja á Guðlaugsstöðum í Blöndudal.

Hér er ekki rúm til að rekja uppruna hennar né æviferil, en ég kynntist henni fyrst er hún gekk að eiga Guðmund Pálsson, og tók við búsforráðum á Guðlaugsstöðum árið 1947. Allir fögnuðu komu Ásgerðar, fáir þó meir en tengdafaðir hennar, afi minn, enda reyndist hún honum vel. Næstu áratugina ráku þau hjónin stórt bú og oft var mannmargt á heimilinu og einnig gestkvæmt, og gestrisni ríkjandi. Ég var þar vel kunnug og get vitnað um það að heimilisbragur var þar glaðlegur og hlýr, rætt var um allt milli himins og jarðar og húsfreyjan jafnan hrókur alls fagnaðar.

Þeim hjónum varð tveggja dætra auðið. Sú eldri, Guðný Aðalheiður, sem nú er látin, var vanheil, og önnuðust þau hjón hana af mikilli natni allt fram á elliár sín. Einkum sýndi Ásgerður mikla elju og stöðuglyndi í hlutverki sem mörgum er þungbært, og á þeim árum var nánast um enga aðstoð að ræða til handa foreldrum fatlaðra barna, ekki einu sinni ráðgjöf. Guðný var næm á vísur, og kenndi Ásgerður henni ógrynni af þeim og var raunar iðin að kenna henni hvaðeina, enda ekki annarri kennslu til að dreifa.

Yngri dóttirin, Guðrún, býr nú rausnarbúi á Guðlaugsstöðum í félagi við son sinn Guðmund, og er það henni styrkur að hún á dugleg og eljusöm börn, og einnig það að hún er kona hjúasæl. Það voru foreldrar hennar einnig á sínum tíma.

Ég var barn að aldri, en man þó vel þegar Ásgerður settist að í Blöndudalnum. Það var nokkur heimskonubragur á henni, hún klæddist sportfatnaði, gekk á skíðum milli bæja, reið vindóttum góðhesti og dáðist að Halldóri Laxness. Fordómar og þröngsýni voru henni þyrnir í augum.

Hún var mikill bókaunnandi og víðlesin. Níutíu og sjö ára að aldri fylgdist hún enn nokkuð með bókaútgáfu og varð glöð við þegar ég lánaði henni nýútkomna ævisögu Gunnars Gunnarssonar og Þórbergs Þórðarsonar.

Ásgerður var náttúrunnandi. Hún hafði yndi af gróðri og ræktun og naut vel allrar útivistar. Einhvern tíma sagði hún mér að hún gerði það stundum sér til gamans að fara á fætur á undan öðrum og sækja kýrnar á morgnana, en yfir sumarið voru kýr oftast hafðar úti á nóttunni. Hún lýsti því skáldlega fyrir mér hvað það væri heillandi að koma að kúnum í svalri morgunkyrrðinni.

Ásgerður var orðhög kona, talaði blæbrigðaríkt mál, gat stundum gefið meitluð tilsvör og var vel hagmælt. Hún var félagslynd og naut þess vel að ferðast. Á efri árum ferðaðist hún mikið með eldri borgurum, oft í fylgd systra sinna. Ættingja og vini heimsótti hún oft eftir að annir við búrekstur voru að baki. Henni ofbauð ekki að ferðast ein með rútunni þó hún væri komin á tíræðisaldur.

Hún var natin og vandvirk, og flest störf fóru henni vel úr hendi. Barngóð var hún, og henni var sýnt um að spjalla við smábörn.

Ásgerður setti svip sinn á mannlíf í Blöndudalnum í meira en hálfa öld. Hún var mjög velkomin þegar hún settist þar að, og hennar er saknað nú þegar hún kveður.

Hanna Dóra Pétursdóttir.

www.mbl.is/minningar