28. nóvember 1993 | Innlendar fréttir | 401 orð

Erlendir aðilar óska eftir að kaupa íslenskar geitur

Erlendir aðilar óska eftir að kaupa íslenskar geitur ÓSK HEFUR borist frá Skotlandi um kaup á geitum hér á landi og Norðmenn hafa einnig sýnt því áhuga að kaupa geitur héðan. Ekki eru nema liðlega 300 geitur til í landinu en þær voru 3.000 árið 1930.

Erlendir aðilar óska eftir að kaupa íslenskar geitur

ÓSK HEFUR borist frá Skotlandi um kaup á geitum hér á landi og Norðmenn hafa einnig sýnt því áhuga að kaupa geitur héðan. Ekki eru nema liðlega 300 geitur til í landinu en þær voru 3.000 árið 1930. Það er Hilmar Sigurðsson bóndi á Langárfossi í Borgarfirði sem hinir erlendu aðilar hafa leitað til. Hann er með um 60 geitur ásamt öðrum búskap og hefur lagt mikla rækt við að kynbæta íslenska geitastofninn undanfarin ár. Hilmar segir að þessi viðleitni hafi hins vegar mætt litlum skilningi hjá stjórnendum landbúnaðarmála.

Hilmar sagðist hafa farið að safna saman geitum árið 1989 en um það leyti hefði íslenski geitastofninn verið að deyja út. Um 1930 voru um 3.000 dýr í landinu, 1960 voru þær aðeins 100 en nú eru hérlendis rúmlega 300 geitur. Landinu er skipt upp í sauðfjárveikivarnarhólf og er vandkvæðum bundið að fá leyfi til að flytja geiturnar milli hólfa. Geitur höfðu æxlast innbyrðis á hverjum stað í langan tíma og var úrkynjun orðin mikil.

Úrkynjun

Hilmar sagðist fljótlega hafa náð að safna saman 16 geitum en úrkynjun var orðin mikil í þeim stofni. Með hjálp Sigurðar Sigurðssonar dýralæknis á Keldum og Ólafs Dýrmundssonar hjá Búnaðarsambandinu í Reykjavík fékk hann leyfi til að flytja til sín 11 geitur úr Dala-hólfinu og segist hafa náð góðum árangri með því að blanda þessum tveimur kynjum saman. Hilmar sagði að þó þyrfti að ná mun meiri árangri og helst að vera leyfilegt að flytja sæði á milli eins og í sauðfjárrækt. Hann sagði að taka þyrfti þessi mál föstum tökum því mörg einkenni íslensku geitarinnar væru að deyja út. T.d. væru mörg litaafbrigði útdauð og aðeins nokkur dýr eftir af kollótta stofninum.

Geitfjárræktarfélagið

Haustið 1991 stofnuðu 30 einstaklingar víðs vegar af landinu Geitfjárræktarfélag Íslands og er markmið þess að forða íslenska geitastofninum frá útrýmingu svo og að nytja hann. Sagði Hilmar að félagið hefði sótt um aðild að Stéttarsambandi bænda en því verið hafnað.

Hilmar sagði að erlendir aðilar hefðu sýnt því mikinn áhuga að flytja út íslenskar geitur. Væri íslenski stofninn talinn bera af hvað varðaði ullarþelið og mjólkina. Svo gæti farið að eftir nokkur ár yrði eins komið fyrir íslensku geitinni og íslenska hundinum, sem nú væri til betur ræktaður í Danmörku en á Íslandi.

Morgunblaðið/Kristinn

Íslensk geit

ÍSLENSKI geitastofninn þykir eftirsóknarverður vegna ullarþelsins og mjólkurinnar.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.