Ruslafjall Byrjað er að fylla níundu urðunarreinina í Álfsnesi.
Ruslafjall Byrjað er að fylla níundu urðunarreinina í Álfsnesi.
Eftir Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur og Orra Pál Ormarsson TUTTUGU og fimm Hallgrímskirkjur þyrfti til að rúma það rusl sem kemur upp úr heimilistunnum Íslendinga ár hvert.

Eftir Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur

og Orra Pál Ormarsson

TUTTUGU og fimm Hallgrímskirkjur þyrfti til að rúma það rusl sem kemur upp úr heimilistunnum Íslendinga ár hvert. Þá er ótalinn sá úrgangur sem kemur á endurvinnslustöðvar og grenndargáma sem og sorp frá fyrirtækjum og stofnunum.

Sorpfjöll sveitarfélaganna eru meðal umfjöllunarefnis í greinarflokknum Út í loftið sem heldur áfram í Morgunblaðinu í dag. Samkvæmt tölum frá Sorpu fleygir hver höfuðborgarbúi 225 kílóum í sorptunnuna að meðaltali árlega. Að sögn Guðmundar Tryggva Ólafssonar, framkvæmdastjóra Sorpstöðvar Suðurlands, má lauslega umreikna það magn í tvo rúmmetra sem gerir rúma 615 þúsund rúmmetra á þjóðina alla. Rúmmál Hallgrímskirkju er hins vegar 24.230 rúmmetrar samkvæmt Fasteignamati ríkisins. "Þótt sorp sé jafnan mælt í þyngd skiptir rúmmálið eiginlega meiru þar sem rúmtakið í söfnunarkerfinu, flutningnum og á urðunarstað, ræður kostnaðinum við förgunina, útskýrir Guðmundur og tekur fram að í reikningsdæminu að ofan sé miðað við óþjappað sorp eins og það kemur frá heimilunum.

Ruslinu úr tunnunum er hins vegar þjappað saman og það baggað áður en það fer til urðunar. Að sögn Rögnu I. Halldórsdóttur, deildarstjóra gæða- og þjónustusviðs Sorpu, fara 13 flutningabílar af bögguðu sorpi, eða 300-450 tonn, daglega á urðunarstað höfuðborgarbúa í Álfsnesi. Þar er þegar búið að fylla átta urðunarreinar sem hver um sig rúmar 256 þúsund rúmmetra af bögguðu sorpi eða um tíu Hallgrímskirkjur. Áttatíu slíkar byggingar þyrfti því til að rúma sorpfjöllin sem þegar hafa myndast í Álfsnesi fyrir utan níundu urðunarreinina sem byrjað er að fylla.