Philip Roth "Exit Ghost er ekki ein af sterkustu bókum Roths en hún nýtur hinna bókanna um Zuckerman og sækir merkinguna að töluverðu leyti til þeirra."
Philip Roth "Exit Ghost er ekki ein af sterkustu bókum Roths en hún nýtur hinna bókanna um Zuckerman og sækir merkinguna að töluverðu leyti til þeirra."
Nathan Zuckerman fæddist í Newark í New Jersey-ríki árið 1933. Hann var kveðinn niður af skapara sínum, Philip Milton Roth, f. í Newark í New Jersey-ríki 19.3. 1933, fyrr á þessu ári.

Nathan Zuckerman fæddist í Newark í New Jersey-ríki árið 1933. Hann var kveðinn niður af skapara sínum, Philip Milton Roth, f. í Newark í New Jersey-ríki 19.3. 1933, fyrr á þessu ári. Nathan á einn bróður, Henry, en ekki er vitað með vissu um afdrif hans. Nathan stundaði nám við Chicago-háskóla áður en hann hóf ritstörf. Eftir hann liggja mörg skáldverk, en þeirra frægast er sennilega bókin Carnovsky . Útförin hefur ekki farið fram enda mun Zuckerman lifa áfram með okkur. Þeim sem vilja minnast hans er bent á bækur Philips Roth.

Eftir Rúnar Helga Vignisson

rhv@simnet.is

Nú þegar Nathan Zuckerman er allur, eins og Philip Roth hefur fullyrt í viðtölum, rifjast upp viðburðaríkur ferill sem spannar rúma þrjá áratugi. Zuckerman kemur við sögu í einum tíu bókum eða þriðja hverju verki Roths. Hann hefur því verið fyrirferðarmikill í lífi lesenda Roths og spurning hvernig þeir þrífast án hans.

Nathan Zuckerman kom fyrst fram í bókinni My Life as a Man árið 1974 og þá sem sköpunarverk enn annars rithöfundar sem Roth hefur búið til, Peters Tarnopol. Zuckerman verður síðan aðalsöguhetja bókarinnar The Ghost Writer frá árinu 1979, þá einungis rúmlega tvítugur. Sögupersónan Zuckerman er búin að slá í gegn sem rithöfundur í Zuckerman Unbound , The Anatomy Lesson og The Prague Orgy og á í alvarlegri sálarkreppu, ekki síst vegna hneykslismála í kjölfar útkomu bókarinnar Carnovsky sem þykir minna á Portnoy's Complaint eftir Roth. Zuckerman er einnig miðsviðs í skáldsögunni The Counterlife þótt hann sé ýmist lifandi eða dauður. Síðan kemur Ameríski þríleikurinn, hinar vinsælu og margverðlaunuðu bækur American Pastoral , I Married a Communist og The Human Stain , þar sem Zuckerman kemur lítið við sögu sjálfur heldur rekur sögu annarra. Reyndar kemur Zuckerman líka ögn við sögu í sjálfsævisögulegri bók, The Facts – A Novelist's Autobiography , skrifar þar eins konar eftirmála. Nú kemur að sögn Roths sjálfs síðasta bókin um Zuckerman, Exit Ghost , og hún kallast á margan hátt á við fyrstu bókina um kappann.

Zuckerman kemur úr sveitinni

Zuckerman er vart svipur hjá sjón í Exit Ghost . Hann hefur verið í sjálfskipaðri útlegð uppi í sveit í ellefu ár, m.a. vegna líflátshótana sem honum bárust en kannski aðallega vegna þess að hann fékk krabbamein í blöðruhálskirtil sem gerði hann bæði getulausan og ófæran um að stjórna þvaglátum sínum. Eftir að hafa einbeitt sér að ritstörfum allan þennan tíma er þessi gamli kvennabósi mættur með bleiu í klofinu til New York í þeim tilgangi að gangast undir aðgerð sem á að gera honum kleift að hafa einhverja stjórn á þvaglátunum og endurheimta þannig glataða reisn. Í New York lendir hann aftur inni í hringiðu mannlífsins og minnir sjálfan sig sumpart á fræga söguhetju Washingtons Irving, Rip Van Winkle, sem svaf í tuttugu ár og vaknaði til nýs samfélags. Zuckerman sér mannlífið á götum stórborgarinnar með ferskum augum og undrast t.d. að allir skuli nú hafa svo mikið að segja að þeir þurfi að tala linnulaust í síma.

Þegar Zuckerman rekst á smáauglýsingu þar sem ungt par óskar eftir að skipta á íbúð í borginni og sveitinni ákveður hann að slá til. Hann hefur samband og kemst að því að um tvo unga rithöfunda er að ræða, hún um þrítugt og búin að birta nokkrar smásögur, rétt eins og hann sjálfur þegar hann heimsótti hinn virta smásagnahöfund E.I. Lonoff upp í sveit í bókinni The Ghost Writer . Nú er Zuckerman orðinn að virtum höfundi sem er dáður af yngri höfundum. Hér hafa því orðið algjör umskipti frá fyrstu bókinni um kappann.

En ýmsir draugar ásækja nú hinn 71 árs gamla Zuckerman.

Arfleifðin

Í framhaldi af kynnum Zuckermans af ungu rithöfundunum tekur vinur þeirra, Richard Kliman að nafni, að herja á hann. Kliman vinnur að ævisögu Lonoffs, sem Roth er talinn hafa byggt á Bernard Malamud, og vill gjarnan fá að nota Zuckerman sem heimild. Kliman segist vilja endurreisa nafn þessa mikla rithöfundar sem sé flestum gleymdur. Gamanið kárnar hins vegar þegar Kliman kveðst hafa heimildir fyrir því, m.a. frá seinni konu Lonoffs, að höfundurinn hafi búið yfir hræðilegu leyndarmáli, sifjaspelli sem hann hafi framið með systur sinni. Kliman segist hafa komist yfir helminginn af síðasta handriti Lonoffs, skáldsögu sem honum hafi ekki enst aldur til að ljúka og fjalli einmitt um þetta sifjaspell.

Zuckerman hrýs hugur við að Kliman nái að koma frá sér bók sem sverti nafn Lonoffs og hótar að gera allt sem í hans valdi stendur til þess að koma í veg fyrir það. Kliman gefst hins vegar ekki upp enda ungur og fylginn sér, rétt eins og Zuckerman forðum. Lesanda fer fljótlega að gruna að andstyggð Zuckermans á fyrirætlunum Klimans tengist því að hann óttist sambærilega meðferð að sér látnum. Og hvert verður þá mitt "sifjaspell"? spyr hann. Það spilar líka inn í að Zuckerman telur sér trú um að Kliman sé elskhugi ungu skáldkonunnar sem hann þráir sjálfur en getur ekki fengið sökum elli og krankleika. Þá er hér velt upp spurningunni um hvort fræðimenn eigi að nýta sér æviatriði höfundar til að varpa ljósi á bókmenntaverk hans. Svar Zuckermans er afdráttarlaust.

Leikrit vanmáttarins

Jamie, skáldkonan unga, vill flýja New York eftir hryðjuverkaárásirnar. Hún er stöðugt hrædd, rétt eins og hún sé nútímaútgáfa af Önnu Frank sem einmitt leikur stórt hlutverk í The Ghost Writer . Zuckerman heillast af Jamie eins og við er að búast í skáldsögu eftir Roth þar sem ungar konur eru stöðug freisting fyrir óseðjandi karla. Jamie er íturvaxin og greind og sú samsetning er ómótstæðileg fyrir Zuckerman, jafnvel þótt hann sé kominn til ára sinna og vart til ástalífs fallinn.

En Jamie gegnir ekki bara því hlutverki að endurvekja með Zuckerman kenndir sem hafa legið í dvala í sveitinni. Það vekur athygli að hún er komin af auðugum Texasbúa sem þekkir Bush-fjölskylduna. Svo vill til, og það er auðvitað engin tilviljun af höfundarins hálfu, að Zuckerman er í New York vikuna sem forsetakosningarnar milli Bush og Kerrys fara fram árið 2004. Zuckerman hefur lítt fylgst með þjóðmálum í sveitinni, hvorki horft á sjónvarp né lesið blöð, í og með til að forðast sárindin sem íhaldssamir stjórnmálamenn hafa valdið honum í gegnum tíðina. Hann vill ekki að sér líði eins og barni á fjögurra ára fresti, upplifi tilfinningar barnsins en sársauka hins fullorðna, eins og hann orðar það. Roth notar hins vegar Jamie til þess að sýna það uppnám sem ungt frjálslynt fólk í Bandaríkjunum komst í þegar úrslit kosninganna lágu fyrir. Til marks um það er að Jamie dreymir um að vakna upp daginn eftir að George Bush hefur verið skotinn. Roth notar þessa ungu konu einnig til þess að sýna hið tvíbenta samband norðurríkjanna við suðurríkin með því að láta hana lifa á olíupeningum frá föður sínum. Hvaða áhrif mun Bush hafa á þetta unga fólk? spyr Zuckerman og veltir fyrir sér hvort skaðinn sem Bush hefur valdið muni hafa sambærileg áhrif á það og Víetnamstríðið á kynslóðina á undan.

Til að túlka vanmátt Zuckermans gagnvart ungu konunni er karlinn látinn skrifa lítið leikrit inn í bókina, Hann og hún , þar sem hann sviðsetur ímynduð samtöl milli sín og Jamie. Einungis þar fær hann útrás fyrir löngun sína til þess að eiga samskipti við ungu konuna. En meira að segja þar reynist hún treg í taumi.

Vofan hverfur

Titill bókarinnar, Exit Ghost eða Vofan hverfur , er sóttur í leikritið Makbeð eftir Shakespeare. Roth hefur lýst því í viðtali að hann hafi lesið Makbeð aftur áður en hann fór á sýningu á leikritinu og þá hafi þessar sviðsleiðbeiningar vakið athygli hans, nánar tiltekið þegar vofa Bankós hverfur af sviðinu. Leikritið kemur líka við sögu í bókinni því ungu rithöfundarnir lesa það hvort fyrir annað og velta fyrir sér tengslum þess við ríkisstjórn Georges W. Bush.

Titillinn kallast náttúrlega á við titil fyrstu bókarinnar um Zuckerman, The Ghost Writer , og hentar að því leyti vel til þess að loka hringnum. Nærtækt er að spyrja hvaða vofu Roth eigi við. Er það hinn ungi Zuckerman úr The Ghost Writer sem gengur aftur og leitar á hinn aldna Zuckerman þegar hann kemur til stórborgarinnar á ný? Eða er gamli maðurinn orðinn að vofu? Exit Ghost lýkur á þætti úr leikritinu Hann og hún og í sviðsleiðbeiningum í lok þess er því lýst að Zuckerman pakki niður og haldi á brott. "Gone for good" eru lokaorð bókarinnar, farinn fyrir fullt og allt. Zuckerman sjálfur virðist þá vera vofan sem lætur sig hverfa og í framhaldi af því má spyrja hvort hann sé vofa Roths sjálfs. Það liggur beint við í ljósi þess að Zuckerman er iðulega talinn vera hliðarsjálf og málpípa Roths, enda eiga þeir margt sameiginlegt, s.s. að vera gyðingar, fæddir sama árið í sömu borg, vera báðir rithöfundar með skrautlegan feril að baki og verja ævikvöldinu í uppsveitum Nýja-Englands. Næsta skref gæti þá verið að Roth sé að búa sig undir að hverfa af sjónarsviðinu. Það getur auðvitað gerst fljótlega, maðurinn verður 75 ára á næsta ári, en í viðtali við Hermione Lee fyrir skemmstu var þó ekki að heyra að þetta væri síðasta bókin hans, því hann kvaðst hlakka til að sjá hvað kæmi í staðinn fyrir Zuckerman. Kannski eitthvert annað hliðarsjálf eða hliðarheili eins og Roth hefur kallað Zuckerman?

Zuckerman sem skapari og sköpunarverk

Exit Ghost er ekki ein af sterkustu bókum Roths en hún nýtur hinna bókanna um Zuckerman og sækir merkinguna að töluverðu leyti til þeirra. Zuckerman er húsgangur hjá þeim sem fylgst hafa með höfundarferli Roths en um leið er hann að vissu leyti bæði afsprengi annarra bóka Roths og innblástur að enn fleirum. Roth hefur notað þetta hliðarsjálf sitt til þess að fást við ýmislegt sem á daga hans sjálfs hefur drifið, svo sem eins og þá hneykslan sem fór um heiminn þegar Portnoy's Complaint kom út, en hann hefur líka notað Zuckerman til að skyggna bandarískt þjóðlíf. Ennfremur hefur Zuckerman skapað höfundi sínum viðfangsefni í gegnum þá eilífu umræðu sem farið hefur fram um hvort hann sé bara lítt dulbúinn Roth. Í framhaldi af því þróaði Roth magnaða rannsókn á sambandi lífs og listar sem náði hámarki í tveimur af bestu bókum hans, The Counterlife og Operation Shylock , þar sem Philip Roth er aðalsöguhetjan og á sér líka tvífara með sama nafni.

Hugmyndafræðina að baki Zuckerman er kannski einna helsta að finna í bókinni The Facts . Í lok hennar lætur Roth þetta meinta hliðarsjálf skrifa sér bréf og leggja mat á þessi sjálfsævisögulegu skrif. Þá segir Zuckerman: "Þú ert miklu betur settur með því að skrifa um mig en með því að lýsa eigin lífi út í hörgul." Hann heldur því fram að í skáldskap megi komast nær sannleikanum en í ævisögu, rithöfundurinn hafi þar frjálsari hendur vegna þess að hann sé ekki eins upptekinn af velsæmi borgarans. Það er hins vegar mikil einföldun að líta svo á að Zuckerman sé að öllu leyti Roth sjálfur, enda segist Roth nota raunveruleikann sem stökkpall inn í skáldskapinn.

Fyrir okkur sem höfum fylgst með Zuckerman á sínu makalausa ferðalagi um tíu bækur þar sem Ameríka nútímans er undir, með öllum sínum öfgum, eru þetta ákveðin þáttaskil og ekki laust við eftirsjá þó að Zuckerman sé ekkert sérstaklega aðlaðandi persóna. En hann er hispurslaus og skarpur og segir jafn vel frá og Philip Roth. Úr því sem komið er, karlinn kallar sig jú mann sem sé ekki til lengur, er sennilega best að vofan láti sig hverfa og leyfi öðrum að komast að.

Vertu sæll, Zuckerman, og takk fyrir samveruna. Blessuð sé minning þín.


Bækur þar sem Zuckerman kemur við sögu:
My Life as a Man (1974)
The Ghost Writer (1979)
Zuckerman Unbound (1981)
The Anatomy Lesson (1983)
The Prague Orgy (1985)
The Counterlife (1986)
The Facts – A Novelist's Autobiography (1988)
American Pastoral (1997)
I Married a Communist (1998)
The Human Stein (2000)
Exit Ghost (2007)

Höfundur er rithöfundur og hefur þýtt Philip Roth á íslensku.