Jónas Séð heim að Hrauni í Öxnadal. Hraundrangi, sem skagar upp úr hvassbrýndu Drangafjalli, hefur lengi verið tákn Jónasar Hallgrímssonar.
Jónas Séð heim að Hrauni í Öxnadal. Hraundrangi, sem skagar upp úr hvassbrýndu Drangafjalli, hefur lengi verið tákn Jónasar Hallgrímssonar. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
NÝ ævisaga Jónasar Hallgrímssonar kemur út á 200 ára afmælisdegi hans, eftir viku, á vegum menningarfélagsins Hrauns í Öxnadal. Böðvar Guðmundsson rithöfundur hefur skrifað söguna og nefnir Jónas Hallgrímsson – Ævimynd .

NÝ ævisaga Jónasar Hallgrímssonar kemur út á 200 ára afmælisdegi hans, eftir viku, á vegum menningarfélagsins Hrauns í Öxnadal. Böðvar Guðmundsson rithöfundur hefur skrifað söguna og nefnir Jónas Hallgrímsson – Ævimynd . Verður eintak af bókinni afhent öllum nemendum í tíunda bekk í grunnskólum landsins að gjöf.

Að sögn Tryggva Gíslasonar, magisters og formanns menningarfélagsins Hrauns í Öxnadal ehf., rekur Böðvar ævi og störf skáldsins, náttúrufræðingsins og stjórnmálamannsins Jónasar Hallgrímssonar og bregður ljósi á þá þætti í lífi hans sem gerðu hann að skáldi. Inn í ævisöguna er fléttað kvæðum Jónasar og brotum úr bréfum hans og dagbókum sem tengjast sérstaklega þroskaferli hans sem manns og skálds.

Minningarstofa á Hrauni

Sama dag, 16. nóvember, opnar forseti Íslands minningarstofu um Jónas Hallgrímsson á fæðingarstað hans, Hrauni í Öxnadal.

Að Hrauni verður til frambúðar sýning þar sem brugðið verður upp svipmyndum úr ævi þessa fyrsta nútímaskálds Íslendinga sem með ljóðum sínum fann fegurð íslenskrar náttúru og hefur mótað íslenskar bókmenntir og íslenska list í hartnær tvær aldir, eins og Tryggvi kemst að orði.

Lýst er ljóðmáli og myndlíkingum í kvæðum hans og gerð grein fyrir nýyrðasmíð hans, bæði í ljóðum og fræðiritum. Sýningin er gerð með það fyrir augum að gestir komist í snertingu við manninn Jónas Hallgrímsson á ýmsum æviskeiðum hans. Þjóðminjasafn Íslands lánar skrifborð úr eigu Jónasar og líkan af húsi því sem hann bjó síðast í í Kaupmannahöfn, við opnun sýningarinnar. Minningarstofan er hluti af minningarsetri um Jónas sem komið verður á fót á Hrauni í samvinnu við ýmsar rannsóknar- og menningarstofnanir, skv. upplýsingum Tryggva Gíslasonar.

Auk minningarstofunnar verður á Hrauni rannsóknaraðstaða fyrir fræðafólk í bókmenntum, náttúruvísindum og stjórnmálum, en Jónas fjallaði um alla þessa þætti á stuttri starfsævi sinni.

Annar hluti af minningarsetrinu er fólkvangur í landi Hrauns sem nefndur hefur verið Jónasarvangur og opnaður var í sumar. Meginhluti jarðarinnar var þá gerður að náttúrulegu útivistarsvæði fyrir almenning. Innan fólkvangsins er m.a. Drangafjall með hinum sérstaka Hraundranga, sem kemur fyrir í kvæði Jónasar Ferðalokum, sem nefnt hefur verið fegursta ástarljóð ort á íslenska tungu, en er um leið óður til landsins og fegurðarinnar.

Í hnotskurn
» Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, mun að morgni afmælisdags Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember, afhenda fyrstu eintök hinnar nýju ævisögu nemendum Þelamerkurskóla sem minnast um leið drengsins sem fæddist og ólst upp í sveitinni og varð skáld, listaskáldið góða.