13. nóvember 2007 | Innlendar fréttir | 322 orð | 1 mynd

Fagnar Hagavatnskönnun

Uppfok Greinilega mátti sjá úr 3.000 m hæð hvernig jarðvegur fauk úr gömlum botni Hagavatns 15. ágúst síðastliðinn. Með því að færa yfirborð vatnsins í þá hæð sem það var 1929-'39 mun draga mjög úr foki jarðvegs.
Uppfok Greinilega mátti sjá úr 3.000 m hæð hvernig jarðvegur fauk úr gömlum botni Hagavatns 15. ágúst síðastliðinn. Með því að færa yfirborð vatnsins í þá hæð sem það var 1929-'39 mun draga mjög úr foki jarðvegs. — Ljósmynd/Ásgeir H. Bjarnason
LANDGRÆÐSLA ríkisins, Bláskógabyggð, landeigendur Úthlíðartorfunnar og Orkuveita Reykjavíkur hafa ákveðið að hafa samstarf um að kanna möguleika á því að endurheimta fyrri stærð Hagavatns.
LANDGRÆÐSLA ríkisins, Bláskógabyggð, landeigendur Úthlíðartorfunnar og Orkuveita Reykjavíkur hafa ákveðið að hafa samstarf um að kanna möguleika á því að endurheimta fyrri stærð Hagavatns. Öðrum hagsmunaaðilum verður boðin þátttaka í samstarfinu, að því er segir í tilkynningu frá Landgræðslunni.

Margeir Ingólfsson, oddviti Bláskógabyggðar, sagði að sveitarstjórn Biskupstungnahrepps og síðar sveitarstjórn Bláskógabyggðar hafi oftar en einu sinni ályktað um mikilvægi þess að færa yfirborð Hagavatns til fyrra horfs. Sveitarstjórn Biskupstungnahrepps átti m.a. þátt í því að Landsgræðslan stóð fyrir mati á umhverfisáhrifum stækkunar Hagavatns með stíflugerð árið 1997. Ekki varð af framkvæmdum þá. Nú hefur Orkuveita Reykjavíkur fengið rannsóknarleyfi til að kanna virkjunarmöguleika á svæðinu með því að stækka Hagavatn og nota það sem uppistöðulón.

"Ég fagna því sem oddviti hér að þetta mál fer aftur af stað," sagði Margeir. Hann sagði að drög að viljayfirlýsingu um þátttöku sveitarfélagsins í könnun á stækkun Hagavatns verði lögð fram á fundi sveitarstjórnar á morgun.

"Við höfum litið svo á að það sé mikið hagsmunamál fyrir svæðið að sökkva þessum uppfokseyrum með því að færa yfirborð Hagavatns til fyrra horfs. Ef hægt er að koma fyrir virkjun inni í þeim hugmyndum þá tel ég að það sé jákvætt og að mörgu leyti séum við að tala um umhverfisvæna virkjun. Við erum að stoppa uppblástur og áfok sem er töluvert vandamál hér í uppsveitum." Margeir sagði að áfokið ylli ýmsum óþægindum. Hann býr rétt við Geysi og þegar uppblásturinn er sem mestur sést þar ekki á milli bæja. Þá er uppgræðslustarf Landgræðslunnar á Hagavatnssvæðinu í mikilli hættu vegna uppblástursins. Margeir taldi mjög jákvætt að OR skuli hafa fengið rannsóknarleyfi. Þá sé málið komið í ferli og framkvæmdin verði rannsökuð. Síðan verði gerð umhverfismatsáætlun og umhverfismat. Í því ferli komi öll sjónarmið upp á borðið. "Við fáum þá bara niðurstöðu í þetta mál. Það er þessu verkefni ekki til framdráttar að blása það út af borðinu áður en hægt er að fara af stað með rannsóknir," sagði Margeir.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.