Náttúra í ljóðum Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir veitti Jónasarvefnum formlega viðtöku í Iðnó í gær.
Náttúra í ljóðum Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir veitti Jónasarvefnum formlega viðtöku í Iðnó í gær. — Morgunblaðið/Ómar
Eftir Ingveldi Geirsdóttur ingveldur@mbl.is Jónasarvefur var afhentur íslenska skólakerfinu við hátíðlega athöfn í Iðnó í gær.

Eftir Ingveldi Geirsdóttur

ingveldur@mbl.is

Jónasarvefur var afhentur íslenska skólakerfinu við hátíðlega athöfn í Iðnó í gær. Það var menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín

Gunnarsdóttir, sem veitti vefnum formlega viðtöku frá Mjólkursamsölunni sem stendur að vefnum í samstafi við Hvíta húsið.

Á vefnum mynda 816 náttúrumyndir hina þekktu vangamynd af Jónasi Hallgrímssyni, en myndirnar eru einnig tenglar inn á ljóð sem fjalla um viðkomandi stað eða fyrirbæri. Um er að ræða langstærsta safn íslenskra náttúruljóða sem tekið hefur verið saman, enda var markmiðið að búa til ljóða- og kennsluvef þar sem margmiðlunartækni er notuð til þess að flétta fræðigreinar Jónasar saman við íslensk náttúruljóð.

Besta afmælisgjöfin

„Jónas vann sjálfur alla sína ævi við að skrifa mikla Íslandslýsingu, í þeim tilgangi þvældist hann um allt land í rannsóknarskyni. Þetta átti að vera bók sem hefði að geyma sögu, náttúrufræði, örnefni, landafræði og bókmenntir, ein allsherjar Íslandslýsing. Nú með þessum vef lít ég svo á að okkur hafi tekist að einhverju leyti að uppfylla gamlan draum Jónasar með því að þarna tengist saman, þökk sé tækninni, íslensk náttúra og íslensk tunga, þetta tvennt sem Jónas mat mest við Ísland. Þarna kemur það tvennt saman í einni heild, einhverskonar Íslandslýsing,“ segir Páll Valsson, einn helsti Jónasar sérfræðingur þjóðarinnar, um vefinn sem hann vann meðal annars að.

„Þetta er mjög yfirgripsmikill vefur, þarna má finna viðamesta safn íslenskra náttúruljóða sem nokkru sinni hefur verið tekið saman. Ljóð Jónasar eru auðvitað hryggjarstykkið en síðan eru náttúruljóð frá 19. og 20. öld eftir um 120 höfunda. Það er t.d. hægt að sjá hvað hefur verið ort um Heklu eða Herðubreið og notendur geta lært á landið um leið og þeir læra á tunguna og njóta ljóðanna.“

Páll segir Mjólkursamsöluna og Hvíta húsið eiga mikið hrós skilið fyrir að hafa komið vefnum á laggirnar. „Það mun enginn annar hugsa um tunguna og náttúruna fyrir okkur svo við verðum að gera það sjálf og þá er það sérstaklega hrósvert þegar einkafyrirtæki ganga fyrir með svona góðu fordæmi,“ segir Páll sem telur vefinn vera eina bestu afmælisgjöf sem Jónas hefði getað kosið sér. „Þarna er Íslandslýsingin hans komin og hann hefði haft gaman af þessari tækni sem vefurinn er.“

www.jonas.ms.is