Minjaverðir Kristín Huld Sigurðardóttir, Nikulás Úlfar Másson og Margrét Hallgrímsdóttir sjá mörg tækifæri og krefjandi verkefni í minjavörslunni.
Minjaverðir Kristín Huld Sigurðardóttir, Nikulás Úlfar Másson og Margrét Hallgrímsdóttir sjá mörg tækifæri og krefjandi verkefni í minjavörslunni. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Jóhönnu Maríu Vilhelmsdóttur jmv@mbl.is „Menningararfurinn er grundvöllur atvinnuuppbyggingar, byggðaþróunar og nýsköpunar.

Eftir Jóhönnu Maríu Vilhelmsdóttur

jmv@mbl.is

„Menningararfurinn er grundvöllur atvinnuuppbyggingar, byggðaþróunar og nýsköpunar. Með því að hlúa að honum löðum við að nýja íbúa og ferðamenn og sköpum nýjar hugmyndir,“ segir Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður.

Í dag eru 100 ár liðin frá setningu fyrstu þjóðminjalaganna og því ágætt tilefni til að staldra við og meta stöðu þjóðminjavörslu á Íslandi.

Fornminjalög verða til

Helsta ástæða lagasetningar um fornminjavernd var svokölluð nýlendusýning í Kaupmannahöfn árið 1905, þar sem sýndir voru forngripir sem keyptir höfðu verið á Íslandi.

Íslenskum stúdentum í Kaupmannahöfn þótti þetta óhæfa og töldu gripina betur komna á Forngripasafninu í Reykjavík.

Lögin sem sett voru 1907 giltu til 1969, en þau sneru fyrst og fremst að verndun, skráningu og friðlýsingu fornleifa og gripa.

Árið 2001 voru Fornleifavernd ríkisins og Húsafriðunarnefnd ríkisins settar á laggirnar til að taka við stjórnsýsluhlutverkinu sem Þjóðminjasafnið hafði áður sinnt. Menntamálaráðuneytið vinnur nú að endurskoðun laganna frá 2001.

Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður, Nikulás Úlfar Másson, forstöðumaður Húsafriðunarnefndar ríkisins og Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins, eru sammála um að taka þurfi meira tillit til fornminja þegar skilgreina skuli menningararfinn.

„Því var lengi haldið fram að einu menningarverðmæti Íslendinga væru handritin og þetta var viðtekin hugsun fram yfir miðja síðustu öld,“ segir Nikulás Úlfar.

Styrkja þarf grunninn

Þau vilja gjarnan að meiri áhersla verði lögð á minjavernd og það sé of algengt í hraða nútímans að ekki gefist tími til að staldra við og meta hvað hafi gildi og sé sérstakt fyrir okkar menningararfleifð.

„Ef eitthvað er sér-íslenskt í okkar menningu þá er það torfbærinn og hvernig hann var byggður. Jafnvel þeir fáu torfbæir sem við höfum sameinast um að varðveita eru margir í mjög slæmu ástandi,“ segir Nikulás Úlfar og bendir á að enn séu margir torfbæir ekki enn komnir í þjóðminjavörslu og liggi því undir skemmdum.

Þeim ber saman um að mikilvægt sé að huga að grunninum. Fjármagni sé of oft varið til alls kyns sýninga og setra, en það sem raunverulega vanti sé uppbygging vandaðra safna og minjastaða um allt land. Slík uppbygging nýtist einnig sem grundvöllur fyrir ferðaþjónustu og atvinnusköpun úti á landsbyggðinni.

Þau telja nauðsynlegt að huga að geymsluaðstöðu og öðrum almennum öryggisatriðum fornminjavörslu. Það sem ekki er sýnilegt vilji lenda á hakanum og gæta verði betur að þessum ósýnilegu grunnatriðum.

Sagan heldur áfram

Varðandi fornleifavernd telur Kristín Huld, forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins, forgangsatriði að hafin verð i markviss fornleifaskráning um allt land. Enn hafi aðeins tæp 25% fornminja verið skráð. Skráning og landfræðilegur gagnagrunnur yfir fornleifar séu forsendur fyrir rannsóknum í framtíðinni.

Þau telja augljóst samhengi á milli þess að verja náttúru landsins og minjar þess. Gott dæmi um það séu húsasöfnin víða um land. Mikilvægt sé að varðveita samhengi minjanna og það sé líka það sem ferðamenn vilji sjá. Menningarlandslag og minjar séu þó ekki óbreytanleg stærð, því sagan haldi áfram og það verði minjavarslan að gera líka.

„Það er mikilvægt að nálgast minjavörslu sem sóknarfæri. Þetta er saga okkar allra og það er mikilvægt að fanga samfélagið eins og það er, sögu og menningu allra sem búa hér,“ segir Margrét Hallgrímsdóttir að lokum.

Þjóðminjasafn með opið hús

Í DAG verður haldið upp á 100 ára afmæli þjóðminjavörslunnar á Íslandi og af því tilefni verður opið hús í Þjóðminjasafni Íslands.

Afmælisár þjóðminjavörslunnar miðast við setningu laga um verndun fornminja árið 1907.

Klukkan 12 flytur Guðmundur Ólafsson erindi um þjóðminjavörslu í landinu. Eftir erindi Guðmundar kemur Unnur Guðjónsdóttir fram í faldbúningi, fer með ljóð eftir Jónas Hallgrímsson og minningaorð um hann, en í dag eru liðin 200 ár frá fæðingu skáldsins. Sérfræðingar verða á staðnum milli kl. 12 og 14 og munu fræða gesti um sýningar og safngripi.