Orðauðgi „Tungan sem maður elst upp við gefur manni orð og sýn yfir heiminn, en það er alltaf takmarkað hvað maður kann í erlendum tungumálum,“ segir Vigdís.
Orðauðgi „Tungan sem maður elst upp við gefur manni orð og sýn yfir heiminn, en það er alltaf takmarkað hvað maður kann í erlendum tungumálum,“ segir Vigdís. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Einar Fal Ingólfsson efi@mbl.is Verðlaun eru alltaf hvatning,“ segir Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, sem afhendir í dag ný íslenskuverðlaun menntaráðs Reykjavíkur.

Eftir Einar Fal Ingólfsson

efi@mbl.is

Verðlaun eru alltaf hvatning,“ segir Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, sem afhendir í dag ný íslenskuverðlaun menntaráðs Reykjavíkur. „Mér finnst mikilvægt að þessi verðlaun tengjast stórskáldinu okkar, Jónasi Hallgrímssyni, 200 ár aftur í tímann. Þetta eru ný verðlaun en vekja upp minningar um fortíð, um eitthvað sem kom á undan okkur og er stórmerkilegt, rétt eins og við erum í dag. Vitaskuld er stórmerkilegt að við, sem erum 300.000, högum okkur eins og við værum nokkrar milljónir. En við þurfum að gæta þess að láta ekki önnur tungumál troða okkur um tær í vanmetakennd yfir að okkar tungutak sé eitthvað ómerkilegra en tungutak annarra þjóða.

Það er stórmerkilegt að við skulum hafa haldið þessu tungumáli og við eigum að gera allt sem við getum og hvetja til viðhalds þess og uppbyggingar.

Við eigum að skapa ný orð yfir nýja tíma, leita að gömlum orðum og færa þau inn í nútímann, vegna þess, eins og Halldór Laxness sagði, að ef við sökkvum í þjóðahafið þá höfum við tapað okkur sjálfum en enginn grætt á því. Þá er saga þessa lands og þessarar þjóðar í landinu töpuð.“

Vigdís vill sjá meiri íslenskukennslu í skólum, að ungt fólk fái aukna æfingu í að tala íslensku. Hún óttast að börn séu alin upp við það í dag, að ekki skipti svo miklu máli hvernig þau koma fyrir sig orði og hvað þau kunni í íslenskunni. Það þurfi að stuðla að aukinni orðauðgi.

„Ég er af þeirri kynslóð sem lærði ljóð. Ég kann til að mynda mikið af Jónasi. Ég hefð viljað að börnin færu aftur að læra gömlu ættjarðarljóðin, því það er hægt að læra svo mikið af þeirra tungutaki, orðatiltækjum og fallegum ljóðrænum orðum í skáldskapnum.“

Misskilningur um tvítyngi

Undanfarið hefur verið rætt um aukna notkun á ensku innan stórra íslenskra fyrirtækja. Vigdís segist eki sátt við þá þróun.

„Mér finnst að fyrirtækin eigi ekki að senda þau skilaboð út í þjóðfélagið að þau iðki þetta. Þetta er aðför að íslenskunni. Okkur kemur hinsvegar ekkert við hvað þau tala um innan sinna vébanda. Þarna er aftur þessi misskilningur um tvítyngi. Tvítyngi þýðir að alast upp við tvö tungumál og ráða við bæði. En þetta er tveggja mála stefna hjá þessum fyrirtækjum, ekki tvítyngi. Það hryggir mig þegar verið er að reyna að sannfæra fólk um nauðsyn þess að setja annað tungumál fullgilt við hliðina á okkar máli.“

Hún vitnar í finnska rithöfundinn Antti Tuuri: „Ég get sagt hvað sem ég vil á mínu eigin máli en bara það sem ég kann á öðrum tungumálum“.

„Maður getur komið orðum að öllu sem maður vill á sinni eigin tungu, því tungan sem maður elst upp við gefur manni orð og sýn yfir heiminn, en það er alltaf takmarkað hvað maður kann í erlendum tungumálum, alveg sama hvað maður hefur verið lengi í háskólum að læra þau.

Aftur á móti er afar gagnlegt að læra erlend tungumál. Þekking á erlendum tungumálum styrkir meðvitundina og virðinguna fyrir eigin tungumáli. Við eigum að efla virðinguna fyrir íslenskunni, vegna þess að ef við glutrum henni niður þá eigum við ekkert lengur.“

Ríkisstjórnin hugsi fyrst og fremst um tunguna

Umtalsverðar breytingar hafa orðið á íslensku samfélagi með auknum straumi innflytjenda til landsins. Vigdís segir að tvímæalalaust eigi að leggja aukna áherslu á íslenskukennslu fyrir þetta fólk.

„Það veitir fólki lífsgleði að geta tjáð sig og skilið málið sem það er að vinna með. Ég var spurð að því í Alþjóðahúsinu um daginn, hvað mér finndist að ríkisstjórnin ætti að gera í þessum málum. Ég sagði að ríkisstjórnin ætti fyrst og fremst að hugsa um íslenska tungu. Þeir sem búa hér eiga auðvitað að laga sig að þjóðfélaginu, þar á meðal læra tungumálið. Þegar við Íslendingar búum erlendis, þá lögum við okkur alltaf að þeirra þjóða siðum og tungumálum.“

Jónas hjálpar okkur að skilja

Hún er ánægð með það framtak Bubba Morthens að skamma dægurlagasöngvara sem syngja á ensku.

„Mér finnst aðdáunarvert hjá Bubba að taka þetta upp. Þegar Keflavíkursjónvarpið var og hét þá fóru sumir að syngja á ensku. En þá tóku dægurtónlistarmenn sig saman og fóru að syngja á íslensku. Mér finnst dapurlegt ef tónlistarfólki finnst hallærislegt að syngja á íslensku. Það er eins og þau treysti sér ekki til að nota tilfinningaorð á sínu eigin máli. Eins og tilfinningaorð eru falleg á íslensku! Að unna, til dæmis.

Sumir eru að fela sig bak við einhvern skerm; kannski vegna þess að íslenskan er svo sterk fyrir okkur.“

Við ræðum að lokum um afmælisbarn dagsins, Jónas Hallgrímsson.

„Ef hægt er að segja um látinn mann að hann hafi gengið í endurnýjun lífdaga, þá á það við um Jónas,“ segir Vigdís og brosir. „Okkur þykir svo innilega vænt um Jónas að við verðum að halda upp á þennan dag.

Hugsaðu þér að yrkja ljóð eins og um fjallið Skjaldbreið. Svona jarðfræði. Það er svo magnað.

Jónas hjálpar okkur líka við að skilja fortíðina. Hann hjálpar okkur að skilja hvernig það er að missa föður sinn. Hann hjálpar okkur að skilja hvernig það er að fara aleinn út í heim að læra. Hann hjálpar okkur að skilja hvernig það er að eiga vini sem taka sig saman, hugsa heim til Íslands og vilja landinu sínu allt hið besta, af því þeir vita um armæðuna á Íslandi. Mér finnst að öll börn eigi að fá að heyra hvernig þetta var á dögum Jónasar.

Fólkið bjó við vosbúð, óþefjan og eymd í landinu en þeir töluðu aldrei um það.

Þeir voru svo brennandi til andans, hugurinn svo stór og metnaðurinn fyrir þjóðina svo mikill. Og allir draumar þeirra hafa ræst!“

Ný íslenskuverðlaun menntaráðs

Í DAG verða íslenskuverðlaun menntaráðs Reykjavíkur afhent reykvískum skólabörnum í fyrsta skipti, en ætlunin er að þeim verði úthlutað árlega á Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember.

Hver grunnskóli í Reykjavík hefur tilnefnt þrjá nemendur eða nemendahópa til verðlaunanna og mun Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, sem er verndari verðlaunanna, afhenda öllum börnunum verðlaunagripi eftir listakonuna Dröfn Guðmundsdóttur.

„Markmiðið er að auka áhuga æsku borgarinnar á íslenskri tungu og hvetja til framfara í tjáningu talaðs máls og ritaðs,“ segir Marta Guðjónsdóttir varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks. Hún er formaður nefndar um íslenskuverðlaun menntaráðs og hefur haldið því starfi áfram, í góðu samstarfi við nýjan meirihluta í borginni. Marta hefur sjálf kennt íslensku í mörg ár og er málið því skylt.

„Verðlaunin eru veitt nemendum sem hafa tekið sérstökum framförum eða hafa náð góðum árangri í íslensku, hvort sem þeir eiga hana að móðurmáli eða læra hana sem annað tungumál.“

Hver skóli mótar þær reglur hvernig nemendur eru tilnefndir til verðlaunanna.

„Ég tel að sóknarfæri til verndar íslenskri tungu felist í góðri íslenskukennslu í grunnskólum. Góð íslenskukennsla hefur ekki bara þýðingu fyrir okkur sem sjálfstæða þjóð, heldur líka þýðingu fyrir hvert okkar sem einstaklinga. Hún opnar okkur dyr að ómetanlegum menningararfi. Svo er margsannað að góðir íslenskunemendur eru yfirleitt einnig góðir í öðrum námsgreinum,“ segir Marta.