Á FUNDI borgarráðs í gær óskaði Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson eftir að tillaga um niðurstöðu í málefnum REI og GGE, sem lögð hefði verið fyrir stýrihóp um málefni Orkuveitunnar, yrði lögð fram á aukafundi borgarráðs í dag.

Á FUNDI borgarráðs í gær óskaði Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson eftir að tillaga um niðurstöðu í málefnum REI og GGE, sem lögð hefði verið fyrir stýrihóp um málefni Orkuveitunnar, yrði lögð fram á aukafundi borgarráðs í dag.

Vilhjálmur greindi frá því að Margrét Sverrisdóttir, forseti borgarstjórnar, hefði skýrt frá „sáttatillögu“ í málinu á borgarráðsfundinum. Í framhaldi af því óskaði hann eftir því að umrædd tillaga, frá fulltrúum meirihlutans í stýrihópnum, yrði kynnt á aukafundi borgarráðs í dag, sem haldinn verður klukkan 10. Ekki verður hinsvegar af því að tillagan verði lögð fram í dag.

Svandís Svavarsdóttir, formaður stýrihópsins, segir aðspurð að gögn stýrihópsins séu „trúnaðargögn sem stýrihópur birtir ekki, enda varði þau oft viðkvæmar upplýsingar, persónur og athafnir þeirra“, og hún muni bóka það á aukafundinum í dag. Stýrihópurinn muni svo leggja fram skýrslu um „lærdóma málsins í lok mánaðarins“, en ekki hafi verið tekin afstaða til þess að hve miklu leyti trúnaðargögn verði birt.

Spurð um „sáttatillöguna“ kannaðist Svandís ekki við það orðalag. „Hún [Margrét] nefndi plagg en notaði ekki þetta orð held ég. [Ég] var ekki á fundinum sjálf undir þessum lið.“

Aðspurð hvort „sáttatillaga“ fælist í „plagginu“ sagðist Svandís ekki vilja kalla þetta sáttatillögu. „Þetta var plagg með punktum sem var lagt fram sem vinnuskjal inni á fundi. Það koma haugar af allskonar gögnum fram á þessum fundum.“

Vilhjálmur staðfesti hinsvegar að hann hefði séð „sáttatillöguna“. En hann væri bundinn trúnaði og gæti þess vegna ekki skýrt frá henni.

Hanna Birna Kristjánsdóttir staðfestir þau orð Margrétar að tillaga hafi verið lögð fram á fundi stýrihóps, en óskað hafi verið eftir trúnaði um efni hennar og þess vegna vilji hún ekki tjá sig um málið.