SÖNGTÓNLEIKAR verða í Glerárkirkju í kvöld þar sem ýmsir „Konnarar“ koma fram, en svo eru kallaðir afkomendur Jóhanns Konráðssonar söngvara og Fanneyjar Oddgeirsdóttur.

SÖNGTÓNLEIKAR verða í Glerárkirkju í kvöld þar sem ýmsir „Konnarar“ koma fram, en svo eru kallaðir afkomendur Jóhanns Konráðssonar söngvara og Fanneyjar Oddgeirsdóttur. Jóhann – Jói Konn, eins og hann var alltaf kallaður – lést fyrir 25 árum en í dag eru nákvæmlega 90 ár frá því hann fæddist.

Jói Konn var ástsæll söngvari og afkomendurnir halda arfleifðinni við; margir þeirra syngja sér og öðrum til ánægju og í kvöld koma söngvararnir í hópnum allir fram, nema Kristján óperusöngvari sem býr á Ítalíu.

Jóhann Konráðsson starfaði lengi sem sjúkraliði og söng jafnan fyrir skjólstæðinga sína og Fanney kona hans vann einnig hjá Fjórðungssjúkrahúsinu. Jóhann var hjartveikur og þess vegna var ákveðið að gefa Sjúkrahúsinu, í nafni þeirra hjóna, hluta ágóða tónleikanna til tækjakaupa.

Kvenfélagið Baldursbrá verður með kaffisölu í kvöld og gefur ágóðann til Sjúkrahússins.

Tónleikarnir hefjast kl. 20.30 og aðgangseyrir er kr. 2.500. Gísli Sigurgeirsson sýnir þátt um Jóa Konn eftir tónleikana í kvöld.

Vert er að geta þess að Konnararnir verða aftur með tónleika á morgun, laugardag, í Blönduósskirkju. Hluti af ágóða þeirra tónleika verður gefinn til sjúkrahússins þar.