Landslag Íris Lind Sævarsdóttir málaði landslag sem horfið er undir Hálslón. Hún hyggst gefa verkið börnum sem fædd eru á lónfyllingartímanum.
Landslag Íris Lind Sævarsdóttir málaði landslag sem horfið er undir Hálslón. Hún hyggst gefa verkið börnum sem fædd eru á lónfyllingartímanum. — Ljósmynd/ÍLS
Eftir Steinunni Ásmundsdóttur steinunn@mbl.is Egilsstaðir | Landslag til sölu eða gefins er nafn nýopnaðrar sýningar Írisar Lindar Sævarsdóttur í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Þar má finna gríðarstórt málverk af landslagi sem farið er undir Hálslón.

Eftir Steinunni Ásmundsdóttur

steinunn@mbl.is

Egilsstaðir | Landslag til sölu eða gefins er nafn nýopnaðrar sýningar Írisar Lindar Sævarsdóttur í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Þar má finna gríðarstórt málverk af landslagi sem farið er undir Hálslón. Verkið er sett saman úr 362 römmum og verður gefið börnum fæddum á tímabilinu 28. september 2006 til 24. september 2007, eða á fyllingartíma Hálslóns. Verkið tileinkar Íris Lind Stefáni Jónssyni Stórval afabróður sínum og segir að börn hafi verið honum einstaklega kær. „Þessi sýning var hluti af lokaverkefni mínu við Winchester School of Art í Englandi, sem ég lauk í september sl. Daginn sem ég flaug út til náms var byrjað að láta renna í Hálslón. Mig langaði að gera verk handa þeim börnum sem kæmu aldrei til með að sjá þetta land sem fer undir vatn, né hafa neitt um það að segja hvernig því er ráðstafað,“ segir Íris Lind. Talsvert af römmunum er þegar pantað og segir hún fólk víða af landinu hafa sýnt áhuga.

Land og saga horfin undir vatn

Hún hvetur áhugasama foreldra og ættingja barna fæddra á þessum tíma til að hafa samband í síma 898-3143 eða með netpósti á irislind@gmail.com. Verkið verður afhent foreldrum eða umboðsaðilum á lokadegi sýningarinnar 18. nóvember nk. Það mun einnig verða til sölu fyrir þrjár milljónir króna og verður ekki gefið ef af sölu verður.

Á myndinni, sem máluð er eftir ljósmynd Skarphéðins G. Þórissonar, má sjá Sauðafell uppi til hægri, sjónarhornið er úr lágflugi rétt utan við Sauðá. „Þetta er rétt utan við Sauðá og horft inn á sethjalla sem loka Hjalladal,“ segir Skarphéðinn. „Svo sést í Tröllagilið, en þar stutt frá var bergrisinn sem féll í ána. Á bak við sethjallana er allstór hvilft, við sjáum í gráan mel og þar fyrir innan var rétt Aðalbólsmanna, þar fóru þeir fyrri part sumars og ráku í rétt og féð var rúið. Handan við á hjallanum á bakvið er Lindin og þar var Lindakofi. Þá er sléttan inn eftir og sést inn á Brúarjökul og Kringilsárrana. Sjónarhornið er nú ofan í lóninu og u.þ.b. tvær efstu raðirnar í myndinni sem standa upp úr.“

Í hnotskurn
» Íris Lind Sævarsdóttir sýnir í Sláturhúsinu á Egilsstöðum verkið Landslag til sölu, málverk í 362 hlutum sem sýnir landslag sem nú er á botni Hálslóns Kárahnjúkavirkjunar.
» Listamaðurinn hyggst gefa börnum sem fædd eru á lónfyllingartímanum sinn hlutann hverju, þar sem þau munu aldrei fá að sjá með eigin augum landslagið undir lóninu eða hafa nokkuð að segja um ráðstöfun þess.